21.04.1980
Efri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1997 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

147. mál, innflutningur á skipi

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en út af þessum umr. um innflutning á fiskiskipum vil ég gjarnan spyrja hæstv. ráðh. hvort hann treysti sér til þess að gefa hv. d. upplýsingar um hversu mikil eftirsókn er eftir innflutningi á skipum um þessar mundir. Heyrst hefur að allmikið sé um umsóknir um innflutning á fiskiskipum, og ég skal viðurkenna að hæstv. ráðh. er þar mjög mikill vandi á höndum, en ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það í sambandi við þetta mál, hversu mikil brögð eru að þessu.

Það kom fram í máli hæstv. ráðh., að hann telur að reglur þær, sem búið er að setja um innflutning á fiskiskipum, tryggi betur en áður að fiskiskip verði flutt úr landi í staðinn ef um innflutning er að ræða. Ég vek athygli á því, að víða er um mikil og viðkvæm vandamál að ræða í sambandi við hráefnisöflun, þar sem ekki er um það að ræða að flytja skip úr landi í staðinn fyrir hugsanlega innflutt skip. Þar koma til vandamál eins og nýting á framleiðslutækjunum í landi og efling atvinnu á ýmsum viðkvæmum stöðum. T. d. í mínu kjördæmi er mjög sótt eftir að flytja inn fiskiskip til Raufarhafnar og Þórshafnar, og er hugmyndin á bak við það að nýta betur framleiðslutækin í landi og efla atvinnu.

Ég endurtek, að ég tel að hæstv. ráðh. sé þarna mjög mikill vandi á höndum. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að við eigum fyrst og fremst að stefna að því að endurnýja okkar fiskiskipaflota með nýsmíðum innanlands, en ég vil gjarnan fá upplýsingar um þetta ef hæstv. ráðh. treystir sér til.