22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2020 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

125. mál, símamál í Kjalarnes- og Kjósarhreppum

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir flest það, sem hv. 4. landsk. þm. sagði í framsögu sinni varðandi þessa fsp., og jafnframt þakka hæstv. samgrh. svör hans og upplýsingar. Ég vil leggja á það ríka áherslu, að sem fyrst verði bætt úr því slæma ástandi, sem verið hefur í símamálum á Kjalarnesi, og hraðað verði svo sem unnt er tengingu sjálfvirks síma þar. Þegar því er lokið verður einnig eftir að koma á sjálfvirku símakerfi í Kjósarhreppi hér í næsta nágrenni höfuðborgarinnar.

Ég vil í því sambandi ítreka þá ósk sveitarstjórnar Kjósarhrepps, að uns sjálfvirkur sími verður lagður þar, vonandi ekki síðar en á árinu 1981, verði ekki gerðar neinar breytingar á núverandi fyrirkomulagi og alls ekki farið að tengja handvirka símann við Reykjavík, eins og um hefur verið rætt, enda telur sveitarstjórnin, að það leysi á engan hátt símamál þeirra Kjóshreppinga, og vitnar í reynslu þeirra í Kjalarneshreppi af slíku fyrirkomulagi sem hafi á engan hátt verið góð.

Eins og fram kemur á dagskrá þessa fundar í dag er ástand símamála víða slæmt og ýmsar spurningar hafa vaknað varðandi framtíð símamála í hinum ýmsu héruðum landsins. Þau þyrfti að ræða margfalt betur og meir en unnt er að gera í stuttum fyrirspurnatíma. Ég vil þó vekja máls á einu atriði sem ég tel að gæti bætt samband Alþingis við þá stofnun, og það er að Alþ. kjósi stjórn til að fara með málefni þessarar stóru stofnunar og vera tengiliður milli Alþingis og hennar. Vil ég í því sambandi benda á, að Alþ. kýs árlega fjölda stjórna til þess að fara með málefni margfalt minni og mannfærri fyrirtækja en Póstur og sími er. E. t. v. væri með því hægt að eyða ýmiss konar misskilningi og vangaveltum sem nú eru um rekstur fyrirtækisins. Ég skora því á hæstv. ráðh. að kanna þetta mál ítarlega og leggja fyrir Alþ. lagafrv. um þingkjörna stjórn fyrir Póst- og símamálastofnunina ef hann fellst á þetta sjónarmið mitt.