22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

112. mál, útboð verklegra framkvæmda

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég hef flutt á þskj. 176 fsp. um útboð verklegra framkvæmda á vegum nokkurra ríkisstofnana. Lagaákvæði eru nokkuð ótvíræð um þetta efni, en í 13. gr. laga nr. 63 frá 1970, um skipan opinberra framkvæmda, segir, með leyfiforseta:

„Verk skal að jafnaði unnið samkv. tilboði á grundvelli útboðs. Ef verk er þess eðlis eða aðstæður slíkar að öðru leyti, að útboð telst ekki munu gefa góða raun, er heimilt að fenginni umsögn samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir, sbr. 22. gr., að víkja frá útboði, sbr. þó 2. mgr. Ef tilboð eru óhæfilega há eða að öðru leyti ekki aðgengileg skal verkinu ráðstafað á grundvelli fasts samningsverðs eða eftir reikningi. Útboðslýsingar, verklýsingar og verksamningar skulu vera í samræmi við áætlun samkv. 9. gr.

Í hafnalögum eru ákvæði um að bjóða skuli út, ef hagkvæmt þyki, einstakar hafnarframkvæmdir eða hluta þeirra.

Ástæða þess, að slík ákvæði eru sett í lög, er auðvitað sú, að menn hafa komist að raun um það í tímans rás, að útboð séu almennt til góðs að því er allar framkvæmdir snertir, ekki aðeins opinberar, heldur allar aðrar framkvæmdir. Reynslan hefur sýnt að undirbúningur slíkra framkvæmda er vandaðri. Yfirleitt er ekki farið af stað með framkvæmdir fyrr en hönnun er fulllokið. Gerðar eru ítarlegar kostnaðaráætlanir og betri yfirsýn fæst því yfir verkið í heild. Það er auðveldara að taka ákvörðun um, hvernig skipta eigi því í áfanga, og auðveldara að tryggja fjármagn. Og í flestum tilfellum tryggir útboð lægsta hugsanlega verð á þeirri framkvæmd sem um er að ræða. Uppgjör slíkra verka er og auðveldara eftir á. Það er mun betra að fylgjast með því, af hverju hækkanir stafa, heldur en ella. Eru það verðhækkanir, sem þar hafa komið til greina, eru það aukaverk, sem sett hafa verið inn í verkið síðar, eða hafa verið gerðar einhverjar breytingar á verkinu í miðjum klíðum? Allt eru þetta spurningar sem nauðsynlegt er að fá svarað að verklokum. Og það er auðveldara þegar útboð eiga sér stað. Það er rétt að geta þess, að þegar alþjóðastofnanir lána til framkvæmda, t. d. hér á Íslandi, þá hafa þær gert að skilyrði að útboð fari fram. Það segir sína sögu um hvert er mat manna á alþjóðlegum vettvangi á hagkvæmni útboða.

Að undanförnu hafa farið fram nokkrar umræður um útboð á vegum ríkisins fyrir frumkvæði Verktakasambands Íslands og sú umkvörtun borin fram á opinberum vettvangi, að ríki og ríkisstofnanir bjóði lítið út af framkvæmdum sínum. Þessari fsp. er því ætlað að fá það fram, að hve miklu leyti lögin um opinberar framkvæmdir eru virt og þá hver sé ástæða þess að svo sé ekki gert. Fsp. er svo hljóðandi:

1) Hvaða verk voru boðin út á almennum verktakamarkaði árin 1978 og 1979 hjá eftirtöldum stofnunum:

a) Vegagerð ríkisins,

b) Pósti og síma,

c) Vita- og hafnamálaskrifstofunni,

d) Flugmálastjórn?

2) Hversu stór hluti var boðinn út af heildarframkvæmdum ofangreindra stofnana árin 1978 og 1979?

3) Hvers vegna er 13. gr. laga nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, ekki fylgt, en samkv. henni eiga útboð að jafnaði að fara fram?