23.04.1980
Neðri deild: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

131. mál, flugvallagjald

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður, og ég get það auðvitað vegna þess að margt af því, sem ég hafði hugsað mér að segja, kom fram í máli hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar. Hann mælti furðuskynsamlega af framsóknarmanni að vera um þessa hluti, og þess vegna get ég stytt mitt mál. — En ég hjó eftir því sem hann sagði í lok ræðu sinnar, að menn hefðu beitt býsna einkennilegum útreikningum til þess að fegra málflutning sinn hér. Ég man ekki betur en ríkisskattstjóri hafi einmitt notað dálítið sérkennilega aðferð þegar hann var að reikna út skattbyrðina, sem birtist m. a. í því að einstæðir foreldrar voru reiknaðir barnlausir í hans dæmi.

Herra forseti. Þetta gjald, sem hér um ræðir, flugvallagjald, er gamalt. Það er, eins og allir þessir skattar, ættað frá stjórnartíð Geirs Hallgrímssonar. Sannleikurinn er sá, að við Alþb.-menn og vinstri menn höfum ekki fundið upp einn einasta skatt af þessu tagi. Þegar þessi skattur var lagður á af hæstv. fyrrv. fjmrh., Matthíasi Á. Mathiesen, var hann auðvitað talsvert miklu lægri í krónutölu, en áreiðanlega ekki verðminni ef athuguð er verðlagsþróun síðan. Og eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði í ræðu sinni áðan kom þetta í staðinn fyrir söluskatt. Ef ég flýg frá Reykjavík til Vestmannaeyja, fram og til baka, kostar það núna 26 þús. kr. og söluskattur af því væn á sjötta þús. kr., en þetta gjald, hinir hræðilegu átthagafjötrar, er nú 650 kr. Ég held að menn ættu að hugsa sig dálítið um áður en þeir grípa til slíkra stóryrða í sambandi við hluti af þessu tagi.

Ég vil enn fremur segja það, og kannske fyrst og fremst, að þegar þetta gjald var lagt á í stjórnartíð Geirs Hallgrímssonar og þeirra frjálshyggjumanna annarra voru peningarnir teknir blygðunarlaust beint í ríkissjóð eða í óráðsíuna, eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson orðar það þegar peningar fara til sameiginlegra þarfa landsmanna, svo merkilega sem það hljómar, en nú fara þessir peningar beint til flugmála. Það er aðalatriðið. Ef hægt er að tala um átthagafjötra þeirra, sem fjærst búa Reykjavík við erfið samgönguskilyrði, felast þeir átthagafjötrar í því að ekki er hægt að fljúga á viðkomandi staði vegna lélegs búnaðar. Og þeir fjármunir, sem fara til þeirra verkefna að bæta skilyrðin, eru góðir fjármunir og því er slíkur skattur góður skattur.

Ég lagði til hér fyrir mörgum árum þegar þessi skattur var lagður á, að helmingur af honum a. m. k. færi beint til flugmála. Það var fellt af hv. fulltrúum frjálshyggjunnar hér á hv. Alþingi og af framsóknarmönnum einnig, enda kemur alltaf það versta fram, þegar samvinnumenn og frjálshyggjumenn bindast samtökum um að stjórna þessu landi, og fer allt hræðilega illa.

Við höfum ekki fundið upp söluskatt. Hann er nú orðinn býsna gamall í hettunni. En það hefur einmitt oft áður verið gripið til þess að hækka söluskatt til að ná í peninga í sérstöku skyni. Það var m. a. gert vegna náttúruhamfara hér á sínum tíma. Þegar náttúruhamförunum lauk, var þá ekki þessi söluskattur dreginn til baka? Það mætti kannske spyrja hv. þm., þó ungur sé, Friðrik Sophusson, að því, hvort það hafi verið að undirlagi sjálfstæðismanna að sá skattur öðlaðist eilíft líf, eins og hann orðar það. Náttúruhamfarapeningunum var sem sagt stolið í margumrædda óráðsíu ríkissjóðs.

Það var einnig lögð á hér söluskattsprósenta ein í því sama skyni sem verið er að gera um þessar mundir til að greiða niður olíukostnað úti á landi. Fyrst í stað fór sá skattur til að jafna olíukyndingarkostnað úti á landsbyggðinni, en með hverju árinu sem leið var meira af þessu gjaldi stolið frá hinu upphaflega verkefni í annað, í óráðsíuna, eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson kallar það.

Það væri auðvitað full ástæða til að athuga svolítið betur hvað þessir hv. þm. Sjálfstfl. eru að segja hér þessa dagana. Þeir hafa lagt til að stórlækka niðurgreiðslur, um fjórðung. Lækkaðar niðurgreiðslur þýða að landbúnaðarvörur stórhækka að sjálfsögðu í verði. Það kemur þeim ekkert mjög illa sem nægar hafa tekjurnar, en þeim verst, sem minnst hafa, og þeim allra verst, sem nota langstærstan hluta tekna sinna til að kaupa sér matvæli. Söluskattshækkun, sem nú er ákveðin, kemur ekki á landbúnaðarvörur. — Og ég er ánægður með það einnig að ég varð fyrstur manna á hv. Alþ. til að leggja til að söluskattur yrði felldur niður af landbúnaðarvörum og matvælum. Það var auðvitað fellt bæði af sambandsmönnum og frjálshyggjumönnum eins og annað gott. Nú hefur það sem betur fer verið tekið upp. Og ég vona að hv. alþm. eigi eftir að fara eftir fleiri tillögum af minni hálfu í framtíðinni.

Þetta er það sem hv. sjálfstæðismenn hafa lagt til, að stórlækka niðurgreiðslur með þessum afleiðingum og til að hækka verðbólguna. Þeir hafa lagt til miklu minni skatta og þar með aukna einkaneyslu og meiri innflutning. Allt saman er það verðbólguhvetjandi. Þeir hafa, á sama tíma og skattar skulu lækkaðir, lagt til stórauknar framkvæmdir. Ég hef hvergi heyrt þá minnast á neinn raunverulegan niðurskurð. Allir þessir liðir verða til að ýta undir þensluna í landinu og verðbólguna. Og þetta eru sömu mennirnir sem útbjuggu leifturstríð gegn verðbólgu fyrir nokkrum mánuðum. Hver getur tekið mark á slíkum málflutningi? Það get ég ekki gert.

Hitt er svo annað mál, að ég tel að núv. hæstv. ríkisstj. eigi að gæta sín í skattlagningu, hún þurfi að kanna hvort við getum ekki farið að spara og hvort við getum ekki komið okkur saman um það á næstu mánuðum að reyna að glíma í alvöru við þau vandamál sem við er að glíma, ekki síst verðbólgudrauginn margumtalaða sem engum hefur tekist að ráða við. Og síst ferst þeim frjálshyggjumönnum og leiftursóknarmönnum þegar þeir eru að þenja sig hér um skattlagningar, sem þeir hafa fundið upp, og aðferðir, sem þeir hafa notað æ ofan í æ þó að við höfum nú á borðinu hjá okkur frv. um flugvallagjald, þar sem fjármunir, sem af því koma, fara til flugmála í landinu.