17.04.1980
Sameinað þing: 45. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Það eru aðeins örfá orð, aðallega út af ræðu hæstv. forsrh. áðan um þingsköp. Ég vil þó taka fram að það er orðið ljóst núna, hver ástæðan er fyrir því að á ellefta tímanum í gærkvöldi krafðist hæstv. fjmrh. í nafni ríkisstj. þess, að horfið yrði frá að útvarpa 3. umr. um skattstiga frá Ed. Ástæðan var sú, að hæstv. ríkisstj. hafði orðið þess áskynja í gærkvöldi að þeir skattstigar, sem hún hafði lagt fyrir Alþ. til samþykktar, voru þess eðlis að þeir gerðu ráð fyrir mjög aukinni skattbyrði á það fólk í þjóðfélaginu sem á um einna sárast að binda. Hæstv. ríkisstj. treysti sér ekki til þess að ganga til þess leiks frammi fyrir alþjóð í útvarpsumr. sem til stóð. Hæstv. fjmrh. óskaði eftir því við forseta Ed. Alþingis að hann heimilaði honum að renna af hólmi. Þetta er staðreynd sem hefur komið fram í þessum umr. og er vert að vekja athygli á.

Það hefur líka komið fram í umr., sem vert er að vekja athygli á, að þessar upplýsingar hafði hæstv. ríkisstj. í höndunum áður en hún tók endanlega ákvörðun sína um þá skattstiga sem lagðir hafa verið fram í þinginu. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson hefur sýnt fram á að ríkisstj. hafði í höndunum tölvuútskrift frá Reiknistofnun Háskólans sem leiddi þessi sannindi í ljós. Ef ríkisstj. var þá ókunnugt um hvað hún var að gera í skattamálunum hefur það annaðhvort verið vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur ekki gefið sér tíma til að lesa nógu vandlega þau gögn, sem hún hafði í höndunum, áður en hún ákvað skattstigann sem hún lagði fyrir þingið, eða þá hún hefur ekki skilið þau gögn sem hún fékk til aflestrar. Ég hef ekki trú á því síðarnefnda, að hún hafi ekki skilið hvað í þessum gögnum stóð, en meiri trú á því fyrrnefnda, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki gefið sér tíma til að lesa þau nógu gaumgæfilega. Það er ekkert nýtt, því að hæstv. ráðh. hafa keppst við að lýsa því yfir í útvarpi og sjónvarpi undanfarna daga, að ríkisstj. hefði haft svo mikið að gera í einhverjum ótilteknum málum að hún hafi ekki haft tíma til að ræða stöðuna í kjarasamningamálum í landinu. Er líka auðséð samkv. þessu að ríkisstj. hefur ekki heldur haft tíma til að kynna sér eigið skattstigafrv. og hefur ekki heldur haft tíma til að gá að því, hvernig tillögur hennar í skattamálum mundu leika það fólk sem á um hvað sárast að binda.

Ég vil láta það koma fram hér til viðbótar, að einnig á Alþ. komu þessar upplýsingar fram fyrir allnokkru. Þær komu fram í prentuðu þskj. sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson lagði fram í Ed. og ætla má a. m. k. að hæstv. fjmrh. hefði átt að gefa sér tíma til að lesa. Þessar upplýsingar komu einnig fram í ræðu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar við umr. um málið í Ed. í gær, en hæstv. ráðh. harðneitaði við þær umr. að viðurkenna að þessar upplýsingar væru réttar. Það var ekki fyrr en kl. hálfellefu í gærkvöld, þegar hæstv. ráðh. stóð frammi fyrir því að þurfa að standa fyrir máli sínu í útvarpsumr., að það fóru að renna á hann tvær grímur. Hann gerðist hræddur og óskaði eftir því við forseta Ed. að forseti heimilaði honum að renna af hólmi. Þetta eru handarbakavinnubrögð sem eru einkennandi fyrir hæstv. ríkisstj.

Það er ástæða til að benda á að hæstv. forsrh. hefur talið það vítaverð vinnubrögð að lögð skuli vera fyrir eitt og sama Alþ. þrjú fjárlagafrv. á sex mánuðum, að vísu af þremur ríkisstjórnum. En hvað segir þá hæstv. forsrh. um ríkisstj. sem á rúmum þremur vikum hyggst leggja þrjú skattstigafrv. fyrir Alþ. til afgreiðslu og hopar jafnharðan frá eigin skattstigum aftur? Hvers konar vinnubrögð eru það, hæstv. forsrh., að ríkisstj. leggur fram á Alþ. einu sinni í viku skattstigafrv., en hleypur frá því sama skattstigafrv. í vikulokin vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur ekki gefið sér tíma til að undirbúa málið nógu vel?

Þá vil ég enn fremur víkja að því, að hæstv. forsrh. sakaði okkur Alþfl.-menn um að við bærum höfuðábyrgð á þeirri óðaverðbólgu sem ríkisstj. hans hefur nú hleypt af stað. Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að gerð var þriggja mánaða spá um þróun verðlags mánuðina fram til 1. mars. Niðurstaðan varð sú af þriggja mánaða ríkisstj. Alþfl. fyrir þann tíma, að verðbólgan í landinu jókst um það bil tveimur prósentum minna en spárnar höfðu gert ráð fyrir. Ríkisstj. Alþfl. var minnihlutastjórn og hafði komið út úr kosningum og hafði því enga aðra ástæðu til að reyna að takast á við verðbólguvandann. Ríkisstj. Alþfl. tókst á þessu tímabili að draga úr verðbólguþróun þannig að verðbólga jókst ekki á þessu þriggja mánaða tímabili nema um 6-8%, en því var áður spáð að hún mundi aukast um 2–3% meira. Á fyrstu þremur mánuðum núv. hæstv. ríkisstj, hefur verðbólguþróunin í landinu hins vegar aukist jafnmörgum prósentustigum meira en spáð var við upphaf valdaferils hennar. Nú eru allar líkur á að þegar reiknuð verður út verðbólgan á næstliðnum þremur mánuðum verði niðurstaðan um 13%.

Við Alþfl.-menn skiluðum af okkur með 6–8% verðbólgu á okkar tímabili. Þá tók hæstv. núv. ríkisstj. við. Verðbólgan á næstu þremur mánuðum, þegar hún var við völd, var 13%. Þetta kallar hún að sé sök okkar Alþfl.-manna. Hvers vegna hefur verðbólgan vaxið svona? Hvers vegna verður verðbólga fyrstu þrjá mánuði í valdatíð núv. hæstv. ríkisstj. 12–13%? Því ráða ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi gengisbreyting. Í öðru lagi innlendar kostnaðarhækkanir. Og hver skyldi stjórna þessu? Hver ákveður breytingar ágengi íslensku krónunnar? Það er hæstv. ríkisstj. sjálf. Það er hennar ákvörðun einnar að á fyrstu þremur mánuðum, sem hún er við völd í landinu, hefur hún látið breyta gengi um 11%. Hún ákvað gengislækkun um 8%. Afgangurinn er gengissig sem hún hefur sjálf ákveðið. Ákvörðunin um gengisbreytingu, gengisfall íslensku krónunnar, sem veldur því að verðbólgan hefur farið vaxandi á undanförnum vikum, er tekin af hæstv. ríkisstj. sjálfri. Það voru engar utanaðkomandi ástæður þessu valdandi. Það er ákvörðun hæstv. ríkisstj. að gengisbreytingin skuli vera þessi.

Það má segja að gengisbreytingin hafi verið gerð til að leysa úr vanda útflutningsfyrirtækjanna, fyrst og fremst fiskvinnslunnar. Vandi útflutningsfyrirtækja skapaðist annars vegar af innlendum kostnaðarhækkunum og hins vegar af hækkuðu fiskverði. Hver er það hér á Íslandi sem fer með stjórn verðlagsmála og ákveður hverjar innlendar kostnaðarhækkanir skuli verða? Það er hæstv. ríkisstj. og enginn annar. Ef vandi hefur skapast í frystihúsarekstri vegna þess að innlendur kostnaður hefur hækkað meira en menn gerðu ráð fyrir er það vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur samþykkt það og gefur út að innlendur kostnaður skuli hækka meira en menn gerðu ráð fyrir. Og hver var það sem ákvað fiskverðshækkunina? Það var fulltrúi hæstv. ríkisstj. sem það gerði. Það var hann sem ákvað þá fiskverðshækkun sem varð að beiðni hæstv. ríkisstj. Og hvað gerðist við þá ákvörðun? Jú, hæstv. ríkisstj. lofaði við þá ákvörðun að fella gengið um 8%. Hún gaf út það loforð. M. ö. o. er gengisfellingin ákvörðun ríkisstj. Fiskverðshækkunin, sem m. a. varð til þess að valda erfiðleikum í rekstri frystihúsa, var ákvörðun ríkisstj. Og innlendu kostnaðarhækkanirnar, sem urðu til þess að skapa þeim vanda, voru líka ákvörðun ríkisstj.

Verðbólgan hefur vaxið meira en menn óraði fyrir af öðrum ástæðum, m. a. vegna þess að verðlag á vörum innanlands hefur hækkað meira en ráð var fyrir gert vegna hækkunar á söluskatti. Þegar söluskatturinn var hækkaður um 1.5%, en sú hækkun tók gildi s. l. mánudag, hækkuðu auðvitað allar vörur í verði, þá jókst verðbólgan í landinu. Hver tók ákvörðunina um að hækka söluskattinn um 1.5%? Það var hæstv. ríkisstj. Ekki gat það komið henni á óvart. Það var hæstv. forsrh. sjálfur og hinir níu, sem fylgja honum, sem þessa ákvörðun tóku.

Það er algerlega út í hött að vera að kenna einhverri forsögu um það að verðlagsþróunin á síðustu þremur mánuðum hefur orðið neikvæðari en menn gerðu ráð fyrir. Ástæðan er mjög einföld. Hæstv. forsrh. getur fengið hana skýrða með einu símtali við Þjóðhagsstofnun. Ástæðan er sú, að gengið hefur verið fellt, og það var ákvörðun hæstv. ríkisstj. Söluskattur hefur verið hækkaður að ákvörðun hæstv. ríkisstj. Innlendar kostnaðarhækkanir hafa verið meiri en ráð var fyrir gert vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að svo skuli vera. Ástæðan fyrir því, að verðbólgan á Íslandi er meiri núna en menn spáðu að hún mundi verða, eru ákvarðanir hæstv. ríkisstj. Af vísdómi sínum hefur hún ályktað að svo skuli vera. Það ætti ekki að koma hæstv. forsrh. neitt á óvart. Ég ráðlegg honum að snúa sér nú til ráðunauta sinna í Þjóðhagsstofnun og spyrja í einu símtali hvað þessum ósköpum valdi. Verðbólgan sem var 6–8% á þrem mánuðum í tíð minnihlutastjórnar Alþfl., sem var ekki ýkjasterk ríkisstj., með aðeins tíu þm. á bak við sig, er orðin 13% núna á jafnlöngum tíma. Og ef hæstv. forsrh. spyrst fyrir um það hjá sérfræðingum sínum í Þjóðhagsstofnun, hvað valdi, þá fær hann svarið um hæl. Hvað veldur? spyr hæstv. forsrh. Þú, er svarið. Það eru þin úrræði og ykkar í ríkisstjórnarmeirihlutanum.

Hæstv. forsrh. ræddi áðan um það, og það eru upplýsingar sem ber að fagna, að fresturinn á útvarpsumr. frá Ed. hafi ekki stafað af því að hann hafi gert kröfu um að fá að tala þar, en ekki fengið. Hæstv. forsrh. talaði um að á þessu þyrfti að gera breytingar, það þyrfti að veita afbrigði frá þingsköpum svo að hann og félagar hans gætu tekið til máls í eldshúsdagsumr. og öðrum umr. sem útvarpað er héðan frá Alþ. Þessi ósk hæstv. forsrh. er mjög skiljanleg. En við skulum gera okkur grein fyrir því, ágætir þm., að það eru lög í þessu landi um hvernig störfum okkar á Alþ. skuli hagað. Þessi lög eru þingsköp Alþingis, sem eru samþykkt á Alþingi og afgreidd sem lög frá því. Í 53. gr. þingskapa eru afdráttarlaus ákvæði um hvernig skuli standa að útvarpsumr. frá Alþingi. Á spássíunni með þeirri lagagrein í sérprentun þingskapa stendur að það skuli ríkja jafnrétti þingflokka, en í greininni segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar útvarpað er umræðum um þingmál, skulu þingflokkar hafa rétt til jafnlangs ræðutíma, og forsetar gefa þm. færi á að taka til máls þannig, að flokkarnir skiptist á.“

Nú getur verið, og hefur oft komið fyrir, að þm. séu utan flokka á Alþ. og eigi ekki sæti í þingflokkum. Þá gera lögin um þingsköp Alþingis ráð fyrir að menn utan flokka eigi þátt í útvarpsumr., en þó þannig að enginn þeirra fái lengri tíma en helming þess sem hver þingflokkur hefur til umráða. Þetta eru mjög afdráttarlaus ákvæði, sem setja okkur reglur um það á Alþ. hvernig við eigum að starfa. Það er gert ráð fyrir því í fyrsta lagi, að allir þingflokkar eigi að njóta fulls jafnréttis í útvarpsumr. frá Alþingi. Þar á enginn þingflokkur að hafa rétt umfram annan. Svo er gert ráð fyrir að menn, sem eru ekki aðilar að þingflokkum, fái tiltekinn rétt til þátttöku. En í starfsreglum Alþingis er vitaskuld ekki gert ráð fyrir því fráleita ástandi að einhver hluti í einhverjum þingflokki, t. d. minni hl. þingflokks, geti gert kröfu um að vera meðhöndlaður eins og sérstakur þingflokkur. Hvar mundi það enda? Hvers konar vinnubrögð væru það á Alþingi ef það færi að tíðkast að t. d. þegar verið er að útvarpa umr. um einhver mál, sem e. t. v. er ágreiningur um í þingflokknum, t. d. eins og um skattamál, sem ágreiningur er um í þingflokki Alþb. gæti þingflokkur Alþb. skipt sér í tvennt um málið, meiri hl. og minni hl., og hvor hluti um sig fengið jafnan rétt til ræðutíma í útvarpsumr. eins og hinir þingflokkarnir?

Hér á Alþ. er höfuðatriði að virða þingsköpin, eins og þeim manni er mætavel kunnugt sem er aldursforseti þingmanna og var búinn að sitja á þingi í 8 ár þegar ég fæddist. — Hv. þm. er búinn að sitja á Alþ. lengur en t. d. flestallir þm. Alþfl. hafa verið til, því að fæstir af þm. Alþfl, voru fæddir þegar hv. aldursforseti var kjörinn á Alþ. Hann er búinn að sitja svo lengi í sölum Alþ. að kannske voru 40% þm. ekki til þegar hann kom hingað fyrst. — Auðvitað er hv. þm. ljóst að eitt af þýðingarmestu viðfangsefnum hverrar löggjafarsamkomu og verkefnum hverrar löggjafarsamkomu er að virða þær reglur sem löggjafarsamkomunni er ætlað að starfa eftir. Ef það er ekki gert, ef menn gera sér leik að því að vanvirða slíkar reglur er starfsemi slíkrar stofnunar hætt. Og þó svo hæstv. forsrh. sé búinn að sitja á Alþingi Íslendinga frá því 8 árum áður en ég fæddist getur hann ekki gert kröfu til þess, bara vegna þess að hann er aldursforseti Alþ. eða forsrh. Íslands, að vera í þingsköpum meðhöndlaður með sérstökum hætti. Það er ákvörðun hæstv. forsrh. að eiga sæti í einum af fjórum flokkum þingsins. Samkv, ákvæðum þingskapa fær sá flokkur tiltekinn tíma til ráðstöfunar í útvarpsumr., sem á að vera jafnmikill tími til ráðstöfunar og minn flokkur hlýtur, Framsfl. og Alþb. Það er að sjálfsögðu mál þess þingflokks hvern hann velur til að tala fyrir sig í slíkum útvarpsumr. En ef hæstv. forsrh. er ekki valinn af þeim þingflokki, sem hann situr í, til að taka þátt í útvarpsumr. fyrir hans hönd og hæstv. forsrh. er eitthvað óánægður með það, hvaða kröfu á hann þá, þó að hann sé búinn að sitja á Alþ. frá því 8 árum áður en ég fæddist, til þess að alþm. veiti honum þá sérstöku afgreiðslu, að ef flokkur hans vill ekki láta hann tala í sínum tíma verði hæstv. forsrh., félaga í þingflokki Sjálfstfl., veittur sérstakur ræðutími eins og hann væri þingflokkur?

Ég held að það væri réttara að hæstv. forsrh. léti af þeim afbrigðum sínum sem hann hefur viðhaft hér á Alþ. síðan í vetur, þeim afbrigðum sem hann hefur viðhaft frá eðlilegum siðum, venjum og reglum á þessu þingi. Það er miklu eðlilegra en hann fari fram á það við hina 59 þm. að þeir samþykki afbrigði frá áratugagömlum venjum og siðum hér á Alþ., sem eru í lögum í lögbók íslensku þjóðarinnar, og hinir 59 þm. samþykki hina afbrigðilegu starfsemi hæstv. forsrh. og veiti afbrigði um þingsköp.

Ég ætla að vara menn við því að leika sér svona með þær reglur sem gilda um sambúð og samskipti stofnana þingsins. Ég hef sagt áður að út af fyrir sig er ekkert áhyggjuefni fyrir mig eða minn flokk þótt Sjálfstfl. klofni, það hefur lengi staðið til og er gott að það skuli vera fram komið sem lengi hefur búið þar um sig. En hinu skulu menn gera sér fulla grein fyrir, að það nær ekki nokkurri átt að sú ákvörðun einhverra sjálfstæðismanna að fara að gera sér leik að því að eyðileggja eða stórspilla ákveðinni stofnun þingsins, sem er þingflokkur sjálfstæðismanna, sem þeir eiga sæti í, verði til þess að torvelda þingstörfin hér eða verði til þess að þingflokkur Sjálfstfl. hafi einhvern rétt á Alþ. umfram aðra þingflokka. Ef þingflokkur Sjálfstfl. notfærir sér rétt sinn samkv. þingsköpum til að tala til jafns við hina þingflokkana, eins og þingflokkur Sjálfstfl. hefur fulla kröfu til, nær auðvitað ekki nokkurri átt að veita þingflokki Sjálfstfl. viðbótartíma á kostnað hinna þingflokkanna vegna þess að í þingflokki Sjálfstfl. eru einhverjir menn sem vilja fá að tala í einhverri umr. fyrir hönd flokksins, en fá það ekki. Það eru sjálfsagt menn í þingflokki Alþb. sem vilja fá að tala í útvarpsumr., en aðrir eru valdir í þeirra stað. Af hverju ætti þá þingflokkur Alþb. ekki að fá einnig tíma fyrir þá? Af hverju ætti þingflokkur Framsfl. ekki einnig að fá viðbótartíma undir slíkum kringumstæðum o. s. frv.

Þó svo menn séu búnir að sitja á Alþingi síðan á dögum Weimar-lýðveldisins, þó svo þeir séu forsrh. Íslands voru þingsköpin ekki búin til fyrir þá, Alþingi ekki stofnað fyrir þá. Hinir 59 þm., sem sæti eiga í þeirri stofnun, þó að sumir hafi ekki verið fæddir þegar hæstv. forsrh. var kjörinn á Alþ., eru ekki heldur hér til þess eins að veita afbrigði frá þingsköpum þannig að Sjálfstfl. fái sérstaka meðhöndlun á Alþ. og rétt umfram aðra, þó að hæstv. forsrh. láti sér til hugar koma að hann vilji tala í umboði Sjálfstfl. við útvarpsumr. frá Alþ., en flokkur hans vill ekki veita honum það. Það óeðlilega ástand sem nú ríkir í störfum Alþingis, er ekki þess eðlis að fýsilegt sé fyrir aðra þm. að veita það fordæmi, sem hæstv. forsrh. var að tala um áðan, með afbrigðum frá þingsköpum í þá veru sem hann talaði um. Slíkt er ekki eðlilegur afgreiðslumáti. Alþ. eiga ekki hver sem í hlut á, að veita því atbeina að viðhafa megi þá óeðlilegu starfsemi sem nú fer fram í þinginu, sem ég tel að sé flestum til vanvirðu sem þar eiga hlut að máli og sé til mikilla óþæginda fyrir þá sem ekki eiga neinn hlut þar að máli, en vilja fá að vinna störf sín með eðlilegum hætti á Alþingi Íslendinga.