15.04.1980
Efri deild: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar klofnaði í afstöðu sinni til þess frv., sem hér er á dagskrá, og einnig til þeirra brtt. sem fylgismenn núv. hæstv. ríkisstj. flytja á sérstöku þskj. Nál. 2. minni hl. n . er á þskj. 318.

Hv. þm. Guðmundur Bjarnason hefur gert grein fyrir till. 1. minni hl. n., og kom þar fram að 1. minni hl. telur að hér sé verið að lækka skatta um 1.5 milljarða kr. frá þeim forsendum sem fyrr var gengið út frá. Það er því miður mjög mikil blekking að halda því fram, að hér sé verið að lækka skatta um 1.5 milljarða. Gengið var út frá því með frv. því sem hér er til umr., að tekjuskattar og eignarskattar yrðu 1.5 milljöðrum hærri en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir, en þessar tillögur 1. minni hl. gera ráð fyrir að tekju- og eignarskattur verði eins og áætlun fjárlagafrv. eða nokkurn veginn þannig. Hér er því ekki um 1.5 milljarða lækkun að ræða frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv., heldur er verið — að færa þessar tillögur til samræmis við áætlun fjárlaga.

En þessar tillögur 1. minni hl. fjh.- og viðskn. fela í raun í sér 2–3 milljarða kr. hækkun á tekjuskatti einstaklinga frá tekjuáætlun fjárlaga. Í fjárlögunum er gert ráð fyrir að innheimta í ríkissjóð alla þá skattahækkun sem vinstri stjórn lagði á með afturvirkum sköttum haustið 1978. Þessar tillögur 1. minni hl. fjh.- og viðskn. bæta 2–3 milljörðum við tekjuskattsbyrði einstaklinga ofan á vinstristjórnarhækkanirnar. Þetta frv. og brtt. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. eru því einn þáttur í þeirri gífurlegu skattahækkun sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir og almenningur finnur nú fyrir í æ ríkara mæli með hverjum deginum sem liður.

Þegar fjallað er um skattstiga og álagningu tekjuskatts er auðvitað grundvallaratriði að gera sér grein fyrir því, hverjar þær tekjur eru, sem verið er að leggja skattinn á, og hvernig þær tekjur dreifast. Fram að síðasta fundi fjh.- og viðskn., sem haldinn var á föstudag, var í þessu efni gengið út frá því, að tekjur hefðu hækkað á milli áranna 1978 og 1979 að meðaltali um 45%. Var þá stuðst við áætlun Þjóðhagsstofnunar sem reist var á breytingum kauptaxta og annarra þátta sem áhrif hafa á tekjur. Betri og nákvæmari aðferð er að taka úrtak úr skattframtölum og áætla tekjubreytingar milli ára með þeim hætti.

Á fundi nefndarinnar s. l. fimmtudag óskaði ég eftir því, að n. fengi upplýsingar um slíka úrtaksathugun Þjóðhagsstofnunar sem mér var kunnugt um að væri að fara fram. Þessu var ekki vel tekið í fyrstu í n. af hv. formanni, en sæst á að spyrja hvort slíkar upplýsingar lægju ekki á lausu. Daginn eftir var svo lagt fram í n. plagg frá Þjóðhagsstofnun, dags 10. apríl 1980, sem ber yfirskriftina: „Áætlun um breytingar á tekjum einstaklinga 1978–1979.“ Þessi grg. er birt sem fskj. 1 með áliti 2. minni hl. n. Í grg. kemur fram að úrtaksathugun hefur farið fram á nokkrum stöðum á tekjubreytingum milli áranna 1978 og 1979 samkv. skattframtölum, og þar segir orðrétt:

„Niðurstöður úrtaksathugunarinnar eru eftirfarandi: Breyting atvinnutekna 1978–79 í %:

Reykjavík 46%

Hafnarfjörður 54%

Keflavík 48%

Grindavík 52%

Sandgerði 55%.“

Síðan segir orðrétt: „Meðaltal þessara staða vegið með tekjum 1978 er 47%.“

Þá segir enn orðrétt í grg.: „Milli áranna 1977 og 1978 hækkuðu meðalbrúttótekjur á ofangreindum stöðum um 56.2%, en annars staðar á landinu um 60%. Óvíst er hvort munurinn er sá sami nú, þar sem tekjuhækkun hjá bændum var óvenjumikil 1978, en á hinn bóginn var tekjuhækkun sjómanna og þeirra, er vinna við fiskvinnslu, meiri en meðaltalshækkun í fyrra og vegur það þyngra utan þess svæðis sem úrtakið nær til.“

Af framangreindum tilvitnunum í skýrslu Þjóðhagsstofnunar er líklegust tekjubreyting milli áranna 1978 og 1979 47–48%, og alveg er ljóst að hún verður talsvert meiri en 45%, sem gengið er út frá í tillögum hv. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Skylt er að geta þess, að fram kom hjá sérfræðingi Þjóðhagsstofnunar, sem kom á fund n., að ætti hann að nefna eina tölu um tekjubreytingu milli ára mundi hann telja að hún væri 47%.

Í tekjuáætlun fjárlaga er miðað við að álagður tekjuskattur á einstaklinga nemi 43 milljörðum 500 millj. kr. Samkv. tölvuútreikningi hafa brtt. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. í för með sér að þessi upphæð næst og þó ívið betur, miðað við að tekjubreyting milli áranna 1978 og 1979 hafi verið 45%. Nú er það ljóst samkv. nýjustu upplýsingum, sem ég las hér áðan, að tekjubreytingin verði 47–48%, og jafnframt er það upplýst, að hvert prósentustig í tekjubreytingum milli ára til hækkunar frá 45% leggur einn milljarð í auknar skattálögur á almenning. Tillögur 1. minni hl. fjh.- og viðskn. munu því hafa í för með sér 45.5–46.5 milljarða og tekjuskattsálögur á einstaklinga í ár þá hækka, eins og ég sagði áðan, um 2–3 milljarða kr. og verða 2–3 milljörðum kr. hærri en 1. minni hl. n. vill vera láta.

Það er athyglisvert í þessu sambandi, að þeir þm., sem styðja núv. hæstv. ríkisstj., og ríkisstj. sjálf hafa annaðhvort ætlað að leyna almenning þeirri vitneskju sinni, að tekjubreyting væri meiri milli ára en gert var ráð fyrir við gerð fjárlaga og tekjuskattar yrðu þar af leiðandi meiri og þyngri, eins og ég hef gert hér grein fyrir, eða þá að hæstv. ríkisstj. og stuðningslið hennar hefur ekki gert sér grein fyrir þessum breyttu forsendum þegar skattstiginn var ákveðinn sem 1. minni hl. fjh.- og viðskn. leggur hér fram í umboði ríkisstj.

Mikil skæðadrífa nýrra og hækkaðra skatta hefur dunið yfir þjóðina að undanförnu. Nú er svo komið að heildarskattheimta ríkis og sveitarfélaga þyngist á yfirstandandi ári um hvorki meira né minna en 54 milljarða vegna aðgerða núv. ríkisstj. og fyrri vinstri stjórnar. Hér er um að ræða hvorki meira né minna en 1300 þús. kr. í auknar skattaálögur á hverja fimma manna fjölskyldu í landinu. Ítarleg grein hefur verið gerð fyrir þessum auknu skattaálögum í umr. um fjárlög og enn fremur í nál. okkar í 2. minni hl. fjh.- og viðskn. og skal ég því ekki rekja það nákvæmlega hér, en stikla á stóru.

Af þessari 54 milljarða kr. skattahækkun af völdum þessara tveggja ríkisstj. hækka beinir skattar um 25 milljarða frá því sem verið hefði ef sama hlutfall tekna gengi til greiðslu þeirra og á árinu 1978. Tekju- og eignarskattar, sjúkratryggingagjöld, útsvar og fasteignaskattar námu árið 1978 11.6% af brúttótekjum skattgreiðenda á greiðsluárinu. Hér er átt við venjulega álagningu það ár, áður en afturvirku sköttunum var bætt við. Þessir skattar eru að mati Þjóðhagsstofnunar í ár 14.2% af brúttótekjum yfirstandandi árs, þ. e. greiðsluársins. Í þeirri áætlun Þjóðhagsstofnunar er einungis gert ráð fyrir að tekju- og eignarskattar verði í samræmi við tekjuáætlun fjárlagafrv., en ekki 2–3 milljörðum hærri, og að heimild til 10% hækkunar útsvars verði aðeins nýtt að hálfu. Raunsærra er því að gera ráð fyrir að þetta hlutfall verði í framkvæmd 14.6–14.8%.

Þjóðhagsstofnun hefur áætlað brúttótekjur framteljenda 820 milljarða kr. 1980 miðað við 47% tekjubreytingu milli áranna 1978 og 1979. Miðað við álagningarreglurnar 1978 yrðu beinir skattar í ár 95 milljarðar, en þeir hækka upp í 120 milljarða samkv. þeim till. sem hér eru til umr. frá 1. minni hl. fjh.- og viðskn. um tekju- og eignarskatt og miðað við aukna heimild til álagningar útsvara svo og gildandi lög um sjúkratryggingagjald og fasteignaskatta. Hér er því um að ræða 25 milljarða kr. skattahækkun óbeinna skatta frá álagningarreglum sem giltu 1978 og er þá — ég ítreka það og endurtek — reiknað á grundvelli hlutfalls af tekjum á greiðsluári.

Óbeinir skattar í ár verða 31 milljarði kr. þyngri vegna ákvarðana núv. ríkisstj. og vinstri stjórnarinnar síðan haustið 1978. Þeir hækka brúttó um 45.5 milljarða, en frá þeirri tölu dregst niðurfelling söluskatts á matvörum og tollalækkunum 14 500 millj. kr., þannig að eftir stendur skattahækkun óbeinna skatta um 31 milljarð.

Hér er um að ræða hækkun söluskatts og vörugjalds, sem ákveðin var í fyrrahaust af vinstri stjórninni og leggur í ár 18 milljarða skattaálögur á þjóðina, en í fyrra voru þessar skattahækkanir 2.7 milljarðar vegna þess hversu seint hækkunin kom til framkvæmda á árinu. Gjald á ferðalög til útlanda, nýbyggingagjald, skattur á verslunarhúsnæði og aðlögunargjald eru allt nýir skattar sem fyrst voru lagðir á af vinstri stjórninni. Orkujöfnunargjald, sem í raun er almenn söluskattshækkun og er uppfinning núv. hæstv. ríkisstj., leggur nýja skattbyrði á sem nemur 6 milljörðum í ár en á 12 mánuðum tæplega 8 milljörðum. Þessir skattar eru innifaldir í þeim 31 milljarði sem ég nefndi áðan. Það er nýir hækkaðir óbeinir skattar af völdum vinstri stjórnar og núv. hæstv. ríkisstj. Í þeirri tölu er einnig innifalinn 10.1 milljarður, sem eru auknar skattaálögur á bensín frá árinu 1978 umfram verðlagshækkanir.

Skattaálögur á bensín hafa þrefaldast að krónutölu síðan 1978, og er nú svo komið að hvergi í veröldinni eru meiri skattar á rekstrar- og stofnkostnað bifreiða en á Íslandi. Samtímis þessum gífurlegu skattaálögum hafa bein framlög úr ríkissjóði til vegaframkvæmda verið skorin niður og verða rúmum 2 milljörðum minni að raungildi en 1978, og skattur á bensín rennur í æ ríkara mæli beint í ríkissjóð. Rúmlega helmingur, þ. e. 51%, skatttekna af bensíni gengur til vegaframkvæmda 1978, en samkv. fjárlögum 1980 fara einungis 38% af bensínsköttum í Vegasjóð.

Það kemur því úr hörðustu átt, þegar hæstv. fjmrh. lætur hafa eftir sér í fjölmiðlum að síðasta bensínhækkunin, síðasta skattahækkunin á bensíni, sem varð í gær, gangi öll til vega því að nú sé afráðið að ríkissjóður leggi Vegasjóði til einn milljarð kr. á þessu ári. Sannleikurinn í því máli er sá, að ríkissjóður hefur á hverju einasta ári undanfarinn áratug lagt Vegasjóði til fé af þeim sköttum, fyrir utan bensíngjaldið, sem lagðir hafa verið á umferðina. Í fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. var í fyrsta skipti gert ráð fyrir því, að ríkissjóður legði Vegasjóði ekki til krónu af þessum skatttekjum. Við fjárlagaafgreiðsluna var horfið frá því og einn milljarður lagður af skatttekjum ríkissjóðs af umferðinni í Vegasjóð. Til samanburðar var framlag ríkissjóðs 1978 1500 millj. kr. á verðlagi þess árs. Raungildi þess fjármagns í ár væri yfir 3 milljarðar kr., þannig að ríkissjóður hefur á þessu ári skert framlög sín til Vegasjóðs um 2 milljarða, en ekki aukið um einn milljarð eins og hæstv. ráðh. vildi að fólk skildi sig.

Eins og kunnugt er hækkaði verð á bensínlítra í gær um 60 kr. Þar af renna 42 kr. í ríkissjóð og er bensíngjald þó ekki nema rúmlega 20 kr. af því. Eftir þessa hækkun sundurliðast verð á bensíni þannig: Bensíngjald í Vegasjóð 96.31 kr. á lítra, söluskattur og tollur 156.14 kr. á lítra, til olíufélaganna 182.50 á lítra. Samtals eru þetta 430 kr. Til ríkisins ganga af þessu verði á bensínlítra 247.50 kr. eða 57.6%, en 21.2% af verðinu fara til vegaframkvæmda. Öllum sæmilega viti bornum mönnum hlýtur að skiljast að hér er stefnt út í algera ófæru.

Eitt arðbærasta félagslega verkefni, sem bíður úrlausnar með þjóðinni, er gerð varanlegra vega. Bundið olíumalarslitlag með 1000 bíla ársumferð er 6–7 ár að borga sig í sparnaði á viðhaldi vegarins. Slíkt slitlag sparar einnig 21% af eldsneytiskostnaði, 170% í viðhaldi hjólbarða, 45% í viðhaldi bifreiða og meðaltalsslit bifreiða er talið 63% meira á malarvegi en vegi með bundið slitlag.

Vegagerð ríkisins telur að 2000–2500 km af íslenskum vegum séu með þeirri ársumferð að arðbært sé að leggja á þá varanlegt slitlag. Þegar slík félagsleg stórvirki bíða úrlausnar er það óskiljanleg fjarstæða að auka sífellt skattálögur til almennra þarfa ríkissjóðs á rekstrar- og stofnkostnað bifreiða, svo að heimsmet er slegið, og minnka samtímis framlög af því fé til vegamála.

Mörgum þótti nóg um hina gífurlegu skattahækkun vinstri stjórnarinnar þá 13 mánuði sem hún sat að völdum frá haustinu 1978. Í kosningabaráttunni í vetur var það eitt af grundvallarstefnumiðum Sjálfstfl. að afnema alla vinstristjórnarskattana og leggja tekjuskattinn niður sem almennan launaskatt. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur farið alveg öfuga leið. Hún viðheldur öllum vinstristjórnarsköttunum og bætir álögum á þjóðina næstum daglega. Hún ber ábyrgð á að söluskatts- og vörugjaldshækkunin, sem ákveðin var í fyrrahaust, leggur á þessu ári 15 milljörðum kr. meiri skattaálögur á almenning en í fyrra. Hún heimilar sveitarfélögunum að leggja á að giska 4–5 milljarða aukaútsvar á skattborgarana. Hún bætir 2–3 milljörðum við tekjuskatta einstaklinga ofan á hækkun vinstri stjórnarinnar og leggur á rýtt orkujöfnunargjald sem eykur skattbyrði um 6 milljarða. Aukaskattreikningur hennar eftir rúmlega tveggja mánaða setu lítur því þannig út:

1. Hækkun á vörugjaldi og söluskatti milljarðar kr.

2. Hækkun útsvara 4.5 milljarðar.

3. Hækkun tekjuskatta 2.5 milljarðar.

4. Orkujöfnunargjald 6 milljarðar.

Samtals 28 milljarðar kr.

Við þetta skattaregistur mætti bæta okurskattlagningu á bensín, sem núv. hæstv. ríkisstj. heldur áfram, og hækkun flugvallagjalds. Fleira mætti tína til. Núv. hæstv. ríkisstj. ber því ábyrgð á meira en helmingi þeirrar auknu skattbyrði sem lagst hefur á skattborgarana frá haustinu 1978. Á tveimur mánuðum hefur hún slegið skattamet vinstri stjórnar sem sat í þrettán mánuði við völd.

Það hefur verið gert mikið úr því, að óvissa ríki um tekjuöflun ríkissjóðs samkv. þeim lögum sem gilda núna um tekjuskatt og eignarskatt: Það kann að vera, að einhver óvissa ríki, einkum um tekjuskatt af félögum, en mér er til efs að sú óvissa sé eins mikil og af er látið af aðstandendum ríkisstj. Og svo mikið er víst, að það væri ástæða til fyrir þá að hafa áhyggjur af þeirri óvissu sem skattborgararnir í landinu hafa verið í á þessu ári, pínulítið meiri áhyggjur en þeir hafa og aðeins einstaka sinnum koma með svolítið millispil um það, hvað skattborgararnir í landinu hafa verið í mikilli óvissu á þessu ári, innan um það sem þeir tala um óvissu um tekjuöflun í ríkissjóð.

Við fulltrúar þingflokks Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar erum algerlega andvígir þessari skattastefnu. Fyrr í vetur fluttum við tillögur um skattstiga ásamt fulltrúa Alþfl. í nefndinni. Þær tillögur voru áfangi á þeirri leið að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum. Þeirri stefnu hefur verið haldið fram af sjálfst. mönnum í meira en áratug og hefur hún víða hlotið hljómgrunn. Þessar tillögur voru felldar m. a. á þeim forsendum, að skoða þyrfti betur hugmyndir um skattstiga, persónuafslætti og fleiri atriði varðandi álagningu tekju- og eignarskatts.

Við fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni flytjum hér enn brtt. við þetta frv. Þessar brtt. fela í sér eftirfarandi meginatriði, og er þá miðað við álagningarhlutfall á tekjur þess árs sem skattarnir eru á lagðir:

1. Að álagning tekju- og eignarskatta hjá einstaklingum og félögum sé sú sama eða sem hliðstæðust og hún var 1978 eftir þeim lögum sem sjálfstæðismenn báru ábyrgð á.

2. Að afnumdir séu afturvirkir skattar sem vinstri stjórnin lagði á haustið 1978 og gilt hafa í einu eða öðru formi síðan. Þessir skattaukar felast m. a. í till. 1. minni hl. fjh.- og viðskn.

3. Að tekjuskattar ríkisins lækki að nokkru á móti þeirri hækkun á útsvörum sem heimiluð var hér á hinu háa Alþingi fyrir forgöngu ríkisstj.

Við fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. teljum að allir þm., sem kosnir voru á Alþ. af listum sjálfstæðismanna, hafi skuldbundið sig til að fylgja slíkri meginstefnu í álagningu tekju- og eignarskatta. Við teljum enn fremur að hér sé um lágmarksskref að ræða til þess að framkvæma þá yfirlýstu stefnu að afnema tekjuskatt á almennar launatekjur.

Í tillögum okkar er lagt til að tekjuskattsstigar einstaklinga verði þannig: 25% af fyrstu 4 millj., 35% af næstu 4 millj. og 45% af hærri tekjum en 8 millj. kr. Við teljum upphæðir barnabóta og persónuafslátt ekki óeðlilegar í tillögum 1. minni hl. fjh.- og viðskn. og gerum ekki brtt. um þær. Þetta þýðir 7.2 milljarða kr. lægri tekjuskatt á einstaklinga en 1. minni hl. gerir ráð fyrir. Hækkun fyrsta skattþrepsins léttir 5 milljörðum af skattbyrði einstaklinga, en annars þrepsins 2.2 milljörðum kr. Skattalækkun verður að meðaltali 16.4% verði þessar tillögur samþykktar, hjá einstaklingum 12% og hjónum 17%. Hjá barnmörgum hjónum mundi skattbyrðin léttast um allt að 33%.

Eftir að heimild var samþykkt um 10% átag á útsvar eru tekjur í efsta skattþrepi samkv. till. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. skattlagðar þannig, að af hverjum 100 kr. fara 64.80 til ríkis og sveitarfélaga. Þessi háa skattprósenta sundurliðast þannig: Tekjuskattur með álagi til Byggingarsjóðs 50.5%, útsvar 12.1%, kirkjugarðsgjald 0.2%, sjúkratryggingagjald 2.0%. Samtals eru þetta 64.8%. Með slíkri skattlagningu er stórlega verið að draga úr framtaki almennings, og það getur varla verið hugmynd þeirra sem ráða skattstefnunni. Skárra er að afla fjár í ríkissjóð með neyslusköttum, að svo miklu leyti sem þörf er á, eyðslusköttum heldur en tekjusköttum sem keyra svo úr hófi. Því er lagt til í tillögum okkar að efsta skattþrepið verði ekki hærra en 45%, þótt æskilegt sé að jaðarskattur samtals fari ekki yfir 50% af tekjum. Í því sambandi þarf að hafa hliðsjón af verðbólgu þegar um eftirágreidda skatta er að ræða. En það er yfirlýst stefna sjálfstæðismanna að jaðarskattur fari ekki yfir 50% í raun.

Um eignarskatta er gerð sú tillaga, að þeir verði eins og 1978 að því er varðar einstaklinga. Sem fyrsti áfangi í lagfæringu eignarskatts er lagt til að hann verði frádráttarbær frá tekjuskatti hjá félögum. Vegna breytinga á ársuppgjöri félaga má búast við verulegri hækkun eignarskatta þeirra. Hlýtur að koma til athugunar að breyta þessari skattheimtu, þar sem hún mun nánast óþekkt annars staðar en hér á landi og er því til þess fallin að draga úr samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega.

Framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands kom á fund nefndarinnar og gat þess, að heildarálag fasteignaskatta ásamt með sérstökum skatti á verslunarhúsnæði legði á atvinnuvegina 3.85% í eignarsköttum og að þann veg greiddi hvert einasta atvinnufyrirtæki — eða a. m. k. flest atvinnufyrirtæki — allar eignir sínar til hins opinbera á 25 ára fresti samkv. þeim lögum sem nú gilda um eignarskatta á atvinnurekstur.

Þær breytingar, sem hér eru lagðar til um lækkun tekjuskatta félaga og eignarskatta einstaklinga, má áætla að dragi úr tekjum ríkissjóðs um 2.5 milljarða kr. Heildartekjutap ríkissjóðs vegna þessara brtt. er því um 9.7 milljarðar. Þegar haft er í huga, að meiri tekjuhækkun almennings milli ára gæti fært ríkissjóði 2–3 milljarða upp í þessa skattalækkun, ætti að vera unnt að finna leiðir til að skera niður útgjöld um 6–7 milljarða kr. til þess að þoka skattheimtunni í framangreinda réttlætisátt. Við undirritaðir erum reiðubúnir til samstarfs um slíkan niðurskurð, enda teljum við útilokað að leysa fjárhagsvanda ríkissjóðs með skattahækkun ofan á skattahækkun oft á ári eins og gert hefur verið undanfarin ár.

Herra forseti. Ég sagði áðan að á þessu ári mundi skattbyrði þyngjast á öllum almenningi vegna aðgerða vinstri stjórnarinnar og núv. hæstv. ríkisstj. um 54 milljarða kr. og um væri að ræða 1300 þús. kr. auknar álögur á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Þetta fé hefðu heimilin handbært ef sömu álagningarreglur skatta til ríkis og sveitarfélaga giltu og 1978, áður en vinstri stjórnin tók við völdum, þ. e. þegar sjálfstæðismenn réðu síðast ríkisfjármálum. Hér er komið að kjarna þess pólitíska ágreinings sem ríkir um skattheimtu hins opinbera. Eru þessar 1300 þús. kr. — eða bróðurparturinn af þeim — betur komnar í ríkissjóði undir pólitískri stjórn en undir stjórn heimilanna í landinu? Er þessi aukna íhlutun hins opinbera rétta leiðin til framfara og aukinnar velferðar almennings? Ef menn svara þessu alfarið játandi, þá vaknar önnur spurning: Hvers vegna krefjast ekki almannasamtök, t. d. ASÍ og BSRB, sífellt hærri skatta og þannig aukinnar velferðar ef það er tilfellið, að forsjá hins opinbera sé svo miklu betri en einstaklinganna og heimilanna í landinu fyrir eigin málum?

Framsóknarmenn og Alþýðubandalagsmenn hafa sýnt það í verki, að þeir sjá ekki aðra leið vænlegri til heilla almennings en að hækka skatta ofan á skatta og skerða þannig ráðstöfunarfé heimilanna til þess að auka ríkisafskipti af málefnum þjóðfélagsþegnanna. Sama stefnan ríkir gegn atvinnuvegunum. Ráðstöfunarfé þeirra og aðgangur að fjármagni er þrengdur til þess að auka ríkisútgjöldin. Alþfl. dansaði með að þessu leyti í vinstri stjórninni og ber þunga ábyrgð á skattastefnu hennar. Þetta eru ekki ný sannindi. Stefna þessara flokka hefur ætið verið þessu marki brennd. Aftur á móti hefur sjálfstfl. ætíð haft þá grundvallarstefnu, að skattheimtu beri að stilla í hóf til þess að heimilin í landinu, einstaklingarnir og forráðamenn atvinnuveganna gætu sem best fundið fótum sínum forráð sjálfir. Það hefur verið skoðun sjálfstæðismanna, að sú stefna leiddi til framfara og farsældar í landinu. Það er því nokkur nýlunda, að nú taka nokkrir þm. Sjálfstfl. ábyrgð á þeirri gegndarlausu skattpíningarstefnu sem ég hef hér gert að umræðuefni, þrátt fyrir skýr fyrirheit um annað fyrir síðustu kosningar.