23.04.1980
Neðri deild: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

131. mál, flugvallagjald

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Frv. það um flugvallagjald, sem hér er til umr., hefur fengið meðferð í hv. Ed. Alþingis. Í frv. þessu er lagt til að flugvallagjald hækki til samræmis við almenna verðlagsþróun frá 1. jan. 1979 eða um nærfellt 60%. Samkv. því yrði gjaldið 8800 kr. fyrir farþega í millilandaflugi og 650 kr. fyrir farþega í innanlandsflugi.

Með 2. mgr. 2. gr. frv. þessa er enn fremur lagt til að ráðh. verði veitt heimild til að hækka flugvallagjald til samræmis við verðlagsbreytingar. Er lagt til að sú heimild verði bundin við hækkun byggingarvísitölu og er það í samræmi við sambærilegt ákvæði í lögum um fjáröflun til vegagerðar. Með þessu móti ætti ekki að þurfa að koma til árlegrar endurskoðunar gjaldsins af hálfu Alþingis til þess eins að halda raungildi þess óbreyttu.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.