15.04.1980
Neðri deild: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

137. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég get efnislega tekið undir það sem fram kemur í þessu frv., þó það mætti ganga lengra að mínu mati til þess að auka áhrif hins almenna félagsmanns. Hins vegar teldi ég þó eðlilegra að þessar breytingar kæmu frá heildarsamtökum launafólks, eins og ég tel að núgildandi lög gefi svigrúm til, að þessar breytingar geti komið beint frá þeim án þess að þær fari fyrir Alþingi.

Ég tel þó að nái þetta frv. fram að ganga muni það geta tryggt lýðræðislegri vinnubrögð við kosningar til trúnaðarstarfa í stéttarfélögum en nú er. Eins og þessum málum er háttað nú er það hreint ekki vinnandi vegur fyrir hinn almenna félagsmann að hafa nein áhrif á kjör til stjórnar eða annarra trúnaðarstarfa í stéttarfélögum og er of skammt gengið í þá átt í þessu frv. Það sést best á því, að algengt er að viðhöfð sé allsherjaratkvæðagreiðsla í stéttarfélögum til stjórnarkjörs og kjörs til trúnaðarmannaráðs. Það gerist á þann hátt, að viðkomandi stéttarfélög auglýsa að viðhöfð skuli allsherjaratkvæðagreiðsla, og er slíkt nær undantekningalaust auglýst á þann veg að skila þarf listum á 2–3 dögum og þá gjarnan hafður sá háttur á, að auglýst er á föstudegi, en frestur renni út á mánudegi, eða tveggja daga frestur til þess að skila listum. Það segir sig sjálft, að hér er svo girt fyrir að nærri vonlaust er fyrir hinn almenna félagsmann að hafa hin minnstu áhrif á þessar kosningar eða brjótast í gegnum þennan múr. Honum er gert — óski hann að koma t. a. m. einum manni að í stjórn eða trúnaðarmannaráð — að skila fullskipuðum lista, þ. e. aðalstjórn, varamönnum í aðalstjórn, trúnaðarmannaráði, sem oft er fjölmennt, kannske 30–50 manns, og að auki varamönnum í trúnaðarmannaráð. Algengt er að hafa þurfi svo 100–200–300 meðmælendur, eftir stærð stéttarfélagsins. Og til að ná fjölskipuðum listum til stjórnar og trúnaðarmannaráðs auk fjölda meðmælenda, sem þarf að fylgja, hefur viðkomandi 2–3 daga til að vinna þetta verk. Þar við bætist að oft ber þá daga upp á helgi.

Nei, hér hefur verið búið svo um hnútana, að það er ótrúlegt að slík vinnubrögð, sem bæði eru ófélagsleg og ólýðræðisleg, skuli viðhöfð í launþegasamtökum þessa lands. Við heyrum oft talað um félagsdeyfð, og forustumenn launþegasamtaka kvarta tíðum yfir slælegri fundarsókn og litlum félagslegum áhuga félaga í stéttarfélögum. En hverjum er um að kenna? Er það nokkuð síður forustumönnum stéttarfélaga að kenna, sem búa svo um hnúta og halda fast í reglur sem viðhafðar eru við kjör í trúnaðarstöður og eru þannig að lítil eða engin tök eru fyrir hinn almenna félagsmann að hafa áhuga á gang mála?

Hér er um afar mikilvægt atriði að ræða í félagslegum samskiptum innan launþegasamtakanna, einkum þegar fámenn en sterk öfl innan launþegasamtakanna ráða ferðinni, ekki aðeins kjörum meðlima sinna, heldur hafa á margan hátt mótandi áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar. Því er lýðræðisleg uppbygging verkalýðshreyfingarinnar einn af hornsteinum þjóðfélagsins, og það hlýtur að vekja þá spurningu, hvort lýðræðið sé nógu virkt innan verkalýðshreyfingarinnar. Hafa t. d. hin fámennu ráðandi öfl innan verkalýðshreyfingarinnar skapað hinum almenna félagsmanni þau tækifæri að hann geti haft mótandi áhrif á gang mála í sínu verkalýðsfélagi, eða er vísvitandi lokað dyrum á hann til áhrifa? Væri valdaáhrifum fámenns ráðandi hóps innan verkalýðshreyfingarinnar kannske um of ógnað ef ögn væri opnuð meira gátt lýðræðisins til áhrifa í verkalýðshreyfingunni? Ógnaði það svo völdum þessara valdaafla innan verkalýðshreyfingarinnar, að þau snerust gegn því ef gerð væri till. um að ögn væri aðgengilegra fyrir hinn almenna félagsmann að komast inn í stjórnir eða trúnaðarmannaráð verkalýðsfélaganna til þess að hafa þar mótandi áhrif?

Auðvitað geri ég mér ljóst að hér er hreyft viðkvæmu máli. Engu að síður er ljóst að um þetta þarf að skapa umr. í þjóðfélaginu og að fyrr eða síðar hljóta ráðandi öfl innan verkalýðshreyfingarinnar að verða að svara þessum spurningum. Það er knýjandi nauðsyn að um þessi mál fari fram opinská umr. innan verkalýðshreyfingarinnar og á vinnustöðum, úti á meðal launþega, og hugsanlega að kannanir verði gerðar þar á afstöðu félagsmanna í stéttarfélögum til þessara mála.

Það verður að leita leiðar, sem allir aðilar geta sæst á til að auka virkni og lýðræði innan verkalýðshreyfingarinnar. Þar er vettvangurinn — og hefði raunar verið nauðsynlegt og gagnlegt að niðurstaða slíkra umr. og kannana hefði legið fyrir áður en Alþ. samþykkti breytingar í þessa veru á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. En hv. flm. þessa frv. kom reyndar inn á það einnig, að nauðsynlegt væri að heildarsamtökin fjölluðu um þetta mál áður en það yrði samþ.

Við skulum ekki loka augunum fyrir því, að sinnuleysi hins almenna félagsmanns og óvirkni hans í stéttarfélögum er ekki síst forustunni að kenna, þar sem illkleift er að hafa mótandi áhrif á gang mála. Það hlýtur aftur að vekja þá spurningu, hvort valdaöflin innan verkalýðshreyfingarinnar vilji í raun ekki breytingu, að allar breytingar í lýðræðisátt ógni því valdi, sem þeim er nú búið innan verkalýðshreyfingarinnar og þau hafa sjálf skapað sér. Hér verður að brjóta í blað og verða breyting á.

Eins og uppbyggingin er og lýðræðið innan verkalýðshreyfingarinnar hefur þróast er lítil trygging fyrir því, að það sé vilji hins almenna félagsmanns sem ávallt ræður ferðinni í mörgum veigamiklum ákvörðunum sem hafa ekki einungis áhrif á kaup og kjör launafólksins, heldur hag þjóðarbúsins í heild. Og önnur spurning er einnig knýjandi. Þróun sú og uppbygging, sem við búum nú við til áhrifa innan verkalýðshreyfingarinnar, skapa ekki það aðhald sem nauðsynlegt er hverri forustu í stéttarfélagi, og slíkt aðhaldsleysi er hættulegt lýðræðinu innan verkalýðshreyfingarinnar. Ef við eigum að treysta lýðræðið innan verkalýðshreyfingarinnar verðum við að brjóta í blað og opna hinum almenna félagsmanni greiðari leið til þess að hafa áhrif á gang mála. Og þótt smuga sé opnuð hér með þessum frumvarpsflutningi, þá er hvergi nóg að gert. Og þó skylt sé samkv. þessu frv. að hafa hlutfallskosningu innan stéttarfélaga með 300 félagsmenn eða fleiri ef'Is hluti félagsmanna óskar þess, þá minnkar það ekki báknið eða „apparatið“ sem til þarf til þess að bjóða fram í trúnaðarstöður, þótt þessi leið skapi óneitanlega meira aðhald að forustunni innan verkalýðshreyfingarinnar og gefi hinum almenna félagsmanni aukið svigrúm til áhrifa.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég víl þó beina því til þeirrar nefndar, sem fær þetta mál til meðferðar, að a. m. k. verði reynt við meðferð nefndarinnar á frv. að ganga ögn lengra, t. d. að til komi breyting á því, sem feli í sér að ef viðhöfð er allsherjaratkvæðagreiðsla í stéttarfélagi, þá skuli skylt að gefa lengri frest en nú er til þess að skila listum til kjörs í stjórn og trúnaðarmannaráð. Ég nefni t. d. mánuð í því sambandi. Með því móti yrði komið meira til móts við lýðræðið, sem skilyrðislaust ber að auka í stéttarfélögum, en enn eigum við langt í land í því efni.