22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2007 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

228. mál, listskreytingar ískólum

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég skal leitast við að svara þeim fsp. sem hv. þm. hefur borið fram við mig. Hins vegar verð ég að segja að mig furðaði svolítið á að hann skyldi í þessu tilliti, að því er mér virtist alveg að tilefnislausu, fara að blanda hér inn í því sem hann kallar deilu milli mín og Einars Hákonarsonar listamanns. Ég held að það sé alveg óþarfi að blanda þessu saman. Það hefur ekki orðið nein stórdeila um þetta efni. Hins vegar kom upp ágreiningur milli mín og Einars Hákonarsonar myndlistarmanns út af því verði sem hann setti á myndverk sitt, og það mál er til umræðu og umfjöllunar. Um þetta hef ég rætt persónulega við Einar Hákonarson mjög nýlega, og ég vona satt að segja að það mál leysist án nokkurrar meðalgöngu blaða eða Alþingis. Ég vil ekki fara að blanda því máli hér saman við, jafnvel þó að hv. fyrirspyrjandi segi nú, sem mér kemur á óvart, að þessi viðtöl okkar Einars Hákonarsonar hafi orðið tilefni til þess að hann ber fram þessa fsp. Fsp. er út af fyrir sig mjög eðlileg, og það er ekkert á móti því að gerð sé grein fyrir hvernig fé er varið til þessa þáttar í listalífi okkar og menningarlífi. En ég held að það sé ákaflega óheppilegt að fara að blanda inn í þetta þessu tiltekna atriði, sem ég er næstum viss um að hv. fyrirspyrjandi er ekki nógu vel að sér um.

En fsp. hv. fyrirspyrjanda hljóðar um það, að í lögum um skólakostnað sé ákvæði þess efnis, að menntmrn. geti varið allt að 2% af áætluðum stofnkostnaði skólamannvirkja til listskreytinga. Og þá er spurt, hvernig þetta ákvæði hafi verið framkvæmt s. l. fimm ár og hvaða skólar hafi verið listskreyttir í samræmi við ofangreint ákvæði, og einnig, hvaða skólar hafi ekki notið slíks og þá af hvaða ástæðum.

Ég vil þá svara þessu þannig, að ákvæði um listskreytingu skólahúsa voru fyrst í lögum nr. 49/1967, um skólakostnað, 10. gr., og þessi ákvæði hljóðuðu þannig orðrétt:

Menntmrn. getur, að fenginni umsögn sveitarstjórnar, ákveðið listskreytingu skólamannvirkja og telst kostnaður, sem af því leiðir, til stofnkostnaðar. Má verja í þessu skyni fjárhæð sem nemur allt að 2% af áætluðum stofnkostnaði skólamannvirkis miðað við reglur byggingardeildar, þó aldrei hærri fjárhæð en 500 þús. kr. til hvers einstaks skóla að viðbættri hækkun samkv, byggingarvísitölu, sbr. 8. gr.

En með grunnskótalögum nr. 63 frá 21. maí 1974 komu ný ákvæði um listskreytingar þannig að ákvæðin í hinum fyrri lögum gilda ekki nú. Þessi nýju ákvæði eru í 26. gr. þeirra laga sem hljóðar þannig:

„Sveitarstjórn getur ákveðið listskreytingu skólamannvirkja með samþykki menntmrn. og telst kostnaður, sem af því leiðir, til stofnkostnaðar. Má verja í þessu skyni fjárhæð er nemur allt að 2% af áætluðum stofnkostnaði skólamannvirkis miðað við reglur byggingardeildar rn.“

Það eru þessi ákvæði, sem nú gilda um listskreytingu, en ekki ákvæðin í lögunum um skólakostnað sem hv. fyrirspyrjandi var að vísa til áðan.

Þegar frv. til l. um grunnskóla var lagt fyrir Alþ. 1973 voru ákvæðin um listskreytingu þannig, að gert var ráð fyrir að tveir menn yrðu rn. til aðstoðar í þessum efnum. Annar skyldi tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, en hinn af Bandalagi ísl. listamanna. Þetta var fellt niður í meðferð Alþingis á málinu. Einnig var frv.-greininni breytt þannig að frumkvæðið að listskreytingum skólahúsa var tekið úr höndum menntmrn. og lagt í hendur sveitarstjórnum.

Þess er rétt að geta, að ákvæðin um listskreytingu skólamannvirkja taka einungis — og ég bið menn að veita því athygli, ekki síst vegna innskots frá hv. fyrirspyrjanda, þar sem hann fer að blanda inn í þetta listskreytingu tiltekins skóla utan við grunnskólastig — til þeirra skóla sem grunnskólalög gilda um, þ. e. skyldunámsskóla, en ekki skóla á framhaldsskólastigi.

Hins vegar hefur menntmrh. í ýmsum tilvikum ákveðið listskreytingu ríkisskóla og þá tekið mið af ákvæðunum í grunnskólalögum. Í sambandi við listskreytingar skólamannvirkja hefur vilji menntmrh., hygg ég, ævinlega staðið til þess að fegra skólamannvirki og starfsumhverfi þeirra sem í skólunum vinna og í öðru lagi að efla vinnumarkað listamanna. Vilji minn í þessum efnum er sá, að skólamannvirki verði yfirleitt listskreytt, eins og áður segir, en frumkvæði þessara mála er ekki lengur í höndum menntmrh. og þess vegna mjög undir sveitarstjórnum komið hver framvinda þessara mála verður. Hins vegar tel ég óhjákvæmilegt, ef vel á að fara, að efnt verði til samkeppni meðal listamanna um þessar listskreytingar, og ég mun beita mér fyrir því að slíkt fyrirkomulag komist á og að gott samstarf verði haft við listamannasamtök um framkvæmd þessara mála.

Nú skal ég reyna að gera grein fyrir því, hvaða skólamannvirki hafa verið listskreytt síðan ákvæði um listskreytingu var sett í lög. Þetta er dálítill lestur og er byggt á samantekt sem gerð hefur verið af þessu tilefni og tekið hefur nokkurn tíma að tína saman, en ég vona að hér sé rétt frá skýrt. Ég byggi þetta að sjálfsögðu algjörlega á vinnu starfsmanna menntmrn.

Samkvæmt þessu hafa listskreytingar grunnskólabygginga verið þessar:

Árbæjarskóli í Reykjavík. Þar er um að ræða veggmyndir úr íslensku grjóti, lagt í múr. Höfundur listaverksins er Veturliði Gunnarsson. Réttarholtsskóli í Reykjavík. Þar er skúlptúr á vegg eftir Magnús Tómasson. — Höfundur verksins er Haukur Dór. Lækjarskóli í Hafnarfirði er skreyttur með tveimur mósaíkmyndum inni í skólanum. Höfundur verksins er Katrín Pálsdóttir kennari, sem hefur unnið verkið í samvinnu við nemendur. Þá er það skóli í Njarðvíkurkaupstað. Þar er veggur í anddyri, hlaðinn í mósaík, eftir Áka Gränz, og í öðru lagi innfellingar í steyptum stigum. Höfundur þess verks er líka Áki Gränz. Í Mosfellshreppi er veggmálverk í gagnfræðaskóla. Nemendur úr Myndlista- og handíðaskólanum hafa unnið það verk.

Í Vestfjarðaumdæmi er um það að ræða, að í skóla í Barðastrandarhreppi er mynd eftir Leif Breiðfjörð, steypt mynd innan dyra.

Í Norðurlandsumdæmi vestra, á Hofsósi, er steypt mynd á vegg, upphleypt í ýmis form og máluð. Höfundur hennar er Benedikt Gunnarsson.

Norðurlandsumdæmi eystra. Í íþróttahúsi Glerárskólans á Akureyri er steypt mynd og máluð á vegg utanhúss, skreyting eftir Snorra Svein Friðriksson. Í Gagnfræðaskólanum á Húsavík er veggskreyting eftir Hring Jóhannesson. Í Þelamerkurskóla í Hörgárdal er steypt mynd á vegg, upphleypt í ýmis form og máluð. Höfundurinn er Bragi Ásgeirsson. Í Stórutjarnaskóla er myndverk, steyptur skúlptúr á vegg utanhúss við aðalinngang, ekki máluð. Þetta verk er eftir Sigurjón Ólafsson. Í Hafralækjarskóla í Suður-Þingeyjarsýslu er handrið milli hæða inni í skólanum myndskreytt. Höfundur þess er Jón Gunnar Árnason.

Í Suðurlandsumdæmi er getið um steinsteypta lágmynd innan dyra í skóla í Vík í Mýrdal eftir Benedikt Gunnarsson.

Hér hef ég svo skrá um listskreytingar í öðrum skólum en grunnskólum:

Í Kennaraháskóla Íslands er mósaíkmynd eftir Gunnlaug Scheving og Valtý Pétursson. Í Menntaskólanum við Hamrahlíð er mósaíkveggskreyting innan dyra eftir Gerði Helgadóttur. Í Menntaskólanum á Laugarvatni er myndskreyting eftir Ragnar Kjartansson. Í Skógaskóla er málverk á vegg eftir Benedikt Gunnarsson. Í Öskjuhlíðarskóla er skreyting á steypu utanhúss eftir Snorra Svein Friðriksson.

Þá er þess að geta, að nemendur hafa gefið skólum listaverk eða listskreytingar. T. d. hafa afmælisstúdentar við Menntaskólann í Reykjavík gefið höggmyndir til skólans. Er önnur þeirra Andlit sólar eftir Ásmund Sveinsson. Hin er afsteypa af Pallas Aþenu.

Varðandi listskreytingar, sem nú eru í undirbúningi og vinnslu, má nefna t. d. að í Reykjavík er verið að vinna að listskreytingu við Hlíðaskóla og Hólabrekkuskóla. Um þær listskreytingar er þetta að segja hvað varðar Hlíðaskóla: Þrír aðilar tóku að sér verkið. Þeir eru Jón Gunnar Árnason, Þór Vigfússon og Rúrý Fannberg. Þetta verk skyldi unnið í samvinnu við nemendur. Áætlaður kostnaður í árslok 1978 var 3.5 millj. kr. í heild. Þetta eru ýmis skúlptúrverk að viðbættum máluðum myndum. Og þá er það Hólabrekkuskóli hér í Reykjavík. Þar er listamaður Einar Hákonarson. Samningur var gerður við hann um mitt ár 1978, þar sem greiðslan er þannig, að hún er 1 millj. 400 þús. fyrir hugverk og hugmynd og 700 þús. er vinna listamannsins. Alls er þetta því 2 millj. og 800 þús. kr. Þetta er mósaíkmynd á vegg.

Aftur á móti er það að segja um myndina sem við Einar höfum svolítið haft með að gera í sameiningu að verðleggja, þó að við höfum ekki orðið sammála um það, að það verk á að kosta 10 millj. eftir hans verðlagningu, en ég hef ekki getað fallist á það verð. Í þessu liggur deilan, og ég held að það sé alveg óþarfi að fara að koma með það mál inn í Alþingi.

Ég held að ég hafi þá lokið þeim lista, sem ég hef um þetta, að öðru leyti en því sem varðar kostnað. En það er svo langur lestur að það væri miklu nær að birta það þingheimi í prentuðu máli.

Þau skólamannvirki, sem ég hef talið hér upp, hafa verið listskreytt samkv. heimild í lögum. Vegna fyrirspurnar um það, hvaða skólar hafi ekki notið listskreytingar, þá er auðvitað skemmst frá því að segja að það er allur obbinn af skólum sem það hefur ekki gert, það er ljóst mál af þessum lestri. En ástæðan til þess að svo er kann m. a. að liggja í því, að ýmis skólamannvirki eru á því byggingarstigi að það er ekki búið að ákveða listskreytingar. Auk þess eru þessi mál í höndum sveitarfélaganna yfirleitt. Hvað varðar listskreytingar annarra skóla en grunnskóla má segja að það séu fremur í höndum menntmrn., og eins og ég sagði áður, þá er síður en svo að ég vilji letja í því efni að skólar verði listskreyttir. Þvert á móti held ég að það sé fullkomin ástæða til þess fyrir mig sem menntmrh. og þá, sem því embætti gegna síðar, að taka þetta mál föstum tökum og vinna meira að því að listamenn skreyti skólabyggingar. En hitt tel ég höfuðnauðsyn, ef sú stefna verður mörkuð, að þá verði jafnframt ákveðið hvernig standa skuli að framkvæmd hennar. Ég held að þær reglur þurfi að setja í samráði við listamenn sjálfa.

Ég get upplýst það hér, að nú á næstunni verður efnt til ráðstefnu í Noregi, norrænnar ráðstefnu, einmitt um þessi mál og hvernig hægt sé að auka vinnumarkað listamanna með listskreytingu opinberra bygginga, og þá ekki síst skóla, forma samskiptareglur milli opinberra aðila og listamanna um þessi efni. Það er ákveðið, að menntmrn. mun styrkja a. m. k. einn íslenskan listamann eða fulltrúa myndlistarmanna til þess að sækja þessa ráðstefnu.

Ég held þá, að þessari fsp. sé nokkurn veginn svarað, og læt máli mínu lokið.