23.04.1980
Neðri deild: 63. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Einar Kr. Guðfinnsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, snertir eitt brýnasta hagsmunamál þeirra er þurfa að kynda hús sín með olíu. Það er kunnara en frá þurfi að segja að hinar hrikalegu verðhækkanir á olíu, sem dunið hafa yfir undanfarin misseri, hafa lagst þungt á mörg heimili í landinu. Vá og uppþot úti í hinum stóra heimi af völdum olíufursta og erkiklerka hafa snert hag manna jafnt inn til dala sem út við sjávarsíðuna. Réttsýnir menn og sanngjarnir hafa því sameinast í baráttunni um að létta miklu oki af herðum hluta þjóðarinnar. Af þeim sökum er aukið fjármagn til niðurgreiðslu á olíuverði sjálfsagt mál og alls góðs maklegt.

Raunar væri ekki ástæða til þess að fara mörgum orðum um mál þetta ef ekki kæmi til sá einstæði málatilbúnaður sem verið hefur undanfari þessarar tillögu. Raunar hafa þau mál verið rakin hér á hinu háa Alþingi og er ekki ástæða til að fara um þau mörgum orðum. Þó er rétt að minna á eftirfarandi:

Undanfarið hefur verið í fjárlagafrv. ákveðin upphæð sem varið hefur verið til niðurgreiðslu á olíu til þeirra er búa við olíukyndingu. Sú upphæð var þó ekki nægjanleg, síst eftir að olíuverð stórhækkaði á síðasta ári. Svo sem kunnugt er var þessu máli hreyft á hv. Alþ. af þm. í tillögu sem mikla athygli vakti. Núv. ríkisstj. hafði uppi fyrirheit um að koma til móts við vilja og þarfir þess fólks, sem býr á olíukyndingarsvæðunum, og stórauka niðurgreiðslu olíunnar. Eins og svo oft í verkum hæstv. ríkisstj. bar sýndarmennskan einlægan vilja ofurliði. Í stað þess að auka framlög á fjárlögum, eins og eðlilegt hefði verið, var fjárhæð til niðurgreiðslna á olíu hreinlega kippt út og þeirri upphæð, sem áætluð hafði verið til olíuniðurgreiðslu, var síðan mokað samviskusamlega í þá botnlausu hít sem ríkiskassinn er. Eins og hv. þingheimi er kunnugt var síðan ákveðið að hækka söluskattinn svo að unnt væri að greiða fyrir niðurgreiðslu olíuverðsins. Útfærslu á þeirri niðurgreiðslu sjáum við í þessu frv. Ég vil minna á í þessu sambandi að hækkun söluskatts leggst þyngst á þá er búa úti í hinum dreifðu byggðum, einmitt það fólk sem þarf mjög á olíustyrknum að halda. Eðlilegt væri að hafa mörg orð um þann hátt að taka stórar fjárhæðir og ráðstafa þeim utan við fjárlög, en ég vil þó láta mér nægja að minna á að með þessu eru stigin stór og mörg skref til baka í fjárlagagerð og fyndist fæstum ástæða til þess.

Það er í fersku minni flestra að núv. hæstv. ríkisstj. hugðist í upphafi leggja á 2% söluskatt ofan á þann sem fyrir var. Eftir mikið japl og jaml og fuður gafst hún upp og hækkaði söluskattinn einungis um 1.5 stig. Miðað við söluskattshækkun um 2 stig hefðu tekjur ríkissjóðs aukist um 8–9 milljarða, en 1.5% hækkunin nemur 6 milljörðum. Það vekur því eigi allfáar spurningar, að frv., sem lagt hefur verið fram og hér er til umr., gerir ráð fyrir, að kostnaður vegna olíuverðsniðurgreiðslunnar og skyldra hluta nemur alls 4460 millj. kr. Eftir standa 1540 millj. kr. Í 13. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að Húsnæðismálastofnun verði gert kleift að veita einstaklingum lán til orkusparandi endurbóta á íbúðarhúsnæði sem hitað er með olíu. Í aths. við lagafrv. þetta er sagt að sú upphæð nemi allt að 750 millj. kr. Samtals eru 5210 millj. kr. útgjöld því í frv. Þrátt fyrir þetta heimildarákvæði frv. er enn óútskýrt hvernig um 790 millj. kr. verði varið, nema hæstv. fjmrh. hyggst nota upphæðina til að endar nái saman í fjárlagadæminu — og virðist ekki veita af.

Um þetta frv., er nú liggur fyrir Alþ., er annars að segja að það virðist stefna í rétta átt. Af því má ráða að reynt hefur verið að dreifa olíustyrknum sanngjarnar en áður var. Í fskj. frv. kemur fram að á því var mikill misbrestur. Er augljóst að áður guldu einstaklingar og t. d. eldra fólk, sem bjó eitt og börnin voru farin að heiman, þess fyrirkomulags sem var á olíustyrknum. Með því fyrirkomulagi, sem lýst er í frv., er greinilega ætlað að koma til móts við það fólk. Samkv. því munu niðurgreiðslur á olíu nema sama hundraðshluta hvort sem um verður að ræða einn, tvo eða fleiri einstaklinga í íbúð.

Að minni hyggju ætti markmiðið með þessu frv. að vera tvenns konar: Annars vegar að bæta íbúum olíuhitunarsvæðanna þau móðuharðindi, er ég nefni svo og stafa af utanaðkomandi verðhækkunum á olíu, hinsvegar að flýta fyrir því að olíu sem orkugjafa verði rutt úr vegi. Það þarf engum að blandast hugur um hvílíkt óhagræði það er fyrir íbúa olíuhitunarsvæðanna og raunar þjóðina alla að nota olíu tilhúshitunar. Fátt skýrir þetta betur en samanburður á íbúafjölda, er býr við hina ýmsu orkugjafa, og kostnaði, sem fylgir því að nýta þessa orkugjafa.

Nú er talið að um 65% allra landsmanna búi við upphitun húsa með heitu vatni. Kostnaður vegna hitaveitna nemur 24% alls hitunarkostnaðar í landinu. 12% íbúa hafa rafmagnshitun. Kostnaður við hana er um 16% heildarkostnaðarins. 23% eða tæpur fjórðungur þjóðarinnar býr hins vegar við olíuhitun. Kostnaðurinn vegna hennar er um 60% heildarkostnaðarins. Þessar tölur tala sínu máli, segja raunar meira en mörg orð mundu gera.

Þá er ekki síður ástæða til að minna á að við kaupum nú langmestan hluta af olíu okkar frá Sovétríkjunum. Nýgerðir olíusamningar í Bretlandi boða þó vonandi gleðilega stefnubreytingu. Staðreyndin er nefnilega sú, að innan örfárra ára verða Sovétmenn ekki lengur olíuútflytjendur, heldur olíuinnflytjendur. Þeir munu ekki gera sér það að leik að selja okkur eða öðrum olíu. Þeir munu þurfa á allri sinni olíu að halda sjálfir og meira til. Olíuverð er einnig stöðugt á uppleið, olíumarkaðirnir óstöðugir og það má teljast slæmt búskaparlag að ætla sér að treysta á olíu sem orkugjafa í einhverjum mæli á næstunni. Það ríður því á gífurlega miklu að ekki verði sofið á verðinum og að við leggjum ofurkapp á að losa okkur við olíu sem orkugjafa að sem mestu leyti. Í því sambandi eru margs konar orkusparandi aðgerðir mikilvægar. T. d. nefni ég aðeins upplýsingamiðlun og þá kosti sem fyrir hendi eru við stillingu kynditækja. Má fagna ákvæðinu í þessu frv. um að menn geti fengið aukastyrk ef þeir láta stilla og hreinsa kynditæki sín. Loks má nefna einangrun húsa sem gert getur mikinn mun.

Í þessu sambandi vil ég geta þess, að samkv. fyrstu niðurstöðum nýlegrar könnunar, sem getið er um í aths. þessa frv., bendir allt til þess að olíunotkun sé þriðjungi minni á Hvolsvelli en á Raufarhöfn. Hluti skýringar á þessu er vafalaust kaldara veðurfar á Raufarhöfn, en sérfræðingar, sem um þessi mál hafa fjallað, segja þó að meginskýringin sé lakari einangrun húsa á Raufarhöfn. — Mörg fleiri atriði má tína hér til. Ég nefni sem dæmi að nýta mætti betur orku frá mörgum verksmiðjum í landinu, loðnuverksmiðjum o. fl. Ég vil einnig nefna að beita mætti breytilegri verðlagningu á rafmagni til að reyna að lækka toppana. Í þriðja lagi mætti gera stórátak í því að koma landrafmagni í höfnum til skipa, en á því er talsverður misbrestur víða úti um landið.

Herra forseti. Aldrei verður nægileg áhersla lögð á að nýta aðra orkugjafa en olíu hér innanlands. Til þess liggja fjölmörg rök sem ég hef sumpart tíundað hér. Fleira mætti þó tína til. En ég vil að lokum víkja að og minna á ástand mála á Vestfjörðum.

Vestfirðir eru sem kunnugt er dæmigert olíukyndingarsvæði. Aðeins lítill hluti íbúanna kyndir hús sín með öðrum orkugjöfum. Á árinu 1976 var stofnað Orkubú Vestfjarða. Ein meginforsenda þeirrar stofnunar var byggðalína, svonefnd Vesturlína, sem tengja skyldi Vestfirði við önnur rafmagnsveitusvæði landsins í árslok 1979 eða við lok síðasta árs. Með tengingu Vestfjarða við aðalorkuveitusvæði landsins átti þrálátur orkuskortur að vera úr sögunni og unnt yrði að kynda hús með rafmagni í stað olíunnar. Menn voru því bjartsýnir við stofnun Orkubúsins, og ein meginástæða þeirrar bjartsýni var sú fjallgrimma vissa Vestfirðinga að staðið yrði við það að tengja svæðið við hin stóru orkuveitusvæði sunnanlands á árinu 1979. Þáv. iðnrh., núv. hæstv. forsrh., dr. Gunnar Thoroddsen, mun hafa gefið um þetta fyrirheit sem menn töldu óhætt að treysta. Er skemmst frá því að segja, að það hefur ekki staðist. Byggðalínan er ókomin, en talið er, og ég vona að því megi treysta í þetta sinn, að byggðalínan langþráða komist í gagnið á þessu ári. Þessar tafir á framkvæmdum hafa valdið því, að Orkubú Vestfjarða hefur orðið að keyra dísilvélar til framleiðslu á rafmagni. Kostnaður vegna þessarar dísilkeyrslu nemur á annan milljarð kr. Ég óska eftir því, að á þessum fundi í hv. Alþ. verði upplýst hvernig á þeirri töf hefur staðið, en þrátt fyrir margítrekaðar fsp. frá Vestfjörðum hefur ekkert eindregið svar fengist um hvers vegna þessi töf varð á lagningu byggðalínu til Vestfjarða.

Ég sagði í ræðu minni að ég ætti ekki von á öðru en að byggðalína kæmist í gagnið á þessu ári. En ekki er þó sopið kálið. Orkubú Vestfjarða hefur gert myndarlega, en raunsæja framkvæmdaáætlun fyrir þetta ár. Samkv. henni þarf hlutur Orkubús Vestfjarða í lánsfjáráætluninni að verða um 2.5 milljarðar kr. Enn hefur lítið spurst til þessarar hátimbruðu áætlunar, nema hvað blöð hafa verið að velta vöngum yfir hugsanlegri niðurstöðutölu hennar. Enn liggur ekki fyrir opinberlega a. m. k., hver hlutur Orkubús Vestfjarða verður í þessari lánsfjáráætlun, þó mig og marga aðra uggi að hann verði rýrari en vonir hafa staðið til. Ástæða þess, að ég vík lauslega að þessu hér, er sú, að forráðamenn Orkubúsins staðhæfa að verði ekki orðið við óskum þeirra að verulegu leyti muni byggðalínan, Vesturlínan svonefnda, aðeins nýtast að litlu leyti eða a. m. k. að takmörkuðu leyti. Það yrði ömurlegt hlutskipti langþráðrar byggðalínu að standa sem þvottasnúrur engum til gagns nema vetrarvindunum sem um hana mundu næða. Allir sjá því hve nauðsynlegt er að vinda bráðan bug að því að leysa það vandamál, sem dísilkeyrsla til rafmagnsframleiðslu er, og koma til móts við óskir Orkubúsins í lánsfjáráætluninni.

Það er því ekki lítill þáttur í því stóra máli, sem olíukyndingin er, að þannig verði staðið að málum á Vestfjörðum að hægt verði að nýta það langþráða rafmagn sem vonandi skilar sér eftir Vesturlínunni á haustmánuðum. Það er von mín og ósk að hæstv. ríkisstj. hafi þetta í huga.