22.04.1980
Sameinað þing: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

14. mál, tekjuskipting og launakjör

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Karvel Pálmasyni, er hann lét svo ummælt að hér væri stórt mál á ferðinni. Það er það vissulega, og ég tel að hér sé mjög gott mál á ferðinni líka sem ástæða sé til að styðja. Ég hef áður látið það í ljós við umr. sem snertu sama málefnið í sambandi við flutning annarrar þáltill., sem er á þskj. 217 og ég flyt ásamt tveimur öðrum þm., hv. þm. Pétri Sigurðssyni og Páll Péturssyni, — ég lét þess getið þá, að hversu gott mál sem þetta væri, þá teldi ég að það væri þannig vaxið að það væri ekki líklegt til að ná þeim árangri sem að er stefnt. Og ég verð að segja það, að ég er eiginlega hissa á þeim ágætu mönnum í hv. atvmn., sem láta málið frá sér fara athugasemdalaust, með tveimur svo sem einskis nýtum brtt., sem snerta aðeins orðalag og gera það frekar óljósara að mínu mati heldur en hitt, sérstaklega önnur brtt., að upphaf 2. mgr. orðist þannig, að í könnunum þessum skuli hafa hliðsjón af því að upplýsa eftirtalda þætti, sem er heldur loðnara en það er þó í tillögunni.

Mér finnst hér um það að ræða, hvort það er hlutverk Alþingis í stórum og mikilvægum málum að láta fara frá sér viljayfirlýsingu, sem í sjálfu sér er mikils virði, eða mál sem marka ákvörðun Alþingis um að ná málinu fram. Ég lét svo ummælt er ég minntist á þetta mál í umr. nú á dögunum — og þótti víst heldur ótilhlýðilega að orði kveðið hjá mér — að mér fyndist þessi þáltill. það umfangsmikil og færast það mikið í fang, að álitamál væri hvort hægt væri að taka hana alvarlega. Ég segi þetta af því að mér finnst þau mál, sem hér er um fjallað, svo brennandi og svo aðkallandi, að við þyrftum að aðhafast eitthvað strax, hafa tillögurnar afmarkaðri, tímabinda þær í þeirri von að hægt væri á næstu árum að hafa gagn af þeim við skipan launa- og kjaramála.

Mig langar aðeins til að benda á t. d. 6. gr. í till. sem fyrir liggur á þskj. 14. Hún hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Að rannsaka, hvort og hvers vegna sumir hópar eru verr í stakk búnir til að ná fram bættum lífskjörum í gegnum almenna kjarasamninga, og á sama hátt að rannsaka hvers vegna öðrum hópum hefur tekist að ná mun betri kjörum en almennt þekkist í landinu.“

Og áfram 7, gr.: „Að meta heilsufræðileg, félagsleg og hagfræðileg áhrif hinna mismunandi launakerfa og vinnuaðstæðna.“

Og enn í 9. gr.: „Að leita skýringa, ef um marktækan mismun er að ræða milli launakjara einstakra byggðarlaga, atvinnuvega, verkalýðsfélaga, starfsgreina eða ólíkra rekstrarforma í atvinnurekstri.“

Þessar þrjár greinar, sem ég tek hér út úr, útheimta að mínu mati svo stórfellda og djúptæka rannsókn á allri okkar þjóðfélagsgerð, að ég hygg að það líði allnokkur ár þangað til við fáum niðurstöður, ef við fáum þá nokkurn tíma niðurstöður, af því sem þarna er mælst til að gert verði.

Og enn vil ég vitna í 14. gr., með leyfi forseta, en hún hljóðar svo:

„Að kanna hvaða möguleikar felast í tekjutilfærslukerfum ríkisins, t. d. skatta- og almannatryggingakerfinu, til að jafna tekjuskiptingu og stuðla að aukinni hlutdeild láglaunafólks, lífeyrisþega og annarra minnihlutahópa í vaxandi þjóðartekjum.“

Hér er það skattakerfið og almannatryggingakerfið sem þarf að brjóta til mergjar. Endurskoðun á almannatryggingakerfinu er að vísu búin að standa yfir lengi, líklega ein af þeim eilífðarskoðunum sem seint kemur nokkuð bitastætt út úr. Ég bendi aðeins á þetta hér, ekki af því að ég sé að hafa á móti þessu máli, — alls ekki. En mér sýnist það þannig lagað, að niðurstaðan verði sú sem vill oft verða um mál frá Alþingi, góð mál sem allir rétta upp hendurnar með, en eru svo meira og minna lögð til hliðar og látið sitja við orðin tóm. Ætli hér sé ekki á ferðinni upplagt verkefni fyrir félagsfræðideild Háskólans að rýna í í nokkur ár. Það yrði þá lagt undir dóm þeirra stúdentanna í félagsfræðideildinni til að segja verkalýðssamtökunum fyrir verkum, vinnuveitendum og Alþingi á hverju við eigum að byggja þarna.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta mál. Ég óska þess, að það náist fram. Í niðurlagi till. er gert ráð fyrir að niðurstöður þessara ofangreindu kannana skuli jafnan leggja fyrir Alþingi þegar þær liggja fyrir. Þetta er í rökréttu samræmi við till. Þarna er gert ráð fyrir langvarandi áframhaldandi keðjukönnun, sem mun vonandi miða áfram smáu og smáu, en ég er ekki mjög bjartsýn um að hún komi að raunverulegu gagni í náinni framtíð, nema þá einhverjir hlutar hennar.

Nú standa yfir samningaumræður sem verða vandasamar og erfiðar, og ég hef lýst því yfir, að ég fyrir mitt leyti er áhyggjufull yfir útkomunni úr þeim samningum. Ég rakti það nokkuð í ræðustól á Alþingi um daginn, sem ég veit raunar að öllum er kunnugt um, hvaða vinnubrögð hafa verið viðhöfð í þessum málum og með hvaða árangri, og ég er hrædd um að nú verði mjög álíka óskapnaður og hefur komið út úr þessum kjarasamningaumræðum og skipan kjaramála á undanförnum árum. En ég skal ekki hafa uppi meira svartsýnistal um þessa till. Ég styð hana að sjálfsögðu. Ég hefði óskað að hún hefði verið afmarkaðri, hún hefði tiltekið atriði sem hægt var — ef vilji væri fyrir hendi — að framkvæma með ekki allt of löngum aðdraganda. Oft var þörf, en nú er nauðsyn.