21.04.1980
Neðri deild: 62. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég get vel tekið undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á því, að nefndir starfi ekki, og ég veit ekki annað en það sé nefndarformanna, hvers svo sem er, að sjá um að nefndir starfi eðlilega. Nefnd hefur verið hér menntmn. Nd., og rétt mun það að ég var kosinn formaður hennar. Ég sagði mig úr þeirri nefnd, að ég hélt á mjög tryggilegan hátt, þegar ég tók við núv. embætti mínu, og við framsóknarmenn kusum nýjan mann í þá nefnd af okkar hálfu. Um formennsku get ég engu ráðið í því efni, og satt að segja hélt ég að það væri nefndarinnar að ganga frá því. Ekki veit ég annað en að varaformaður sé og hafi verið kosinn í nefndinni, og það hlýtur þá að vera hans að sjá um framgang mála í þeirri tilteknu nefnd.

En burtséð frá því, þá er ástæða til að taka undir þessa gagnrýni, að nefndir eiga að sjálfsögðu að starfa og starfa sjálfstætt án nokkurs eftirrekstrar frá forsetum þingsins eða frá einstökum ráðherrum.