17.04.1980
Sameinað þing: 45. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1976 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vek fyrst athygli á því, að hæstv. fjmrh. óskaði eftir að gera hér stutta aths., eftir að búið var að ákveða að fresta fundi, til að koma með almenn fúkyrði um þm. og þingheim. Í ljósi þess, að hæstv. ráðh. hefur óskað eftir því að þinghaldi sé frestað til þess að flokkur hans geti komið saman á þingflokksfund og ríkisstj. geti rætt saman um það ástand sem nú er komið upp, lýsi ég furðu minni yfir þessari smekkleysu og þessari framkomu. En málflutningur hans talaði skýrustu máli um það, að lítið er í pokanum og lítið í höfðinu á hæstv. fjmrh.

Ég vil svo segja það við hæstv. forsrh., og skal ekki níðast á þolinmæði forseta Sþ. að öðru leyti, en bara minna á þetta: Hæstv. forsrh. talaði um meðalfjölskyldu, hjón með tvö börn með venjulegar tekjur, ríflegar verkamannatekjur, og sagði að hjá þessari fjölskyldu yrði hlutfall skatts af tekjum lægra en það hefur verið í fjölda ára. Ég vil skora á hæstv. forsrh. að leggja þetta dæmi tölulega fyrir þingið eða verða ómerkingur ella. (Gripið fram í.) Það er gott. Þá hlakka ég til að lesa það.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því sem ég sagði áðan: Hvernig stendur á því að tekjuskattsinnheimtan eykst hlutfallslega borið saman við verðlag og laun ef jafnframt dregur úr skattheimtunni? Ætli það væru þá ekki hlutfallslega færri krónurnar sem kæmu inn ef það væri orð að marka sem hæstv. forsrh. segir í þessum efnum.

Hitt þykir mér svo nýlunda, að hæstv. forsrh. fer nú að hrósa því sem hann gagnrýndi mest á haustdögum 1978, að ráðið til að leysa verðbólguna væri að búa til falskan kaupmátt með háum niðurgreiðslum. Ég vil jafnframt minna á að hæstv. forsrh. var einn af þeim mönnum sem buðu sig fram fyrir Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar. Ég veit ekki betur en hann hafi á þeirri stundu verið okkur sammála í grundvallaratriðum efnahagsmálanna. Honum hefur því snúist hugur síðar. En það er rétt sem hann að öðru leyti sagði um efnahagsmál og ríkisfjármál í ræðu sinni áðan. — [Fundarhlé.]