22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2015 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

112. mál, útboð verklegra framkvæmda

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans við fsp. minni, en mér fannst þau benda til þess, að sú gagnrýni, sem flutt hefur verið af verktökum í landinu, sé réttmæt og að það sé greinilega mikil tregða hjá opinberum fyrirtækjum, sem helst hafa með framkvæmdir að gera, að bjóða út. Ég get skilið það sjónarmið, sem fram kemur oft, að ákvarðanir séu teknar seint, og þá er oft við hv. Alþ. að sakast, t. d. ef vegáætlun er seint á ferð og þar fram eftir götunum. Engu að síður er hér um óskiljanlega tregðu að ræða. Og það er ekki afsökun, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh., að mörg verkanna séu svo smá að það sé ekki rétt að bjóða út. Ég held að reynslan sýni einmitt að það er oft í hinum smáu verkum sem hagkvæmni útboðs nýtur sín vel. Ég hef haft nokkuð með ákvarðanir að gera í tveimur opinberum stofnunum varðandi verklegar framkvæmdir. Þar hafa útboð verið meginreglan. Ég vil aðeins skýra frá nokkrum tölum, nokkur verk tekin af handahófi hjá Reykjavíkurborg annars vegar og Landsvirkjun hins vegar um nýleg útboð.

Ekki alls fyrir löngu var boðin út jarðvinna vegna undirbúnings húss Rafmagnsveitu Reykjavíkur við Suðurlandsbraut 34. Kostnaðaráætlun var 40.5 millj., en lægsta boð 35.3 millj. eða tæp 87% af kostnaðaráætlun. Hæsta boð var hins vegar 52 millj. eða 28% yfir kostnaðaráætlun. Lægsta boð var því 5 millj. lægra en kostnaðaráætlun og munur hæsta og lægsta boðs 16.7 millj. kr.

Þá voru boðnir út á vegum Hitaveitu Reykjavíkur stokkar í Grafarholti. Þetta er tiltölulega lítið verk. Kostnaðaráætlun var 167.4 millj. kr., lægsta boð 159.6 millj. eða um 95% af kostnaðaráætlun og hæsta boð 257.4 millj. eða 53% yfir kostnaðaráætlun. Lægsta boð var því 7.8 millj. undir kostnaðaráætlun og munur á hæsta og lægsta boðinu 97.8 millj. kr.

Dælustöð við Grafarholt fyrir Hitaveitu Reykjavíkur var boðin út á s. l. hausti. Kostnaðaráætlun var 135.3 millj. kr., lægsta boð 122 millj. eða 90% af kostnaðaráætlun og hæsta boð 153.6 millj. eða 13% yfir kostnaðaráætlun. Lægsta boð var þannig 13.3 millj. undir kostnaðaráætlun og munur á hæsta og lægsta boði 31.6 millj. kr.

Safnast þegar saman kemur. Á þessu er hægt að sjá að á þessum tiltölulega litlu verkum sparast verulegar fjárhæðir með því að bjóða út, miðað við það sem sérfræðingar viðkomandi stofnunar töldu hægt að vinna verkið fyrir.

Hjá Landsvirkjun var á s. l. hausti boðinn út vegur — og það tek ég nú sérstaklega vegna þess að Vegagerðin er ákaflega treg að bjóða út vegalagningu. Það var svokallaður Hrauneyjafossvegur, vegur sem liggur upp að virkjuninni og er lagður á vegum Landsvirkjunar. Kostnaðaráætlun þar, gerð á sama hátt og Vegagerð ríkisins gerir sínar kostnaðaráætlanir, var 154.5 millj. Lægsta boð var 75.9 millj. eða rúmlega helmingi lægra en kostnaðaráætlun sérfræðinganna. Hæsta boð var hins vegar 29% hærra en kostnaðaráætlunin eða upp á 199.4 millj. Á þessu er hægt að sjá hversu geysilega mikill munur er á því, hvernig menn líta á slík verk og hvað hagkvæmni útboðanna getur skilað sér í miklum fjárhæðum, en þarna var munur á kostnaðaráætlun og lægsta boði 78.6 millj. kr. á tiltölulega litlum vegarspotta og munur á hæsta og lægsta boði 123.5 millj. kr.

Á vegum Landsvirkjunar var í fyrrasumar boðinn út vegslóði meðfram Hrauneyjafossvirkjun, — það er vegaframkvæmd einnig, en ekki fullkominn vegur, heldur vegur sem á að vera fær venjulegum vinnutækjum og jeppum. Kostnaðaráætlun var 117.4 millj., lægsta boð 73.4 millj. kr. eða 62.5% af kostnaðaráætlun, en hæsta boð 170 millj., eða 45% yfir kostnaðaráætluninni, þannig að munur á kostnaðaráætlun og lægsta boði var þarna 44 millj., en munur á hæsta og lægsta boði 97.5 millj.

Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að Hafnamálastofnunin telur ekki rétt að bjóða út verk á hennar vegum vegna þess hvað þetta eru sérhæfð verk. Reykjavíkurhöfn býður út obbann af sínum verkum og eru það að sjálfsögðu ekki síður sérhæfðar hafnarframkvæmdir en á vegum ríkisins. Þar fá menn góðan samanburð, eins og t. d. í dælingu, sem mér er sagt að sé um það bil helmingi lægra verð, sem Reykjavíkurhöfn fær það fyrir með útboðum og með því að semja við verktaka, heldur en Hafnamálastofnunin vinnur fyrir að sínu leyti.

Allar þessar upplýsingar benda eindregið til þess, að það verði að reyna að snúa við þeirri miklu tregðu sem er hjá ríkisstofnunum um úfboð. Og ég vil eindregið beina því til hæstv. samgrh., að hann beiti sér fyrir því, — ég veit að hann á engan hlut að þessum málum hingað til, — en að hann beiti sér fyrir því í sinni ráðherratíð, að reynt verði að snúa af þessari braut og fara inn á útboð á verklegum framkvæmdum ríkisins, bæði stórum og smáum verkum. Ég hygg að reynslan hafi sýnt, þar sem þetta hefur verið framkvæmt, að miklir fjármunir sparast þegar þannig er að verkum staðið.