22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

228. mál, listskreytingar ískólum

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör við þessari fsp. minni. Hann gerði tvær aths. við málflutning minn:

Annars vegar var það að skólakostnaðarlögin væru nú komin úr gildi með setningu grunnskólalaga og því ætti 10. gr. ekki lengur við. Ég ætla ekki að deila um lögfræði við hæstv. ráðh. hér úr ræðustól. En ég held að það sé þó alveg ljóst við lestur grunnskólalaganna og 88. gr. þeirra, þar sem tilgreint er hvaða lagaákvæði falli úr gildi við setningu þeirra, að 10. gr. laganna um skólakostnað var ekki ein af þeim greinum sem voru felldar úr gildi þegar grunnskólalögin voru sett enda hefur það komið fram m. a. í skýrslu menntmrh. til Alþingis 1978 um framkvæmd grunnskólalaga, að þessi ákvæði 10. gr. skólakostnaðarlaganna frá 1967 hafi verið notuð til viðmiðunar við aðra skóla en grunnskóla, þ. á m. þá skóla sem eru hreinir ríkisskólar. Nú er Lyngásskólinn grunnskóli samkv. skilgreiningu rn., þannig að um hann eiga að sjálfsögðu að gilda þau ákvæði sem hér um ræðir. Og ég held eins og til hans er stofnað sé það menntmrn. að hafa frumkvæði að listskreytingu þar.

Hin aths. hæstv. ráðh. var sú, að ég skyldi gera að umtalsefni í framsöguræðu minni þá deilu sem upp hefur komið milli rn. og ákveðins listamanns. Ég tel að það sé engin furða þó að á það sé drepið þegar þetta mál kemur hér á annað borð til umr. Auðvitað hlýtur það að vekja athygli þegar ráðh. sest í sæti menntmrh., m. a. með yfirlýsingum — sem ég efast ekki um að séu af heilum huga gefnar — um að hann muni stuðla að auknu menningar — og listalífi í landinu, að eitt af því fyrsta, sem heyrist, eru harðar deilur við einn af okkar bestu myndlistarmönnum um greiðslur fyrir slíkt listaverk.

Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á þessa deilu. Vel kann að vera að það sé rétt hjá hæstv. ráðh. að ég viti ekki nægilega mikið um hana til þess að gera hana að umtalsefni. Ég vil þó fullyrða að sá listamaður, sem hér á í hlut, lítur ekki eins léttvægum augum á þetta og hæstv. ráðh., að hér sé um að ræða eitthvert spjall þeirra á milli, eins og ráðh. vildi gefa í skyn. Ég hygg að hann telji þarna nokkru meira í veði fyrir sig en svo að hægt sé að líta þannig á það mál. En ég ætla ekki að gera það frekar að umtalsefni hér og ítreka að ég legg ekki dóm á þessa deilu. Ég fagna því, að ráðh. hefur lýst yfir að hann muni gera sitt til þess að hún leysist.

Mér fannst koma fram í þessari skýrslu hæstv. ráðh. — og nú tek ég það að sjálfsögðu fram, að auðvitað á hann ekki neina sök þar á og ber enga ábyrgð þar á þar sem hann er svo nýsestur í ráðherrastól — en mér finnst alveg augljóst af þessari upptalningu að því fer fjarri að þetta lagaákvæði hafi verið nægilega mikið notað. Ég vil nú eindregið hvetja hæstv. ráðh. til að beita sér fyrir því, að listskreytingar í skólum og reyndar öðrum opinberum byggingum verði í mun ríkari mæli en þessi upptalning gaf tilefni til og reynslan hefur verið hingað til, þannig að bæði megum við verða auðugri að fögrum listaverkum og listamenn fá verk við sitt hæfi, verk sem þeim sjálfum, hygg ég, sé kærkomið að vinna að.

Ég vil geta þess til dæmis — af því að hæstv. ráðh. gat um ráðstefnu í Noregi um þetta efni og að hún yrði sótt af hálfu rn. — að í Noregi munu þau ákvæði gilda, að það er skylda að verja ákveðinni prósenttölu, ég hygg að það sé 2%, til listskreytinga eða listaverkakaupa í skólum. Þar er það skylda, en ekki aðeins heimild eins og er í okkar lögum. Og mér finnst fyllilega koma til greina að það verði hugleitt, hvort ekki sé rétt að gera þetta að skyldu, ekki aðeins um skólabyggingar, heldur um allar opinberar byggingar.