16.04.1980
Neðri deild: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

109. mál, tollskrá

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er ljóst að mikil tímaþröng kemur í veg fyrir að hægt verði að gera þær breytingar á þessum lögum sem nauðsynlegt væri að gera. Allir hafa lýst því yfir, að þeir séu fúsir og þess mjög fýsandi að flýta afgreiðslu þessa máls svo að unnt verði að afgreiða þau leyfi til öryrkja sem þeir hafa beðið lengi eftir og hér er um að ræða.

Nú liggja fyrir um 630 umsóknir um þann afslátt sem hér um ræðir, en það eru ekki nema 400 sem hans munu njóta. Þannig er alveg ljóst að ekki þarf einungis að gera mjög veigamiklar breytingar á lögunum, heldur þarf að hugleiða hvort ríkisvaldið geti ekki komið enn betur til móts við það fólk sem þarf á þessum bifreiðum að halda.

Á fundi fjh.- og viðskn. í morgun var gerð grein fyrir brtt. sem flm. að eru Jóhanna Sigurðardóttir, Guðrún Helgadóttir og Árni Gunnarsson, þar sem höfuðáherslan er lögð á að fjölga raunverulega leyfisveitingunum eða stytta tímann á milli þeirra í 3 og 4 ár og einnig að undanþágurnar, þ. e. fjárhæðin, sem dregin er frá bílverðinu, eða sá peningur, sem ríkissjóður annars tekur til sín, verði bundnar vísitölu framfærslukostnaðar. Ástæðan fyrir þessu er mjög einföld. Það þarf á hverju þingi að afgreiða tiltekna upphæð sem rennur til frádráttar eða til lækkunar á bílverði sem þetta fólk greiðir. Með því að binda upphæðirnar við vísitölu framfærslukostnaðar þyrfti ekki að afgreiða þetta mál á hverju einasta þingi og það gengi þá sjálfkrafa.

Formaður fjh.- og viðskn., hv, þm. Halldór Ásgrímsson, hefur skýrt frá því, að hann muni rita fjmrn. bréf þar sem farið verði fram á endurskoðun á þessum lögum. Flm. þessara brtt. treysta því og vilja fá það nagl- og múrfast, að slík endurskoðun fari fram, og treysta formanni n. til að ganga hart eftir því að það verði gert, því að breytingin er orðin mjög nauðsynleg. Sama er raunar að segja um lögin í heild. Það eru ekki bara þessi atriði sem þarf að endurskoða, heldur leiðir til þess að gera þeim þjóðfélagsþegnum, sem þarna um ræðir, auðveldara að lifa í þessu samfélagi.

En í trausti þess, að þetta verði endurskoðað, hafa brtt. verið dregnar til baka eða lagðar til hliðar. Mun af hálfu flm. ekkert verð gert frekar í þessu máli sem gæti orðið til að tefja afgreiðslu þess, enda er orðið mjög brýnt að það fái afgreiðslu á hinu háa Alþingi svo að þeir, sem bíða eftir leyfum, geti fengið þau.