22.04.1980
Sameinað þing: 47. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2040 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

14. mál, tekjuskipting og launakjör

Frsm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um að undrast vinnubrögð nefndarinnar, þá skýtur þar skökku við miðað við þær umr. sem hér fóru fram í gær. Þá var verið að ásaka nefndir fyrir að starfa ekki. Hér kemur nú fram ásökun um að nefndir skuli afgreiða mál fljótt frá sér.

Till., sem hér um ræðir, var lögð það snemma fram á þinginu að sú till., sem hv. þm. vitnaði til, var ekki komin til umr. hér í þinginu þegar búið var að afgreiða þessa till. úr n., þannig að ég held að þessi ásökun hv. þm. falli. um sjálfa sig. Hins vegar hef ég ekkert við aths. hv. þm. að athuga annað en það, að stjórn BSRB, sem málið fékk til umsagnar, hefði átt að hagnýta sér þá aðstöðu og senda umsögn um málið til viðkomandi n. og gera þær aths. sem henni þótti ástæða til. Því var ekki sinnt, þannig að ég tek ekki mjög alvarlega þó að í sumum tilfellum séu réttmætar aths. við kannske ýmsa hortitti í grg. eins og alltaf vill koma fyrir. En það er að sjálfsögðu hægt að laga.

Varðandi hina hópana, sem hv. þm. nefndi, þá ætla ég ekki að bera á móti því, að hv. þm. veiti mikið um þessi mál, en hvort sú vitneskja er öll saman rétt, það er svo annað mál. Það verða menn að gera upp við sig, hvort þeim finnst viðkomandi manneskja hafa rétta vitneskju eða ekki. En sjálfsagt veit hún mikið.

En er nú ekki æskilegt fyrir okkur hina, sem kannske vitum minna en þessi hv. þm., að fá það fram í dagsljósið til þess að fóta okkur á og beita sem rökum? Ef þessir hópar, sem hv. þm. er að tala um og hún vill fá rannsakaða, hafa talsvert meira í sinn hlut en hinir, sem við viljum leiðrétta kjörin fyrir, er þá nokkuð fráleitt að við fáum eitthvað í hendur til þess að sýna fram á og rökstyðja með að það þurfi að breyta tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu, — ekki bara vitneskju eins og eins hingað og þangað, heldur fáum við það frá hlutlausum aðila á borðið, hver tekjuskiptingin er, og getum fótað okkur á því og beitt því sem rökum í þeirri baráttu sem er um skiptingu á þjóðarkökunni.

Því má svo bæta við, að þeir hv. þm., sem hafa áhuga á því að athuga eitthvað annað í tekjuskiptingu, geta að sjálfsögðu borið fram till. um það í þinginu, meðan þeir sitja þar a. m. k., þannig að það ætti ekki að vera vandamál. En það er ástæðulaust að vera að ásaka hina fyrir að bera fram þau hugðarefni sem þeir hafa til þess að fá umræðu um jafnmikilvægt og stórvægilegt mál eins og hér er um að ræða.