16.04.1980
Neðri deild: 61. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

109. mál, tollskrá

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka það fram að ég er samþykkur afgreiðslu þessa frv., enda var fjh.- og viðskn. þegar búin að afgreiða frv. þegar brtt. bárust og þær voru ræddar á sérfundi fjh.- og viðskn. í morgun, eins og fram hefur komið.

Ég vil aðeins ítreka og leggja áherslu á það sem ég sagði á fundinum í morgun til að fá það inn í þingtíðindi og það verði tekið til greina í svari hv. fjmrn. við því bréfi sem formaður fjh.- og viðskn. mun skrifa því fyrir hönd n., að ég get ekki með nokkru móti skilið hvers vegna Alþ. takmarkaði á sínum tíma úthlutun bifreiða til öryrkja við nokkra tölu, 400 eða nokkra aðra tölu. Við viljum leysa vandamál öryrkja. Í dag var upplýst á fundi fjh.- og viðskn. að 630 umsagnir hefðu borist, en við erum að úthluta 400 bifreiðum. Við erum sem sagt ekki að leysa allan vanda þeirra sem þurfa á því að halda, heldur hluta af honum.

Innan þessa þrönga ramma er gert ráð fyrir að 25 bifreiðum verði úthlutað til öryrkja sem eru mjög bæklaðir á einhvern hátt. Af hverju 25? Ef öryrkjarnir, sem þurfa og hafa læknisvottorð um að þeir séu mjög bæklaðir, eru 26 eða 27 eða 100, af hverju þá ekki leysa vanda þeirra allra?

Ég vil fullyrða að við viljum öll auðvelda og auka ferðafrelsi þeirra meðbræðra okkar sem hafa sérþarfir, — allra, ekki bara hluta þeirra. Og ég þori að fullyrða, þó að ég viti það ekki með vissu, að í hverjum einasta mánuði, kannske vikulega, kemst einhver Íslendingur með sérþarfir á þann aldur að hann megi taka bílpróf. Guð má vita hvað sá ungi bílstjóri þarf að bíða lengi án þess að fá þeim þörfum sínum fullnægt að eignast bíl. Þegar svo kemur að því að úthluta er það aðeins gert á ákveðnum tíma ársins. Af hverju? Af hverju þarf bæklað fólk að bíða eftir einhverjum lagaboðum eða hlíta duttlungum rn. áður en það má sækja um slíka fyrirgreiðslu? Af hverju má ekki selja fötluðu fólki bíla á hverjum einasta degi? Hvað er því til fyrirstöðu? Jú, ég giskaði á það í morgun, sem var reyndar staðfest af ráðuneytismönnum að ríkið væri að gefa í þessu tilfelli eftir 750 millj. Þetta er öfugur hugsunargangur því að fæst af þessu fólki kaupir bíl ef það fær ekki fyrirgreiðslu. Oftast nær eru bifreiðar þess dýrari en venjulegar bifreiðar vegna sérútbúnaðar og sérhönnunar í sumum tilfellum. Ríkið fær alls engar tekjur í flestum tilfellum frá þessu fólki ef þessi fyrirgreiðsla er ekki myndarleg frá Alþ., þannig að ríkið getur orðið af tekjum og er alls ekki að gefa einum eða neinum nokkurn skapaðan hlut. En kerfið er kerfið og við erum að berjast við það.

Ég sé ekki nokkra ástæðu út af fyrir sig til að skrifa rn. og biðja um umsögn, upplýsingar eða jafnvel leyfi til að gera nokkurn skapaðan hlut. Það er í okkar höndum. Við getum tekið þessi lög upp og við skulum gera það — það er ekki tími til þess núna — og breyta þeim þannig að það verði komið eins fram við fatlað fólk og hvern annan sem þarf á bifreið að halda. Fatlað fólk er kannske ekki fært um að hreyfa sig á milli staða öðruvísi en með hjálp svona tækja. Við skulum þakka guði fyrir að við, sem hér erum stödd, þurfum ekki aðstoð að sækja í þetta kerfi sjálf.

Ég taldi rétt, að þetta kæmi fram hér, og vil ljúka máli mínu með því að taka undir þær brtt. sem fram hafa komið. Þær eru til mikilla bóta, t. d. að stytta þann tíma sem viðkomandi öryrkjar eru skyldaðir til að eiga þessar bifreiðar. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að skylda fatlað fólk til að eiga bifreiðar í fimm ár. Það er langur tími og bifreið þarf löngu fyrir þann árafjölda á verulegri viðgerð að halda, sem er dýr. Yfirleitt eru viðgerðir mjög dýrar. Þetta fólk á að fá að endurnýja bíla sína miklu örar. Ég tala nú ekki um ef við höfum í huga að bifreiðar geta kannske enst á höfuðborgarsvæðinu þennan tíma, en þær geta alls ekki enst í 5 ár í eigu öryrkja eða annarra úti á landsbyggðinni vegna þess hve vegir eru slæmir.

Ég taldi rétt að þetta kæmi fram, þannig að þegar rn. svarar væntanlegu bréfi frá formanni okkar ágætu fjh.- og viðskn. verði bent á að þessi sjónarmið eru til í Alþingi.