15.04.1980
Sameinað þing: 44. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

223. mál, íslenskukennsla í Ríkisútvarpinu

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er enginn tími til þess að ræða virkjunarmál í örstuttum fyrirspurnatíma. Ég vil þó í tilefni af fsp. frá hv. þm. Friðrik Sophussyni, hvort venjulegt sé að taka svo til orða um ráðstöfun á fjármagni sem gert er í aths. með fjárlagafrv. nú; að fé það, sem er undir liðnum virkjunarrannsóknir, skuli notað að mestu leyti á Austurlandi, taka það fram, að ég held að það sé engin nýlunda. Í aths. fjárlagafrv. er þetta iðulega orðað með nokkuð svipuðum hætti, að fé til slíkra hluta eigi að verja á tilteknum svæðum að meira eða minna leyti.

Varðandi það, sem hér hefur verið rætt um virkjanaröð og það undirbúningsstig sem er á einstökum virkjunarkostum, þá skýrist þetta atriði af því, sem raunar kom fram hjá hæstv. iðnrh., og staðfestir það, sem kom fram hjá Jakob Björnssyni orkumálastjóra í sjónvarpi, að ég hygg í gær eða fyrradag, að Blönduvirkjun er komin að hönnunarstigi. Fljótsdalsvirkjun á eftir 1–2 ár að ná slíku hönnunarstigi og Sultartangavirkjun á eftir eitt ár til þess að ná þessu hönnunarstigi. Þess vegna er eðlilegt að rannsóknarfé, sem varið er til rannsókna áður en hönnunarstigi er náð, sé varið að verulegu leyti á Austurlandi, eins og gert er ráð fyrir samkv. fjárlagafrv. Hitt er svo annað mál, að á þessu ári er nauðsynlegt að taka ákvörðun um næstu stórvirkjun. Ríkisstj. hefur sett það í sinn stjórnarsáttmála, að næsta stórvirkjun skuli vera utan eldvirkra svæða. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að úr því verði skorið á þessu ári, hvort um Blönduvirkjun eða Fljótsdalsvirkjun verður að ræða, og þá ákvörðun á auðvitað að taka á hagkvæmnisgrundvelli og í ljósi þeirra rannsókna sem hafa verið gerðar þegar líður á árið. Það þarf enginn að efast um áhuga minn í þessu efni, en ég hlýt þó, vegna þess hvað stórvirkjanir kosta gífurlega fjármuni, að líta svo til að hagkvæmni eigi að ráða vali virkjunarkosta á milli þessara tveggja sem hér er um rætt. Verði það svo, að ekki náist niðurstaða um það, á hvorum staðnum eigi að virkja næst, í Blöndu eða austur í Fljótsdal, þá vitum við að næst verður virkjað áfram á Þjórsár- eða Tungnaársvæðinu, því að hvað sem menn vilja togast á um þessi mál, þá getum við ekki stöðvað virkjunarframkvæmdir í landinu vegna þess að raforkuþörfin rekur hratt á eftir. Þess vegna tel ég mjög nauðsynlegt að unnið verði fastlega að því að leysa þau vandamál sem enn standa fyrir því að hægt sé að taka ákvörðun og því lokið á þessu sumri sem í hönd fer, þannig að unnt verði að taka ákvörðun með haustinu.