22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

112. mál, útboð verklegra framkvæmda

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 176 er fsp. frá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni í þremur tölul. varðandi útboð verklegra framkvæmda nokkurra ríkisstofnana.

Hér er fyrst vikið að þriðja lið fsp., um framkvæmd 13. gr. laga nr. 63 frá 1970, sem hann gerði sérstaklega að umræðuefni.

Um skipan opinberra framkvæmda skal tekið fram, að þrátt fyrir að útboð skuli að jafnaði fara fram, þá heimilar 3. mgr. 21. gr. sömu laga að einstökum ríkisstofnunum sé falin umsjón nánar skilgreindra flokka opinberra framkvæmda. Skilyrði téðrar undanþágu er að stofnanirnar hafi aðstöðu til þess að annast þessi verkefni.

Með tilvísun til tilvitnaðrar lagagreinar veitti fjmrn. hinn 19. júní 1970 Vegagerð ríkisins, Vita- og hafnamálastofnun og Póst- og símamálastofnun heimild til þess að fara eftirleiðis sem hingað til með undirbúning og framkvæmd verkefna á þeirra sérsviðum. Sams konar heimild var veitt flugmálastjórn með bréfi dagsettu 14. júlí 1970. Hinn 9. nóv. 1979 var umrædd undanþága takmörkuð þannig, að undir sérsvið flokkuðust ekki byggingar eða kaup húsa eða mannvirkja sem ekki flokkast undir sérsvið stofnana í þrengsta skilningi þess orðs. Læt ég þetta nægja um almenna framkvæmd á þessu lagaákvæði.

Um 1. og 2. tölul. fsp. er þetta að segja:

Vík ég fyrst að Vegagerð ríkisins. Verktakar vinna með tvennum hætti fyrir Vegagerð ríkisins, þ. e. að undangengnu útboði eða samkv. samningi. Vinna verktaka samkv. samningi er einkum tíðkuð þegar skilyrði til útboðs eru erfið. Verktakar hafa árin 1978 og 1979 unnið fyrir Vegagerð ríkisins sem hér segir, og tek ég þá fyrst árið 1978:

a. Útboðsverk: 1) Slitlag og tilheyrandi á Suðurlandsvegi 97 millj. kr. 2) Útlögn slitlags á Suðvesturlandi 62 millj. kr. Samtals 159 millj. kr.

b. Samningsverk: 1) Framleiðsla olíumalar og þess háttar 115 millj. kr. 2) Efnisvinna og þess háttar 172 millj. kr. 3) Uppgræðsla lands og þess háttar 98 millj. kr. Samtals 385 millj. kr.

Árið 1979:

a. Útboðsverk: 1) Útlögn slitlags á Suðvesturlandi 125 millj. kr. 2) Vegagerð á Kjalarnesi 199 millj. kr. Samtals 324 millj. kr.

b. Samningsverk: 1) Framleiðsla olíumalar 131 millj. kr. 2) Efnisvinna og þess háttar 194 millj. kr. 3) Uppgræðsla lands og þess háttar 44 millj. kr. Samtals 369 millj. kr.

Hér er ekki talið með útboð á efni, vörum og tækjum sem keypt eru til framkvæmda. Þá eru ekki heldur taldir verksamningar sem gerðir eru við bæjarfélög, einkum Reykjavík og Akureyri, um framleiðslu og útlögn malbiks.

Þessi ár var heildarfjármagn, þ. e. fjárveitingar og lánsfé, til nýrra framkvæmda í vega- og brúargerð 4580 millj. kr. 1978 og 5630 millj. kr. 1979. Verktakaverð sem hlutfall af þessum liðum var 11% fyrra árið og 12% hið seinna.

Um hlutdeild verktaka í framkvæmdum Vegagerðar ríkisins undanfarin ár má segja, að á árunum um og upp úr 1970 var hún miklum mun meiri og komst upp í 40% þegar mest var. Þá voru aðstæður þannig að framkvæmdir við vegagerð voru mjög miklar.

Þá kem ég að Hafnamálastofnun ríkisins. Útboð verkefna á vegum Hafnamálastofnunar eru tiltölulega smáar. Öll vinna í sjó er mjög áhættusöm og óvissuþættir í hafnargerðum því yfirleitt taldir mjög miklir. Auk þess er mikið byggt á sérhæfðum tækjakosti og þjálfuðu starfsliði. Útboð á vegum stofnunarinnar 1978 og 1979 voru sem hér segir:

Árið 1978. Einstök verkefni: 1) Uppfyllingarefni á Siglufirði 15 millj. kr. 2) Efniskaup, Innkaupastofnun ríkisins 338.5 millj. kr. Samtals 353.5 millj. kr.

Árið 1979. Einstök verkefni: 1) Vogarhús á Hornafirði 18 millj. kr. 2) Steyptur kantur á Ólafsfirði 12 millj. kr. 3) Steyptur kantur í Vestmannaeyjum 19 millj. kr. 4) Fyllingar í Hafnarfirði 20 millj. kr. Samtals 69 millj. kr.

Efniskaup, Innkaupastofnun ríkisins 311.5 millj. kr. Samtals 380.5 millj. kr.

Heildarframkvæmdir 1978 voru samtals 2402 millj. kr. og 1979 2600 millj., og er hlutfall útboða af tölum þessum 14.7% fyrra árið og 14.6% seinna árið. Rétt er að taka fram að stofnunin gerir einnig samninga við fjölda vinnuvélaeigenda um afnot tækja þeirra. Eru greiðslur af þeim sökum ekki reiknaðar hér með.

Þá er það Flugmálastjórn. Framkvæmdir Flugmálastjórnar eru einkum gerð flugvalla, bygging húsa í tengslum við þá svo og kaup og uppsetning ýmiss úfbúnaðar til leiðbeiningar flugvélum og öryggis í flugrekstri. Árið 1978 var framkvæmdafé á fjárlögum til Flugmálastjórnar 600 millj. og var u. þ. b. 45% þeirrar fjárhæðar varið til framkvæmda vegna véla, öryggistækja, ljósabúnaðar og radíóbúnaðar. Sambærilegar tölur fyrir 1979 voru 800 millj. eða 35%. Að jafnaði var óskað eftir tilboðum í viðkomandi tækjabúnað. Uppsetning radíóbúnaðar hefur ekki verið boðin út á almennum verktakamarkaði þar eð hér er um að ræða sérhæfðan búnað sem krefst sérþjálfunar verktaka og ekki gert ráð fyrir að slík þjálfun sé fyrir hendi á verktakamarkaðnum. Uppsetning ljósabúnaðar er að jafnaði unnin af raftæknideild Flugmálastjórnar. En sé um meiri háttarverkefni að ræða eru þau boðin út. Má hér nefna uppsetningu aðflugshallaljósa fyrir Keflavíkurflugvöll árið 1973. Af verkefnum við flugvallargerðir unnu verktakar um 13% eða fyrir u. þ. b. 24 millj. kr. 1978 og 24% eða 80 millj. kr. 1979. Sambærilegar tölur af byggingarverkefnum stofnunarinnar eru 67% eða 84 millj. unnið af verktökum af slíkum verkefnum 1978 og 34% eða 80 millj. 1979. Tekið skal fram að mjög oft hefur ekki reynst unnt að vinna að nauðsynlegum undirbúningi fyrir útboðslýsingar vegna þess hvað ákvarðanir um framkvæmdir eru oft teknar með skömmum fyrirvara. Þetta á auðvitað við um aðrar þær stofnanir sem hér getur að meira eða minna leyti og takmarkar tíðum útboð verka.

Þá tek ég í fjórða lagi fyrir Póst- og símamálastofnun. Um framkvæmdir stofnunarinnar má segja almennt að þær eru einkum fólgnar í kaupum og uppsetningu hins margvíslega tæknibúnaðar er hún notar í starfsemi sinni. Bygging húsa og annarra sérhæfðra mannvirkja er hlutfallslega lítill hluti af fjárfestingu stofnunarinnar. Við kaup hinna ýmsu tækja, svo sem sjálfvirkra símstöðva, notendabúnaðar, fjölsíma og radíóleiðarkerfa, jarðsíma og radíóbúnaðar, er stuðst við verðkannanir á ákveðnum fresti þegar leitað er tilboða til framleiðenda sem allir eru erlendir.

Uppsetning búnaðarins er síðan í höndum sérhæfðs starfsliðs stofnunar og eru möguleikar til útboða í þeim efnum nánast engir. Jarðvinna í þéttbýli er mjög oft unnin í samvinnu við viðkomandi rafveitur og þá tíðast af verktökum, en í mörgum tilfellum sjá vinnuflokkar stofnunarinnar um þetta atriði og þá með vinnuvélum frá staðarmönnum verði því við komið. Framkvæmdir að nýsmíði póst- og símahúsa byggjast á útboðum á almennum verktakamarkaði að langstærsta hluta, eða alltaf þegar því verður við komið. Helstu undantekningar eru viðbyggingar, sem eru erfiðari í verklýsingu, svo og minni háttar tækjahús. Aðalreglan er sú, að smíði póst- og símahúsa er boðin út í einu lagi, en sé um að ræða stærri hús og ætlað að smíði þeirra standi lengur en tvö ár er smíðin boðin út í áföngum. Á tímabilinu 1978 og 1979 voru sem næst 90% fjárfestingar í fasteignum að öllu eða verulegu leyti unnin á grundvelli samninga að undangengnum útboðum. Fjárfestingar 1978 voru samtals 1671 millj. kr. og voru fasteignir 254 millj. af því. Sambærilegar tölur fyrir 1979 voru 2806 millj. kr. fjárfesting samtals og 344 millj. kr. í fasteignum. Og eins og fyrr sagði voru um 90% af því boðin út.

Í þessum tölum er ekki fjallað um jarðstöðina við Úlfarsfell. Bygging hennar var boðin út í ársbyrjun 1978. Byggingarlýsing var send 15 fyrirtækjum víðs vegar um heim og bárust sjö tilboð. Samið var við lægstbjóðanda og innifól samningurinn í sér nær allan tækjabúnað, loftnet, stöðvarbyggingu, uppsetningu stöðvar og prófanir. Nokkrir verkþættir voru undanskildir í samningi og var stærstur þeirra bygging aflhúss sem samið var um við íslenska verktaka. Ýmsar minni háttar lóða- og vegaframkvæmdir við jarðstöðina voru boðnar út á innlendum markaði.

Þetta eru, herra forseti, samandregnar þær upplýsingar sem samgrn. fékk frá hinum ýmsum aðilum, sem eru allviðamiklar og lýsa oft í smáatriðum nánar en ég hef getað gert á þessum stutta tíma. Hins vegar er sjálfsagt að fyrirspyrjandi og aðrir, sem óska nánari upplýsinga, fái aðgang að þeim skýrslum.