15.04.1980
Efri deild: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Við höfum nú hlýtt á tvær ítarlegar ræður fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur ítarlega skýrt frá hvað sú skattheimta þýðir fyrir borgarana í landinu sem núv. hæstv. ríkisstj. stendur að. Hann hefur komið með fjölmörg dæmi máli sínu til skýringar. Á sama hátt hefur hv. 2. þm. Reykn. komið með fjölda dæma, dæmið um fátæku ekkjuna og öll hin dæmin.

Það er eðlilegt að menn setji hljóða þegar þeir hlýða á þetta, enda virðist svo að hv. stjórnarsinnar geri það. Ég segi hv. stjórnarsinnum það ekki til lasts að þeir sitji þögulir yfir þessu, því að það ber vott um að þeim er ekki rótt út af þessu máli. En það verður að líta svo á, að þau dæmi, sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa hér dregið fram máli sínu til skýringar, standi, a. m. k. meðan ekki er gerð minnsta tilraun af hálfu stjórnarliðsins til þess að hnekkja þeim. En ég skil ósköp vel hvers vegna hv. stjórnarliðar eru ekki óðfúsir til þess að gera slíkt. Það er auðvitað vegna þess að það er ekki hægt að mæla í móti því, að skattlagning hæstv. ríkisstj., sérstaklega gagnvart þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, er komin út fyrir öll velsæmistakmörk.

Nú væri það að bera í bakkafullan lækinn ef ég héldi áfram að tiltaka fleiri hliðstæð dæmi eins og fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa þegar gert. En það vakna ýmsar spurningar í sambandi við þetta mál. Hvernig stendur á því, að hv. stjórnarliðar ganga svo fram í skattamálunum sem raun ber vitni um? Ég held að það leyni sér ekki, að þeir leggja ekki til grundvallar í þessum efnum hvert gjaldþol skattþegnanna er. En er nú alveg rétt að líta fram hjá slíku? Á ekki jafnmikinn rétt á sér að spyrja um það eins og að spyrja um hvað ríkið þarf mikið til þess að standa undir þeim útgjöldum sem stjórnarherrunum á hverjum tíma þóknast að það geri? Og það er einmitt það sem stjórnarsinnar gera sig seka um í þessu efni. Þeir líta ekki á gjaldþegnana fyrst og fremst, heldur fyrst og fremst á það, hvað mikið þarf í hítina sem þeir eru búnir að búa til. Og meðan svo er stjórnað, meðan stjórnað er í þessum anda, þá er ekki við góðu að búast.

Það er vegna þessa sem ríkisútgjöldin hafa verið stöðugt að hækka, þó mismunandi sé eftir því hverjir hafa verið við stjórn, en alltaf tekið fjörkipp upp á við þegar þetta viðhorf hefur verið í skattheimtumálunum. Það er vegna þessa sem hlutfall ríkisútgjaldanna af þjóðarframleiðslu hefur verið að hækka. Og það segir sína sögu. En það, sem segir kannske skýrasta söguna í þessum efnum, er sú staðreynd, að hlutfall framkvæmdaútgjalda ríkissjóðs hefur stöðugt verið að lækka, og það svo að ef við höldum þessari þróun áfram, þá sjáum við fram á að fjárlög ríkisins verði lítið annað en rekstraráætlun, áætlun um rekstur ríkisins, er. ekki jafnframt framkvæmdir.

Árið 1975 var þetta hlutfall framkvæmdaútgjalda 25% af ríkisútgjöldunum, þ. e. 1/4 fór til framkvæmda, til þess að leggja vegi, til þess að byggja hafnir, skóla, sjúkrahús o. s. frv. En árið 1978 er þetta hlutfall komið niður í 20.4% og árið 1979 í 19%. Og svo á fyrsta stjórnarári og við fyrstu fjárlagagerð núv. vinstri stjórnar hrapar þetta á einu ári niður í 16.7%. Ég er ekki að segja, hv. þm. Stefán Jónsson, að það hafi ekki getað sigið eitthvað í ógæfuátt þegar betri flokkar voru við stjórn en eru nú. En ég sagði að þegar þetta viðhorf til skattþegnanna, sem ég lýsti áðan, hefur verið ákveðnast, — þegar vinstri menn hafa ráðið stefnunni, — þá hefur þróunin verið örust í þessa óheillaátt.

Hvað þýðir svo þetta? Þýðir það að framkvæmdir í landinu, sem ríkið stendur að, minnki í sama hlutfalli og þetta? Nei, það gerir það ekki. En hvaða leið er farin og eftir því sem maður heyrir verður farin af hæstv. núv. ríkisstj. frekar en nokkru sinni fyrr? Hún er sú, að ríkisframkvæmdir, sem áður var venja að fjármagna með framlögum úr ríkissjóði, eru fjármagnaðar með lántökum. Við eigum eftir að sjá það núna, þegar lánsfjáráætlunin kemur, að aldrei hefur verið gengið lengra á þessari braut heldur en nú. En hvað þýðir þetta? Þetta þýðir það, að slíkar fjármálaaðgerðir eru verðbólguhvetjandi vegna þess að það er allt of lítið af framkvæmdafénu tekið af sparnaði, það er tekið með erlendum lánum sem verka sem olía á verðbólgubálið. Það er þetta kerfi ríkisfjármálanna sem núna er búið að ganga sér til húðar, og það er þetta kerfi sem stefna núv. ríkisstj. í skattamálum er miðuð við til viðhalds kerfinu. Þess vegna er þessi skattheimta til þess fallin að ýta undir það frekar en nokkru sinni fyrr, að við stefnum beint í foraðið.

Það, sem nú þurfti að gera, var að móta nýja stefnu. Mér kemur í hug í þessu sambandi hvað gerðist fyrir 20 árum, þegar á ýmsan hátt var mjög svipað ástatt í okkar þjóðfélagi eins og í dag. Þá var það svo, að það skipulag, sem hafði verið einn aðalhvati verðbólgu, dragbítur á hagvöxt og orsök lakari lífskjara en þurft hefði að vera, hafta- og styrkjakerfið, var búið að ganga sér til húðar. Það var þá ekki lengur hægt að halda áfram á sömu braut og gert hafði verið. Menn geta haft skiptar skoðanir á ýmsu sem viðreisnarstjórnin gerði. En við höfum fram á þennan dag búið við það, notið þess, að viðreisnarstjórnin hvarf frá þessu skipulagi og enginn stjórnmálaflokkur í dag hefur það á stefnu sinni að hverfa aftur til þess sem var í þessu efni.

Nú hefur maður heyrt sagt að það sé ekki sanngjarnt að ætlast til að núverandi hæstv. ríkisstj. geti á tiltölulega skömmum tíma mótað nýja stefnu og valdið straumhvörfum í þessu efni. Ég verð að segja það, að mér hefur fundist tal sem þetta, sem hefur komið frá stjórnarliðum, bera vott um að þeir vildu nota þetta sem einhvers konar afsökun eða skálkaskjól fyrir athafnaleysi sínu. Á árinu 1959 var að ýmsu leyti svipað ástand í stjórnmálum landsins eins og var árið 1979. Það voru tvennar kosningar á árinu 1979. Haustkosningar voru síðla í október og fjárlagafrv. fyrir árið 1960 var ekki samþ. fyrr en í aprílmánuði það ár. Vegna hvers var þetta? Vegna hvers var það ekki samþykkt fyrr? Það var vegna þess að þessi stjórn taldi nauðsynlegt að móta stefnu, móta nýja stefnu og aðlaga fjárlögin og skattheimtuna þeirri stefnu. Menn geta deilt um stefnur, en ég er að vekja athygli á þessu vegna þess að ég er að tala um vinnubrögð. Hæstv. núv. ríkisstj. hefur ekki mótað neina stefnu í þessum málum. Hún anar áfram án þess að það sé nokkuð markvisst eða hnitmiðað sem að er stefnt. Það er einungis miðað við það að afla tekna til þess að halda því vonlausa kerfi gangandi sem við búum því við í dag.

Það er að vísu þannig, að ekki er hægt að gera allt í einu, og margt af því, sem þarf að gera, eru slíkar langtímaráðstafanir að þær taka eðlilega nokkurn tíma. En sumt af því, sem þarf að gera, er þess eðlis að það eru skammtímaráðstafanir sem þola ekki bið. Það eru ráðstafanir sem þýða það í sjálfu sér að stjórnvöld og þjóðin undir öflugri forustu segi: hingað og ekki lengra. Það skortir einnig á þetta hjá hæstv. ríkisstj. Þegar tekist verður á við vandamálin, þá hafa þau því miður aukist fyrir það að hæstv. núv. ríkisstj. hefur ekki einu sinni sýnt manndóm til þess að grípa til neinna skammtímaráðstafana sem gætu þýtt að það væri brotið blað í þessum efnum.

Við fulltrúar Sjálfstfl. höfum lagt til í okkar brtt., eins og hér hefur verið lýst, lækkun tekjuskatts og eignarskatts frá því sem gert er ráð fyrir í till. stjórnarliðsins. Þetta þýðir að tekjur ríkissjóðs lækka sem svarar 9.7 milljörðum kr. Það má spyrja um það, hvort nægilega langt hafi verið gengið hjá okkur fulltrúum Sjálfstfl. í þessu efni. Það má spyrja um það, hvort ekki hafi verið ástæða til þess að gera till. um meiri skattalækkun. En það verður að segjast eins og er, að við hljótum að taka nokkurt mið af því, hvað við treystum hv. stjórnarliðum til að gera í þessu efni. Og við höfum ekki viljað vantreysta þeim til þess að þeir athugi þessar till. í alvöru og ljái máls á því að samþykkja þær. Ef hv. stjórnarliðar standa á móti þessum till. og fella þær, þá verð ég að segja, því miður, að við höfum kannske treyst þeim um of.

Ég veit að það, sem talað verður um í þessu sambandi er hvernig á að mæta þessum tekjumissi ríkissjóðs. Þetta mál verður allt miklu einfaldara ef menn ganga út frá því, að höfuðatriðið í þessu efni er að meta hvað gjaldþegnarnir þola. Og það er það sem við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á. Það er ríkisstjórnarinnar að gera ráðstafanir til þess, að þessum tekjumissi verði mætt með því að skerða ríkisbáknið. Við sjálfstæðismenn höfum ýmsar hugmyndir um hvernig það skuli gert, og ég þarf ekki að tíunda það. Við höfum við fjárlagaafgreiðslu m. a. lagt til að niðurgreiðslur á búvöruverði verði stórlega lækkaðar, við lögðum til um 5 milljarða. Við höfum lagt til að lækkað verði framlag til námslánasjóðs. Við höfum lagt til að gerðar verði ráðstafanir til þess að spara á þann veg að ráða ekki þegar í stað í laus embætti hjá ríkinu. Og fleira og fleira mætti telja. Þessi skerðing, sem hér er um að ræða, nemur ekki nema tæpum 3% af heildarútgjöldum ríkisins, og það mætti vel hugsa sér að meira að segja gæti komið til greina flatur niðurskurður á þessari upphæð, ef jafnframt er sýndur manndómur til aukinnar hagræðingar í rekstri ríkisins og þar með að tryggja að þeir missi einskis í sem síst skyldi. (Gripið fram í.) Ég vil segja við hæstv. fjmrh., að ég er reiðubúinn að setjast niður með honum og gefa honum fjölda ráða til þess að leysa þetta mál.

Mér þykir ágætt að hæstv. fjmrh. hefur verið viðstaddur þessa umr., en mér hefði þó þótt enn þá betra ef hæstv. forsrh. hefði líka verið hér. (StJ: Hann er farinn á þingflokksfund.) Já, en það á við, sem ég ætla að segja núna, að aldrei er góð vísa of oft kveðin. Og ég hygg að einmitt það, sem mér er efst í huga núna, höfum við hæstv. forsrh. oft talað um á þingflokksfundum Sjálfstfl. Og ég verð að segja það, að þegar ég er að velta vöngum yfir því, hvort það geti nú þrátt fyrir allt ekki skeð, að till. okkar sjálfstæðismanna til skattalækkunar verði samþykktar í þessari hv. d., þá hef ég nú — með fullri virðingu fyrir hæstv. fjmrh. — einkum haft í huga hæstv. forsrh. Og það er engin tilviljun að ég hef haft hæstv. forsrh. í huga. Ég minnist þingflokksfunda, eins og hv. þm. Stefán Jónsson var nú að nefna, og ég tel mig vita nokkuð hver stefna hæstv. forsrh. hefur verið í þeim efnum sem ég hef verið að ræða um. Og það vill svo til, að ég hef hér í höndunum ekki ómerkara blað en Morgunblaðið, þar sem er grein eftir hæstv. núv. forsrh. — blaðið er frá 28. nóv. 1978. Það er ekki langur tími síðan, þannig að það getur ekki verið fyrnt sem hér er sagt.

Einn meginþátturinn í því, sem ég hef viljað túlka hér í þessari ræðu minni, er að ríkisfjármálin séu meginorsök verðbólgunnar. Hvað segir hæstv. núv. forsrh. um þetta? Hann segir, með leyfi hæstv. forseta: „Í viðureign við verðbólgu er afkoma ríkissjóðs meginmálið.“ Við erum sammála um þetta. Ég hef lagt áherslu á það, að við þyrftum að minnka ríkisbáknið, og það þýðir að minnka ríkisútgjöldin. Hvað segir hæstv. núv. forsrh. um þetta? Hann segir, með leyfi hæstv. forseta: „Þetta verður að gerast með því að lækka ríkisútgjöldin.“ Ég er alveg sammála honum um þetta.

Hæstv. fjmrh. hafði einhverjar áhyggjur út af niðurskurði. Ég held að hæstv. fjmrh. ætti að ræða það við hæstv. forsrh. Ég taldi að það væru margar leiðir til þess að lækka útgjöld ríkissjóðs. Hvað sagði hæstv. núv. forsrh. um þetta? Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta: „T. d. mætti ákveða að þau“ — þ. e. fjárlögin „skuli á næsta ári vera 10% lægri en fjárlagafrv., sem vinstri stjórnin lagði fram í október, og hljóðuðu upp á 350 milljarða kr.“ Ekki erum við ósammála um þetta, ég og hæstv, núv. forsrh.

Eigum við að halda áfram? Ég nefndi í ræðu minni áðan, að það væri hægt að skera niður niðurgreiðslu á búvöruverði, og ég minnti á það, að við sjálfstæðismenn lögðum þetta til við afgreiðslu fjárlaga. Hvað segir hæstv. núv. forsrh. í þessari sömu grein — ég vitna alltaf í sömu greinina—með leyfi hæstv. forsrh.? (StJ: Frá 1978?) Frá 1979, 28. nóv. Það er bara nokkrum dögum áður en hæstv. núv. forsrh. fór í samningamakk við Alþb. og Framsfl. um nýja stjórnarmyndun, eins og nú er upplýst. Hvað segir hæstv. forsrh. nokkrum dögum áður en þetta skeður? Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Niðurgreiðslur úr ríkissjóði á landbúnaðarvörum kosta nú milli 20 og 30 milljarða á ári og eru komnar úr hófi. Hér má spara milljarða. Bændur sjálfir og samtök þeirra hafa látið í ljós, að þær megi helst ekki verða meiri en mismunur á framleiðsluverði og söluverði. Þessar miklu niðurgreiðslur skekkja verðlag og draga úr hvöt til að ráðast í nýjar búgreinar. Þær bjóða heim hættu á misnotkun og spillingu. Þær leiða til þess, að þeir ríku fái meira í sinn hlut úr ríkissjóði en þeir snauðu.“

Ég sé ekki annað en ég sé alveg sammála hæstv. forsrh. í þessu efni. Mér þykir mjög leitt, herra forseti, að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hérna, því að ég hefði haft margfalt meiri ánægju af því ef hann hefði verið hér við. En ég vil ljúka þessu með því að segja: Er það nokkur furða að mér komi til hugar, nú þegar við ræðum það frv. sem hér er á dagskrá, að það geti verið möguleiki á því að hæstv. forsrh. sjái sér fært að greiða atkv. með till. okkar sjálfstæðismanna? Mér finnst það engin goðgá a. m. k. að láta sér detta slíkt í hug. Og ég verð að segja að það er eitthvað einkennilegt við þá siðgæðisvitund að boða þetta kjósendum í landinu nokkrum dögum fyrir kjördag og ætla svo gersamlega að snúast gegn þessu. Það er eitthvað siðferðilegt vandamál við þetta.

Má ég að lokum, herra forseti, láta heyrast hvað hæstv. forsrh. segir um slíkt siðferðismál. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðbólgan er ekki aðeins efnahagsmál, heldur einnig og ekki síður sálrænt og siðferðilegt vandamál.“ Ég leyfi mér að vona að hæstv. forsrh. láti þetta ekki sannast á sér við afgreiðslu þessa frv. hér í hv. deild.