23.04.1980
Efri deild: 67. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

34. mál, brunatryggingar utan Reykjavíkur

Jón Helgason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm. var ég fjarstaddur fund n. þegar þetta mál var tekið til athugunar og afgreiðslu. Ég er samþykkur því efni sem það fjallar um, að upp verði tekin skyldutrygging á útihúsum í sveitum. Hins vegar vil ég óska þess að heilbr.- og trn. taki málið til athugunar aftur milli 2. og 3. umr. þar sem ég tel æskilegt að við 1. gr. bættist ákvæði um það, að eigendum útihúsa, sem nú er verið að taka upp skyldutryggingu á, væri frjálst að tryggja þau hjá hverju því vátryggingarfélagi sem hefur starfsleysi. Þrátt fyrir það að þessi hús hafa ekki verið skyldutryggð eru mörg þeirra í tryggingu nú, og ég tel að það sé óeðlilegt að fara að skylda menn til þess að færa þessar tryggingar yfir, það sé skref í öfuga átt. Hitt mun vera miklu nær, að stefna í hina áttina, sem hefur orðið þróunin í öllum okkar nágrannalöndum, þ. e. að færa tryggingar meira í frjálsræðisátt þannig að eigendunum væri heimilt að ráða því hvar eignirnar væru tryggðar, þó vitanlega verði að viðhalda skyldutryggingunni.

En í sambandi við þessi tryggingamál er margt sem hlýtur að geta komið til greina að endurskoða og breyta. Það er skoðun margra, að hægt sé að gera þetta hagkvæmara en nú er. Benda má aðeins á eitt sem hefur komið nokkuð til umr. í blöðum nú í vetur. Það eru þeir fjölmörgu aðilar sem annast mat fasteigna hér á landi. Nú á síðustu árum hefur Fasteignamat ríkisins verið byggt upp með miklu betri skráningu á fasteignum og betra mati og eðlilegt virðist vera að það mat, sem þar hefur farið fram, verði lagt til grundvallar í þágu annarra aðila, t. d. tryggingarfélaganna. Það hlýtur að mega spara margs konar vinnu með því móti og allmikinn kostnað, en að því hljótum við að vilja stefna.