20.12.1979
Neðri deild: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Iðnn. Nd. hefur komið saman og fjallað um frv. þetta um verðjöfnunargjald af raforku. Nm. urðu ekki sammála um afstöðu til málsins, en meiri hl. n. hefur þá afstöðu sem fram kemur í nál. á þskj. 59.

Um málið vil ég aðeins segja þetta:

Öfugmæli er að kalla gjald þetta verðjöfnunargjald, þar sem það er prósentugjald og greiða þeir hæst sem fyrir greiða hæst raforkuverð. Gjald þetta kemur sérstaklega illa við samkeppnisiðnað og rýrir samkeppnisaðstöðu hans gagnvart innflutningi, en skattlagning á raforku er þegar orðin ærin.

Við verðjöfnun raforku tala menn gjarnan um viðmiðun við taxta Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Sá samanburður er ekki raunhæfur. Gjaldskrá Rafmagnsveitu Reykjavikur hefur lengi verið haldið niðri vegna áhrifa hennar á framfærsluvísitölu. Þetta veldur því að Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur um árabil átt í erfiðleikum vegna erlendra lána sem tekin hafa verið vegna rekstrar. Að halda þannig niðri raforkuverði Rafmagnsveitu Reykjavíkur veldur auknum mun í raforkuverði í landinu og síðan er sá munur notaður sem réttlæting fyrir skattheimtu. Jafnframt vil ég benda á mótmæli borgarstjórnar Reykjavíkur gegn þessu gjaldi og mótmæli Sambands ísl. rafveitna.

Frá Sambandi ísl. rafveitna hefur borist bréf til iðnn. Ed., sem ég vil, með leyfi forseta, lesa svo að hv. þm. sé kunnugt um efni þess. En það hljóðar svo:

„Iðnn. Ed. Alþingis. Hr. Þorv. Garðar Kristjánsson, formaður. — Verðjöfnunargjald af raforku.

Stjórn Sambands ísl. rafveitna vekur athygli á því, að nú hefur enn einu sinni verið lagt fyrir Alþingi frv. um framlengingu á lögum um verðjöfnunargjald af raforku. Snemma á þessu ári var gjald þetta stórhækkað, úr 13% í 19%. Urðu þá miklar umr. á Alþingi um málið og virtist veruleg andstaða ríkja gegn því og ekki síst hækkun gjaldsins. Í tíiðurlagi framsögu sinnar fyrir málinu 5. febr. s.l. sagði þáv. iðnrh., Hjörleifur Guttormsson:

,,Ég vil að endingu geta þess, að iðnrn. mun á þessu ári beita sér fyrir athugun á tekjuöflun og fleiri þáttum hjá Rafmagnsveitum ríkisins og þá m.a. huga að þeim tekjustofni sem hér er mælt með að á verði lagður til loka þessa árs. Að mínu mati þarf ríkissjóður að gera ráð fyrir að leggja Rafmagnsveitunum til eigendaframlag árlega, a.m.k. fyrst um sinn, sem svari til félagslegra þátta í framkvæmd fyrirtækisins.“

Ljóst var að leysa þurfti fjárhagsvanda fyrirtækja þeirra sem gjaldsins njóta. Töldu þm., eins og jafnan áður, að lengri tíma þyrfti til undirbúnings þessa máls og voru því lögin látin gilda til 31. des. 1979.

Svo sem stjórnin hefur áður bent á, telur hún að leysa beri fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða á annan hátt, m.a. með beinum framlögum úr ríkissjóði. Þar sem þessi þunga skattheimta er lögð á í prósentum kemur hún harðast niður á þeim sem búa við hæst raforkuverð fyrir. Eiga önnur raforkufyrirtæki við mikinn fjárhagsvanda að etja, sem tæplega verður leystur með frekari hækkun á gjaldskrám. Má í því sambandi benda á Rafmagnsveitu Siglufjarðar, sem í vor óskaði eftir að fá verðjöfnunargjald í sinn hlut, þótt ekki væri nema þann hluta þess sem notendum hennar er gert að greiða.

Kristján Jónsson og Hafsteinn Davíðsson taka fram, að þeir treysta sér þó ekki til að mótmæla gjaldi þessu meðan ekki koma til aðrar lausnir á fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða.

Samband ísl. rafveitna.

F.h. stjórnar

Örlygur Þórðarson framkvæmdarstjóri“

Ég vil þá lesa nál. meiri hl. iðnn. Nd., með leyfi forseta, sem fram kemur á þskj. 59:

„Við undirritaðir nm. erum andvígir verðjöfnunargjaldi af raforku eins og það hefur verið á lagt og tillaga er gerð um að áfram verði. Teljum við skattheimtu af raforkusölu orðna meiri en góðu hófi gegnir, en slík skattheimta kemur ekki síst illa við íslenskan iðnað. Raforkukostnaður er mikill þáttur í rekstrarkostnaði margra iðnfyrirtækja. Þessi mikla skattlagning skerðir samkeppnisaðstöðu þeirra gagnvart iðnaði annarra lands, sem íslenskur iðnaður þarf að keppa við.

Ýmis fleiri rök mæla gegn verðjöfnunargjaldinu, sem nánari grein verður gerð fyrir í umr., en benda má á, að Samband ísl. rafveitna hefur eindregið lagst gegn þessu gjaldi svo og borgarstjórn Reykjavíkur.

Við teljum að vanda Rafmagnsveitna ríkisins eigi að leysa á annan hátt en með slíku gjaldi. Eðlilegt er að skilja á milli félagslegra framkvæmda RARIK og arðbærra framkvæmda og að ríkissjóður standi undir fyrrnefndu framkvæmdunum með óafturkræfum framlögum. Á sama hátt þarf að greiða úr miklum og þungbærum skuldum fyrirtækisins. Með slíkum aðgerðum mætti tryggja æskilega jöfnun á raforkuverði og koma í veg fyrir hallarekstur fyrirtækisins.

Vegna hinna sérstöku aðstæðna í íslenskum stjórnmálum í dag, sem m.a. hafa í för með sér óvissu um afgreiðslu fjárl., Viljum við ekki hefta framgang þessa máls að þessu sinni, enda yrði fjárhag RARIK og Orkubús Vestfjarða með því stefnt í óvissu. Við munum því ekki greiða atkv. gegn frv.

Alþingi, 20. des. 1979.“

Og undir þetta nál. rita Birgir Ísl. Gunnarsson, Jósef H. Þorgeirsson, Friðrik Sophusson, Guðmundur G. Þórarinsson.