16.04.1980
Neðri deild: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1949 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

148. mál, Lífeyrissjóður bænda

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir stjfrv. um breyt. á lögum um Lífeyrissjóð bænda. Hér er ekki um stórpólitískt mál að ræða, en hins vegar um að ræða lagfæringu til samræmingar sem mikilvæg er fyrir nokkurn hóp manna.

Með lögum nr. 3/1977 voru sett ákvæði um sérstaka uppbót á lífeyrisgreiðslur úr Lífeyrissjóði bænda árin 1976 og 1977. Var það gert til samræmis við samkomulag Alþýðusambandsins og vinnuveitenda frá því í febr. 1976 og þá breytingu sem gerð hafði verið á lögum um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum. Þessar ráðstafanir voru síðan framlengdar til ársloka 1979 með nýju samkomulagi launþega og vinnuveitenda í júnímánuði 1977, og með lögum nr. 64/1977 var sams konar framlenging uppbótargreiðslna frá Lífeyrissjóði bænda fest í lög.

Með lögum frá 1979 um eftirlaun til aldraðra hafa ofangreindar uppbótargreiðslur, sem um var samið 1976 og 1977, verið framlengdar um þrjú ár, fyrir tímabilið 1980–1982. Í þeim lögum eru jafnframt ákvæði um hvernig útgjöld til uppbótargreiðslna samkv. II. kafla laga um Lífeyrissjóð bænda skuli borin þetta tímabil, og er þá gert ráð fyrir framlengingu ákvæða laga nr. 64/1977. Í því frv., sem ég er hér að mæla fyrir, er einmitt kveðið á um slíka framlengingu.

Auk þeirra ákvæða, er varða lífeyrishækkanir fyrir árin 1980–1982, eru í l. gr. frv. ákvæði um breytingar á 2. gr. núgildandi laga um skilyrði fyrir aðild að Lífeyrissjóði bænda. Þar er annars vegar um það að ræða að verið er að lækka aldursmarkið úr 20 árum í 16 ár og hins vegar er verið að veita rýmkaða heimild til að launþegar í landbúnaði geti fengið aðild að sjóðnum. Þessi ákvæði eru í fullu samræmi við þróun undanfarinna ára, sbr. lög frá 1974 um starfskjör launþega og lögin um forfalla- og afleysingarþjónustu í sveitum og þann undirbúning sem átt hefur sér stað fyrir lagasetningu um almenna þátttökuskyldu í lífeyrissjóðum.

Með ákvæðum 2. gr. þessa frv. er tryggt að lífeyrisfjárhæðir þær, sem Stofnlánadeild landbúnaðarins og ríkissjóður eiga að standa undir, sbr. 19. gr. laga nr. 101 frá 1970, breytist árlega eftir sömu reglu og undanfarin ár þann tíma sem hin sérstaka uppbót skal borin með þeim hætti sem lögin frá 1979 kveða á um. Þá er gert ráð fyrir að sama gildi um hluta lífeyrissjóðsins ef lífeyrisþegi samkv. II. kafla laganna á að hluta rétt samkv. I. kafla.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv. þetta. Frv. er flutt til samræmingar. Nauðsyn er að það verði afgreitt áður en þing lýkur störfum sínum í vor. Ég vil því mælast til þess við hv. fjh.- og viðskn., sem ég legg til að fái málið til meðferðar að lokinni þessari umr., að hún skili áliti hið fyrsta svo að tryggt megi verða að málið hljóti afgreiðslu í vor.