22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

132. mál, símamál

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, þó ég verði að segja að mér finnist að fsp. mínar hafi ekki borið eins mikinn árangur og fsp. þess fyrirspyrjanda sem var að þakka fyrir sig áðan, því miður. Ég held að ég taki vel gild öll svörin nema eitt, sem mér fannst hreinlega ekkert annað en útúrsnúningur, þ. e. hver væri ástæðan til þess að ekki væri sami gjaldflokkur fyrir símtöl milli þéttbýlisstaðanna á Vesturlandi. Ég fann ekki í máli hæstv. ráðh. neitt svar við þessari spurningu.

Ég held að það hafi komið fram í því sem ég sagði hér áðan, að vitaskuld vitum við að í gildi eru mismunandi gjaldflokkar, en þeir eiga ekki að vera mismunandi á milli svæða. Og ég benti á — og það er hægt að benda á fleiri dæmi um það — að hvergi eru jafnskornir í sundur þéttbýlisstaðirnir eins og á Vesturlandi. Ef við skreppum yfir til Vestfjarða, þá fylgjast þar að Ísafjörður, Bolungarvík, Flateyri, Súðavík, Suðureyri og Þingeyri og eru í fyrsta gjaldflokki. Ég ítreka það, að ég hef áhuga á að fá ákveðið svar um það, af hverju þéttbýlisstaðir á Vesturlandi eru verr settir í sambandi við gjaldtöku en önnur svæði á landinu, þótt ég viðurkenni að það eru reyndar til önnur svæði, sem aðeins jafnast við það, en það er hvergi jafnáberandi í einu og sama kjördæmi.

Það verður sjálfsagt lengi hægt að finna ýmis varnarorð fyrir því sem ekki er gert þó áætlað hafi verið að gera, og sjálfsagt er það vont hlutskipti að stofnun eins og síminn hafi ekki heimild til að gera þetta eða hitt fyrr en of seint. Þó er það eitt fyrirtæki sem virðist ganga alveg á fullu hjá símanum. Það er sú ágæta jarðstöð sem verið er að byggja uppi í Mosfellssveit. Þar virðist ekki vanta neina peninga og allt ganga samkv. áætlun. Það hlýtur að vera svolítið umhugsunarvert, að unnið sé af fullum krafti við slíka stofnun og ekki dregið úr neinum hraða, jafnvel þótt í ljós komi að hún sé alls ekki þannig byggð að hún nái þeim tilgangi sem hún átti að ná eða hönnun hennar sé alls ekki rétt, en ýmsar framkvæmdir við talsímaþjónustu hingað og þangað um landið séu látnar sitja á hakanum eða komist ekki í framkvæmd. Bygging jarðstöðvar, sem geti þjónað okkur í því að sýna okkur Ólympíuleikana í Moskvu beint eða eitthvað þess háttar, er látin ganga á undan þeim framkvæmdum sem sjálfsagðar eru og nauðsynlegar í sambandi við dreifikerfið um landið. Fyrst ég nefndi jarðstöðina hef ég kannske ýtt við hv. 5. þm. Vesturl. að koma hér upp. Og gaman væri nú að vita hvort nokkrar upplýsingar fást um það, af hverju þær bilanir, sem sífellt er verið að tilkynna og koma í fréttum held ég, á hverjum degi, stafa, hvort þarna sé um að ræða hönnunargalla. Kannske við eigum von á því, að þessi ágæta stöð þjóni okkur ekki eftir allt saman? Kannske gagnar jarðstöðin að fullu eins og ástatt er um hana núna, vegna þess að frá því að byrjað var að byggja jarðstöðina man ég ekki eftir að nokkurn tíma hafi orðið bilun á þeim ágætu köplum sem tengja okkur við umheiminn, þ. e. við Skotland og Kanada. Ég man ekki eftir bilun á því tímabili, þannig að það getur vel verið að jarðstöðin þjóni ágætlega þó hún fari ekki í gang. En ég legg áherslu á að ég tel það mikilsverðari framkvæmdir að haldið sé áfram uppbyggingu dreifikerfisins um landið en að lagðir séu miklir peningar í slíka stofnun.