15.04.1980
Neðri deild: 60. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

137. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Lög um stéttarfélög og vinnudeilur eru, eins og hér má sjá, frá árinu 1938. Það er því ekki að undra þó að eitt og annað standist ekki tímans tönn og þurfi endurskoðunar við. Ég persónulega er þeirrar skoðunar, að það þurfi að endurskoða þau lög öll. En mér er fullkomlega ljóst að ef það á einhvers staðar við að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins, þá er það náttúrlega í málum sem þessum. Endurskoðun þessara laga, án þess að aðilar vinnumarkaðarins séu þar hið mótandi afl, getur ekki átt sér stað.

Ég tel að sú hugsun, sem liggur á bak við það að taka upp hlutfallskosningar, sé eðlileg og lýðræðisleg, og það hlutfall að miða við 1/5 af fjölda félagsmanna er líka rökrétt ef um fimm manna stjórn er að ræða. Aftur á móti finnst mér að það liggi ekki full rök fyrir því, hvers vegna binda skuli það við 300 félagsmenn, að þetta sé heimilt. Ég fæ ekki séð að fram hafi komið í þessum umr. neitt sem mælir með því, að lýðræðið skuli skert ef félagsmenn séu innan við 300.

Ég fagna þeirri tilhögun, sem kom fram hjá flm., að senda þetta frv. til umsagnar Alþýðusambandsþingi, og vil vekja á því athygli, að Alþýðusambandsþing er þannig skipað, að þar er enginn einn stjórnmálaflokkur með meiri hl. fulltrúa og því ástæðulaust að ætla annað en að það muni taka á þeim málum fullkomlega á lýðræðislegan hátt, hvort sem sumir væru þeirrar skoðunar að það yrði ekki gert ef annan veg væri fulltrúum skipað, sem ég vil nú ekkert fullyrða um.

En burt séð frá því, þá er jafnaugljóst að þetta mál, sem hér er flutt er ekki samstiga því máli sem hv. 9. þm. Reykv. talaði um áðan. Það er þrepalýðræði hjá Alþýðusambandi Íslands, það ætti honum að vera fullkunnugt um. Það er þrepalýðræði hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga, það ætti honum sömuleiðis að vera fullkunnugt um. Og það er þrepalýðræði hjá sambandi ísl. samvinnufélaga. Og mér finnst það dálítið „billeg“ sagnfræði og dálítið „billegur“ málflutningur og minnir mig örlítið á páskafræðsluna þegar slíkt er sett fram.

Það getur vel verið að fyrir hv. 9. þm. Reykv. vaki að gera Samband ísl. samvinnufélaga að pólitískum orrustuvelli. Ég veit ekki betur en að innan samvinnuhreyfingarinnar hafi menn úr öllum stjórnmálaflokkum getað starfað og starfi. En hitt mun ljóst vera, að þeim gengur betur að komast þar til metorða, sem eru hreyfingunni vinveittir, en hinum, sem í orði og æði virðast leggja mest upp úr því að níða hana niður. Jafnframt má benda á það, að sá reginmunur er á varðandi samvinnuhreyfinguna, að það er enginn maður skyldugur að vera í henni, það er enginn maður skyldugur að greiða henni skatta. En hver einasti maður, sem starfar í þessu landi, þarf annaðhvort að greiða skatt til stéttarfélags eða þá til opinbers aðila og þar skilur allverulega á.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en vildi koma þessum sjónarmiðum á framfæri um leið og ég þakka flm. þess frv., sem hér er fram komið, fyrir innlegg þeirra í þetta mál. En heildarniðurstaða mín er sú, að það þurfi að endurskoða þessi lög í heild og að það verði að gera í samráði við aðila vinnumarkaðarins.