23.04.1980
Neðri deild: 63. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

120. mál, tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Eins og fram kemur á nál. á þskj. 328 er heilbr.- og trn. þessarar hv. d., sem fjallað hefur um frv. til l. um breyt. á lögum um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, sammála um að mæla með samþykkt frv.

Um er að ræða að mikil óvissa hefur lengi verið um réttarstöðu tannsmiða, sem lýsir sér best í því, að í gildi eru tvær reglugerðir, önnur gefin út af heilbrmrn. með stoð í lögum um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, nr. 64/1971, og hin gefin út af menntmrn. með stoð í iðnfræðslulögum, nr. 48/1966, en tannsmiðir hafa lengi barist fyrir því að fá nám sitt og starfsréttindi viðurkennd sem iðngrein og að með nám þeirra sé farið í samræmi við lög og reglugerðir um iðnfræðslu.

Heilbr.- og trn. fékk um málið umsagnir Tannsmiðafélags Íslands og Sambands tannsmíðaverkstæðiseigenda, sem mæla eindregið með samþykkt frv. En í umsögn Tannlæknafélagsins komu fram aths. sem rétt er að gera nánari grein fyrir. Heilbr.- og trn. telur þó að ekki sé þörf neinna breytinga á frv. vegna þeirra aths.

Í fyrsta lagi telur Tannlæknafélagið að ef fella eigi úr gildi þá reglugerð sem um ræðir í frv., þ. e. reglugerð um tannsmiði sem sett er með stoð í lögum um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, verði að tryggja að sú takmörkun, sem greinir í 5. gr. þeirrar reglugerðar, gildi áfram. Sú grein, sem Tannlæknafélagið vitnar í, í þessari reglugerð hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Tannsmiðir geta annaðhvort starfað sem aðstoðarmenn tannlækna eða stundað starf sitt sem sjálfstæða atvinnugrein, alltaf með þeirri takmörkun, að þeir mega ekki vinna við sjúkling, hvorki við mótatöku eða mátun.“

Heilbr.- og trn. taldi þessa aths. ekki á rökum reista vegna þess að ekki er ætlunin með þessu frv. að tannsmiðir fái leyfi til mótatöku eða mátunar, auk þess sem, en það er meginmálið, í lögum um tannlækningar kemur skýrt fram, í 4. gr. þeirra laga, að öllum öðrum en tannlæknum sé slíkt óheimilt, þ. e. að starfa við mótatöku eða mátun, með fáeinum undantekningum til þeirra tannsmiða sem þá, þegar lögin voru sett 1929, höfðu fengið leyfi til að starfa sjálfstætt vegna skorts á tannlæknum, sem þá var víða. Er mér ekki kunnugt um að slík leyfi hafa verið veitt síðan.

Tannlæknar benda einnig á álit nefndar sem menntmrh. skipaði 23. ágúst 1974 þess efnis að stofna skyldi tannsmíðaskóla í tengslum við tannlæknadeild Háskóla Íslands. Í þessu sambandi er rétt að benda á álit menntmrn. frá 1977, þegar lagt var fyrir Alþ. frv. til l. um tannsmiði sem ekki náði fram að ganga, en í aths. með því frv. segir svo, með leyfi forseta:

„Það er álit menntmrn., að meðan tannsmiðir sinni tannsmíði einvörðungu sé eðlilegt að líta á tannsmíði sem iðngrein, en fari svo að tannsmiðir fá heimild til að móta tennur í munn viðskiptavina að einhverju leyti á eigin ábyrgð, þá falli greinin undir ákvæði um heilbrigðisstéttir.“

Kemur þessi aths. menntmrn. heim og saman við tilgang þess frv. sem hér er til umræðu, þar sem taka á af öll tvímæli um að tannsmíðar teljist til iðngreinar og er ekki ætlunin með frv. að tannsmiðir fái að starfa við mótatöku og mátun. Það verði áfram í verkahring tannlækna sjálfra.

Tannlæknar benda auk þess á í áliti sínu að í grg. með frv. sé dreginn í efa réttur tannlækna til að mennta tannsmiði, en í umsögn þeirra kemur fram að enginn hafi þekkingu til að kenna tannsmiðum nema tannlæknar. Því er til að svara, að þó að menntun tannsmiða hafi þróast á þann hátt, að tannlæknar hafi tekið að sér kennsluna, styðjast þessir kennsluhættir ekki við lagaákvæði. Þó tannlæknar hafi um árabil tekið nema í tannsmíði hafa þeir ekki með því áunnið sér rétt til að taka tannsmíðanema, enda felst ekki í tannlæknaleyfinu sem slíku réttur til að kenna tannsmíðanemum og gætu meistarar í tannsmíði, sem um margra ára skeið hafa starfa við tannsmíði, ekki síður tekið að sér slíka kennslu.

Að lokum benda tannlæknar á að hvað sem verði ofan í þessu efni verði þess gætt að tengsl tannlækna og tannsmiða rofni ekki. Því er til að svara, að þó að þetta frv. verði samþykkt geta slík tengsl fullvel haldist áfram. En nú er starfandi nefnd á vegum iðnfræðsluráðs og í samvinnu við fræðslunefnd tannsmiða sem vinnur við námsskrá tannsmiða. Hafa tannsmiðir bent á í því sambandi, að eins og verklegi þátturinn geti farið fram á tannsmíðaverkstæðum geti hann farið fram við tannlæknadeild Háskólans ef slíkt er talið æskilegra. Má einnig benda á að í flestum okkar nágrannalöndum telst nám tannsmiða til iðngreinar og með nám þeirra og starfsréttindi farið í samræmi við það.

Að öllu þessu athuguðu mælir heilbr.- og trn. með samþykkt þessa frv. og telur að með því sé höggvið á þann hnút sem lengi hefur verið á réttinda- og menntunarmálum tannsmiða. Ætti samþykkt þess að tryggja vilja löggjafans til að viðurkenna tannsmíði sem löggilta iðngrein og staðfestingu á reglugerð um iðnfræðslu nr. 268/1974, en að ekki séu í gildi tvær reglugerðir sem endurspegli þá óvissu sem lengi hefur ríkt um réttarstöðu tannsmiða og nám þeirra almennt.