22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2022 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

125. mál, símamál í Kjalarnes- og Kjósarhreppum

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Bréf Kjalnesinga varð ekki til nema vegna þess að það lá fyrir að ekki átti að framkvæma á þessu ári það sem nú er byrjað á.

En varðandi þessar sveitasímstöðvar, sem fólkið óskar heldur eftir að hafa en að verða tengt langlínustöðinni í Reykjavik, vil ég upplýsa það, að stöðin í Eyrarkoti hefur eitt númer tengt við Akranes, sem er sjálfvirkt. Það getur náð beinu sambandi. Starfsfólkið býr í húsinu, það má segja að símstöðin sé í stofunni hjá símstöðvarstjóranum, svo að þjónustan er miklu betri en kannske nokkur getur gert kröfu til. Við þetta vill fólkið fá að búa áfram þar til sjálfvirki síminn kemur. Það telur að það fái betri þjónustu þannig en að fara með þjónustuna í gegnum langlínustöðina í Reykjavík.