20.12.1979
Neðri deild: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

16. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði í gær við 1. umr. þessa máls, að ég væri með þessu frv. óbreyttu, og það er í samræmi við þá skoðun sem ég hef haft á undanförnum árum, að fylgja málinu á meðan ekki er fundin önnur réttlátari og eðlilegri lausn á því. En það, sem kom mér til að standa hér upp, er orðalag í áliti minni hl. iðnn. þar sem hann vill ítreka það sjónarmið, sem samstaða varð um í fyrrv. ríkisstj. við undirbúning fjárl. fyrir árið 1980, að frá og með því ári beri ríkissjóður allan kostnað af félagslegum framkvæmdum sem Rafmagnsveitum ríkisins er falið að ráðast í og standa fyrir, og segir síðan að slík stefnubreyting í reynd varðandi fjármál Rafmagnsveitanna ætti að auðvelda að ná fram eðlilegri verðjöfnun á raforku í landinu, gera kleift að endurskoða ákvæði um verðjöfnunargjaldið. Ég fagna þessari samþykkt og þessari skoðun. En mér finnst vanta inn í þessa samþykkt Orkubú Vestfjarða, sem nýtur um 20% af verðjöfnunargjaldinu. Það verður einnig að standa undir félagslegum framkvæmdum, svo að ef samþykkt ríkisstj. er með þeim hætti sem kemur fram í áliti minni hl. iðnn. er ég ekki alls kostar ánægður með að landsmönnum sé gert mishátt undir höfði. Ég er ekkert að fara fram á meiri fríðindi fyrir þá stofnun en aðrar, en þetta kemur ekki í ljós í áliti minni hl. iðnn.

Hins vegar fagna ég því sem kemur fram í áliti meiri hl. iðnn., að þeir segja að eðlilegt sé að skilja á milli félagslegra framkvæmda RARIK og arðbærra framkvæmda og að ríkissjóður standi undir fyrrnefndum framkvæmdum með óafturkræfum framlögum. Þeir benda einnig á, að með því að hefta framgang þessa máls að þessu sinni yrði fjárhag RARIK og Orkubús Vestfjarða, eins og frsm. meiri hl. tók fram, stefnt í óvissu. Mér finnst að hér eigi hið sama að gilda í báðum tilfellum, um RARIK og Orkubú Vestfjarða.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en á meðan ekki liggur fyrir betri lausn á þessum málum styð ég verðjöfnunargjaldið heils hugar.