17.04.1980
Sameinað þing: 45. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1987 í B-deild Alþingistíðinda. (1829)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Fyrst örstutt söguleg aths. Weimar-lýðveldið er talið hafa fallið 30. janúar 1933 með valdatöku Adolfs Hitlers, en hæstv. forsrh. Gunnar Thoroddsen komst ekki á þing fyrr en 1934. Munar þar einu ári. Þetta er sagt vegna orða hv. þm. Sighvats Björgvinssonar.

Mig langar til að gera örstutta aths., herra forseti, og vil ekki verða til þess að lengja umr. miklu lengur, en hún er vegna orða hæstv. forsrh. um þingsköp og lög í þessu landi. Ég hef litla kenningu þar um. Frá 1940, þegar Ísland öðlaðist sjálfstæða utanríkisstefnu, hafa örlögin hagað því svo að prófessorar í stjórnlagafræðum hafa jafnframt verið þekktir stjórnmálamenn. Sá fyrsti var Bjarni Benediktsson. Einhvern veginn vegna ófullkomleika íslenskra laga þróuðust mál svo, að þessir menn voru fengnir til að setja lögin í landinu. Eftir fráfall Bjarna Benediktssonar lenti Ólafur Jóhannesson í þessari rullu og var það satt að segja sýnu lakari kostur, Ólafur minni lögfræðingur og ósvífnari en fyrirrennari hans. En lakasti kosturinn er hins vegar nýi lögsögumaðurinn, prófessor, hæstv. forsrh., dr. Gunnar Thoroddsen. Hann er nákvæmlega að setja sig í þetta lögsögumannshlutverk, og í þriðja skipti á hv. Alþ. í dag, með því að reyna að segja hinum 59 þm. hvað séu lög í landinu og tala við þá sem ólæsir væru. Það er mætavel ljóst að samkv. 52. gr. þingskapa, sem eru lög, bar ráðh. að flytja stefnuræðu. Það er líka mætavel ljóst hverjar eru reglur um útvarpsumr. samkv. 53. gr. Lögfræði er ekki vísindi. Lögfræði á meira skylt við iðngrein. Það þarf ekki vísindamann til að vera læs á lítinn pésa eins og þennan. Ég vildi satt að segja mælast til þess að hæstv. forsrh. léti af þessari reigingslegu aðferð sinni, að reyna að segja hinum 59 þm. hvað séu lög í landinu, vegna þess að hvað sem má segja um hv. þm., — það skal viðurkennt að hv. þm. eru misjafnir að gæðum, ef svo má að orði komast, — fullyrði ég að þeir eru allir 59 vel læsir.

Það er auðvitað alveg ljóst í fyrsta lagi, að þessa ræðu átti að halda, og í öðru lagi er ljóst, hverjar eru samkv. 53. gr. reglur um útvarpsumr. Allt þingið veit, og hæstv. forsrh. líka, að stefnuræðan var ekki flutt vegna innanflokksátaka í Sjálfstfl, og vegna þess að hann þurfti að fá uppáskrift frá þm. Þannig mun ákveðið í þingsköpum, að aðeins í 53. gr. er talað beinlínis um þingflokka, að öðru leyti er um þá hefð, en sú hefð er ljós að þingflokkar sem heildir tilnefna menn til slíkra umr. Lögfræði er ekki vísindi og dr. Gunnar Thoroddsen þess vegna ekki vísindamaður í eiginlegum skilningi þess orðs. Það að standa hér í þriðja skipti og reyna að segja öðrum 59 þm. hvað séu lög í landinu, er heldur hvimleitt og enda alveg óþarft, vegna þess að það er alveg ljóst af texta þingskapa hvað átt er við.

Allt um það, þetta er lítil leiðrétting við mál hæstv. forsrh. Ég vona að Sjálfstfl. beri gæfu til að leysa innri vandamál sín og þar með hvernig hann skipi ræðumönnum í útvarpsumr. Það er líka ljóst að þessar útvarpsumr. fara ekki fram í kvöld eins og til stóð. Allt þingið veit að hér er um meiri háttar vandamál að ræða. En svo má ekki fara, t. d. að því er varðar skatta og skattstiga, sem eru tilefni þessarar umr., sem hófst kl. 14 í dag, að innri átök í Sjálfstfl. valdi endalausum skaða fyrir fólkið í þessu landi. Fólkið verður að fá að vita hverjir skattstigarnir eru, hvað það á að borga í skatt. Þeim mun fyrr sem fólkið fær um það að vita, þeim mun meira er öryggi heimilanna. Mönnum virtist hinn grái og ljóti leikur, innanflokksleikurinn í Sjálfstfl., fyndinn framan af og síðan hlægilegur, en nú er hann orðinn til vansæmdar þessu þingi og orðinn stórskaðlegur fyrir fólkið í landinu.