22.04.1980
Sameinað þing: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (1881)

132. mál, símamál

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er langt frá því að ég ætli að gera lítið úr ástandi eða erfiðleikum í símamálum á utanverðu Snæfellsnesi. Enginn vafi er á því, úr því þarf að bæta, en ég gæti, af því að Vestfirðirnir voru nefndir, nefnt mjög slæmt ástand þar sums staðar líka. Svo hygg ég að sé víðar um landið. Og það, sem ég var að segja, var að þetta þarf að vinna jafnt og þétt.

Mér fannst skýring Póst- og símamálastofnunar á mismunandi gjaldi skiljanleg. Skýringin er sú, að það getur orðið að fara í gegnum viðbótartækjabúnað, viðbótarjarðstrengi og þess háttar hluti, og fylgt hefur verið þeirri stefnu að láta greiða að nokkru fyrir það. Notendur greiða að nokkru leyti fyrir þennan viðbótarkostnað. Úr þessu er verið að bæta jafnt og þétt með því að stækka hnútana sem svo eru nefndir. Það hefur verið gert t. d. á þéttbýlisstöðum á norðanverðum Vestfjörðum, svo sem réttilega kom fram. En að þessu er stefnt fyrir allt landið, meira að segja Snæfellsnesið. Með hækkun á gjaldskrá hefur jafnt og þétt verið í allmörg ár unnið að því að jafna kostnað við símaþjónustuna á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Því er ekki náð enn. Og ein af ástæðunum fyrir því er sú, að ekki er enn þá komið upp hér í Reykjavík kerfi til þess að mæla lengd skrefa. Það kemur í lok ársins og skapast þá allt annar möguleiki til jöfnunar á símakostnaði, og ég held það sé mjög réttlátur jöfnuður á símakostnaði. Byrjað er að athuga um nýja gjaldskrá fyrir Póst og síma með tilliti til þeirrar aðstöðu, sem skapast með þessum nýju tækjum.

Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að jarðstöðin er góðra gjalda verð. Við þurfum jafnvel að vera í sambandi við Moskvu. Ég held að engin ástæða sé til að kenna jarðstöðinni um það, að hægar hefur gengið en menn óska. Til jarðstöðvarinnar var tekið sérstakt erlent lán, og ég hygg ég muni það rétt, að það var gert fyrir utan hina almennu áætlun Póst- og símamálastofnunarinnar.

Um bilanir á jarðstöðinni ætla ég ekki að fara að ræða nú. Þær hafa komið í ljós á skerminum sjálfum, á sérstöku einangrunarlagi sem þar er. Framleiðandinn er að sjálfsögðu fullkomlega ábyrgur fyrir þessum bilunum og jarðstöðin verður ekki tekin úr hendi hans fyrr en hann hefur skilað henni þannig að íslenskir og kannske tilkvaddir erlendir sérfræðingar eru sammála um að fullkomlega sé úr bætt. Þetta veldur nú verulegum töfum, nokkurra mánaða töfum, á meðan úr þessu er verið að bæta.