23.04.1980
Neðri deild: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

131. mál, flugvallagjald

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Sú ástæða er fyrir því, að ég tek hér til máls, að það hefur verið á okkur borið að við séum að bregðast þeim kjördæmum sem við erum fulltrúar fyrir ef við samþykkjum þetta frv. Það hefur líka verið sagt að flugvallagjaldið væri átthagafjötrar. Vera má að mönnum finnist sem svona stóryrði eigi rétt á sér, en hlægileg eru þau ef horft er til sögunnar og skoðað í reynd hvað átthagafjötrar voru.

Einn þm., hv. 10. Reykv., hótaði málþófi um þetta mál. Mér skildist helst á honum að með því að hóta slíku væri allt útlit fyrir að þeir flokksbræður hans, sem nú styðja ríkisstj., snerust gegn þessu máli. Ég hef litla trú á þeim málflutningi að hóta málþófi. Mér finnst það auvirðileg yfirlýsing og bera vitni um hæpna ást á lýðræði, svo ekki sé meira sagt. (FrS: Þetta er ekki rétt hjá þm. Ég talaði um að beita andstöðu, en ekki málþófi.) Hv. þm. mætti gjarnan skoða nákvæmlega það sem hann sagði í þessu efni. Ég tel að þar hafi fullkomlega komið fram sú hótun sem ég gat um áðan.

Þá ætlaði ég að koma að kjarna þessa máls varðandi flugvallaskattinn. Okkur, sem erum utan af landi, finnst að það sé ansi þungur róður að fá þá fjármuni til flugvallagerðar sem við þurfum. Okkur finnst að það sé nánast hneisa hjá Alþ. hvernig staðið er að öryggismálum flugvalla í þessu landi. Við eigum kannske tvo flugvelli í landinu, hitt eru lendingarstaðir. Ég fyrir mína parta mun leggja á það höfuðkapp að fá meira fjármagn til flugmála. Þannig tel ég að ég styðji mitt kjördæmi. Hver og einn, sem skoðar skattheimtuna á flugið og ber saman við skattheimtuna á umferðina í landinu, hlýtur að gera sér grein fyrir því, ef hann er ekki blindur, að umferðin á landi er miklu meira skattlögð en flugið. Og það hlýtur að vera grundvallaratriði, þegar menn eru að tala um skattheimtu, að þeir hugsi rökrétt í þessum málum. Það er eðlilegt að þarna sé samræmi á milli.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál, en ég mun styðja frv.