21.04.1980
Neðri deild: 62. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Menn eru nú seinþreyttir til vandræða, en svo getur um þverbak keyrt að menn geti ekki orða bundist. Eins og hæstv. forseti gat um eru hér tvö mál á dagskrá sem báðum verður að kippa út. Vegna hvers? Vegna þess að hæstv. ríkisstj. eða viðkomandi ráðh. eru ekki tilbúnir til þess að tala fyrir málunum. Annað þessara mála hefur, að ég held, legið fyrir þingi áður og ættu allar upplýsingar þar að lútandi að vera fyrir hendi. Mér þykir það með eindæmum, að slík vinnubrögð skuli vera hér á Alþ. eins og þetta ber vitni. Það er full ástæða til þess að vekja athygli á því, að hér er ekki hægt að halda áfram þingstörfum með eðlilegum hætti vegna þess að hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh. eru ekki sjálfir reiðubúnir til að tala fyrir þeim málum sem eiga að vera löngu komin til umr. hér í þinginu.