28.04.1980
Efri deild: 70. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2106 í B-deild Alþingistíðinda. (1989)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Mikil átök hafa átt sér stað í íslenskum stjórnmálum undanfarin tvö ár. Fyrir tveimur árum sat þjóðin uppi með ríkisstj. sem kennd var hina misheppnuðu Kröflu, — ríkisstj. sem Íslandssagan mun dæma afar hart, — ríkisstj. fjandskapar við verkafólk, óráðsíu í ríkis- og peningamálum, — ríkisstj. er vann markvisst að því að fórna efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar á altari stundarhagsmuna. Við þessar aðstæður fóru fram alþingiskosningar. Alþfl. og Alþb. unnu sigur. Einkum var sigur Alþfl. stór. Hann einn flokka hafði ekki verið aðili að óráðsíunni. Fólkið í landinu vildi breytingu, það vildi reyna nýjar leiðir. Alþfl. barðist fyrir nýjum leiðum, barðist fyrir gerbreyttri efnahagsstefnu, — stefnu er markaði fráhvarf frá óráðsíunni og ráðaleysinu.

Enginn vafi er á að Alþfl. vann hinn geysimikla kosningasigur sinn á grundvelli þessarar stefnuskrár og túlkunar frambjóðenda hans á henni. Það var geigur í öllum þorra þjóðarinnar við vaxandi skuldir og sívaxandi verðbólgu. Það var árangurslaust búið að reyna alla flokka nema Alþfl. og alltaf versnaði ástandið. En þrátt fyrir vaxandi kjörfylgi og glæsilegan sigur skipaði Alþfl. ekki nema tæpan fjórðung þingsæta. Okkur skorti fleiri þingsæti til að fá stefnu okkar framgengt.

Á þessum tímamótum árið 1978 var áreiðanlegt að þjóðin öll var til þess reiðubúin að takast á við geigvænlegan efnahagsvanda. Það var lag til að hreinsa til. Verkalýðssamtökin, launþegar, allir voru þess fúsir að leggja sitt af mörkum. Alþfl. barðist hart fyrir slíkri endurreisn. Það var og er fullvissa okkar að höfuðmeinsemd efnahagslífsins sé verðbólgan. Við vildum berjast gegn þessari óvætti. Við sjáum að hjöðnun verðbólgu færði launþegum betri lífskjör, meira öryggi, betra þjóðfélag. Við sögðum hiklaust að skák efnahagslífsins yrði að tefla af raunsæi, allir yrðu að fórna um stundarsakir, það yrði að fórna peði fyrir mann. Þegar því væri lokið yrði sóknin til betri lífskjara auðveldari. Þá ynnist tími til að vinna skákina. Gegn þessum röksemdum, gegn tillögum Alþfl. risu kerfisflokkarnir allir. Það voru skörp skil í stjórnmálunum: annars vegar var Alþfl., hins vegar var óráðsíustóðið.

Við tókum þátt í ríkisstj. með Alþb. og Framsfl. Það voru erfiðir tímar. Það kom í ljós að vilji þessara aðila til að móta gerbreytta efnahagsstefnu var enginn. Höfuðmarkmiðið var að hjakka í sama farinu. Lágkúran birtist í þeim skelfilega misskilningi að unnt væri að gera allt fyrir alla.

Alþfl. lagði fram frv. að nýjum efnahagslögum. Þar var gert ráð fyrir gagngerum breytingum á efnahagslífinu. Samkvæmt því var stefnt að því að styrkja hag láglaunafólks, auka réttindi og samstarf við verkalýðshreyfinguna og minnka verðbólguna. Alþb. gerði allt hvað því var unnt til að eyðileggja þetta frv. Framsfl., sem lá í sárum, ráðvilltur og stefnulaus, fylgdi á eftir. Framsóknarmenn eru líka því vanastir að láta allt vaða á súðum. Niðurstaðan varð því miður sú, að þetta frv. var útþynnt af samstarfsaðilunum. Helstu tæki til stjórnunar voru eyðilögð. En við vildum reyna í lengstu lög. Við trúðum því, að Alþb. léti sannfærast. Við vissum um góðan vilja innan þess flokks. Við vissum um verkalýðsfólkið, um forustumenn í verkalýðshreyfingunni, er fylgdu Alþb., er vildu umfram allt að nú tækist heilbrigt og gott samstarf við verkalýðsflokkana. Það urðu okkur sár vonbrigði þegar við smám saman uppgötvuðum að mikil skil voru á milli verkalýðsmanna og svokallaðra menntamanna í Alþb. Okkur varð það smám saman ljóst, að þar réðu valdabraskararnir öllu. Þar réðu uppflosnaðir framsóknarmenn og eiginhagsmunaklíkur.

Á haustdögum var niðurstaðan óvefengjanleg, að enn stefndi í vaxandi erlendar skuldir, enn stefndi í yfirdrátt hjá Seðlabanka, enn stefndi í aukna eyðslu ríkisbáknsins, enn skálmaði verðbólgan áfram með vaxandi skrefalengd. Ekkert benti til að samkomulag tækist um að hverfa af braut óráðsíunnar. Það var við þessar aðstæður að þingflokkur Alþfl. ákvað að standa upp. Við komum til Alþingis með það í huga að breyta þjóðfélaginu. Við vorum kosnir til þess hlutverks að móta gerbreytta efnahagsstefnu. Við gátum ekki unað því að sjá lífskjör láglaunafólks rýrna við vaxandi verðbólgu. Við gátum ekki til þess hugsað að sitja mitt á meðal valdabraskaranna sem einungis vildu áfram stefna að vaxandi verðbólgu, rýrnandi lífskjörum og efnahagslegu hruni. Það var við þessar aðstæður að við stóðum upp. Við kröfðumst dóms kjósenda. Niðurstöður kosninganna voru óvæntar að því leyti að Framsfl., sem í raun er móðir verðbólgunnar, varð sigurvegarinn að þessu sinni.

Það tók langan tíma að mynda nýja ríkisstj. Alþfl. neitaði stjórnaraðild nema tryggt yrði að snúið yrði af braut kjaraskerðingar og verðbólgustefnu. Við vildum stjórn, ekki stjórnleysi. Nú skeðu óvæntir atburðir. Forstokkaðasta afturhaldið í Sjálfstfl. fann sér hliðstæðu. Það fann hliðstæðuna í landbúnaðarpólitík Framsóknar og Alþb. Utan um það eitt var ríkisstj. mynduð.

Okkur í Alþfl. hafði lengi verið ljóst að Alþb. var heillum horfið. Eitt sinn stjórnuðu því menn er áttu sér hugsjónir um betra þjóðfélag. Þá var talað um nauðsyn breytinga, jöfnuð og réttlæti. Nú heyrast þær raddir ekki. Nú heyrist einungis hjáróma hjal um nauðsyn skattahækkana, nauðsyn á auknum tekjustofnum sveitarfélaga, eins og það er kallað, nauðsyn hækkaðs söluskatts. Hér áður fyrr heyrðust þeir tala um nauðsyn þess að vernda kaupmátt verkamannalauna. Nú kynda þeir verðbólguna. Nú hækka þeir neysluvörur svo til daglega. Nú hrópa þeir: Engar grunnkaupshækkanir. Nú heimta þeir niðurtalningu lífskjaranna.

Frv. um skattstiga kemur nú í þriðja sinn fyrir Alþ. Átt hafa sér stað furðulegustu kúnstir með blessaðan skattstigann. Hver vitleysan hefur rekið aðra. Fyrir viku varð fjmrh., alþýðuskattaforinginn Ragnar Arnalds, ber að því að ætla að skattpína fátækar ekkjur, einstæðar mæður og aðra einstaklinga svo hrikalega að eigin flokksmönnum þótti nóg um. Alþfl.-menn bentu hvað eftir annað á þessi vinnubrögð. Því var svarað með hroka og hortugheitum. Þetta átti að knýja í gegn. Það var m. a. vegna þess að Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambands Íslands, krafðist þess að farið yrði að ráðum Alþfl. í þessum efnum að ráðh. lét undan. Ekki var manndómurinn samt meiri en svo, að ráðh. kenndi vitlausum útreikningum um fyrra frumhlaup.

Við gerð kjarasamninga á undanförnum árum hefur einn meginþáttur samningagerðarinnar verið í því fólkinn að semja við ríkisvaldið um skattahlutföll. Verkalýðssamtökin hafa margoft bent á að skattstiginn er kjaraatriði. Það er því ekki að undra að nú streyma inn mótmæli frá stéttarfélögunum vegna aukinnar skattpíningar. Verkamönnum og sjómönnum svíður sárast að nú, þegar verkalýðshreyfingin býr sig undir samningagerð, að nú, þegar launþegar hafa sýnt umtalsverða þolinmæði, skuli ríkisstj, ekkert aðhafast annað en auka skattana og verðbólguna. Alþýðusambandið, BSRB og Verkamannasambandið hafa sent kröftug mótmæli, mótmæli gegn árás ríkisvaldsins á lífskjörin. Í ályktun Verkamannasambandsins er ríkisstj. harðlega gagnrýnd, og segir þar m. a.:

„Á sama tíma og kjaraskerðingar dynja yfir af völdum verðlagshækkana er óhæfa að skerða kjörin frekar með skattaálögum eins og samþykktar hafa verið. Ríkisstj. getur ekki vænst aðhalds af öðrum aðilum þegar hún heimtar sífellt meira í sinn hlut. Þvert á móti ætti að vera hennar hlutverk að vernda kjör launafólks og bæta kjör hinna lægst launuðu, og eru skattalækkanir þar nærtækasta dæmið.“

Eins og ég vék að áðan er Alþb. heillum horfið. Það hefur gengið afturhaldinu á hönd. Nú er það helsti málsvari kjaraskerðingar í landinu. Mörgum þótti nóg um þegar Gunnar Thoroddsen rak rýtinginn í bakið á fyrri félögum sínum. Það er barnaleikur einn miðað við þau svik við hugsjónir sínar og stefnu sem valdastreitumenn Alþb. hafa orðið berir að. Í kristnum fræðum er sagt frá manni er sveik fyrir 30 silfurpeninga. Nú hafa veiklundaðir einstaklingar svikið fyrir þrjá dúnmjúka ráðherrastóla. Þeir hafa brugðist íslenskri alþýðu. Þeir hafa brugðist eigin sannfæringu.

Alþfl. varaði við. Við sögðum: Það er ekki nóg að hafa ríkisstj. Það verður að hafa ríkisstj. sem hefur stefnu og stendur við sín fyrirheit. Við höfum lagt fram tillögur til úrbóta. Við höfum lagt fram raunhæfar tillögur um skattalækkun. Við höfum bent á leiðir út úr þeim efnahagsvanda sem við nú búum við.

Herra forseti. Þrátt fyrir góð aflabrögð, óhemjumikla atvinnu og góð ytri skilyrði er vá fyrir dyrum. Heimatilbúin vandamál, mótuð af kjarkleysi, hrjá þjóðfélag okkar. Við stefnum nú hraðbyri að meiri verðbólgu en nokkru sinni fyrr. Nú er stefnt að því að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari. Skattpeningum okkar er sóað í útflutningsbætur svo útlendingar geti keypt landbúnaðarvörur okkar fyrir svo til ekki neitt. Nú eru kjarasamningar hindraðir af alþýðuskattaforingjanum mikla. Nú er því haldið fram að einstaklingar með einungis 260 þús. kr. mánaðarlaun geti engar kjarabætur fengið. Nú láta ráðamenn sverfa að. Stjórnleysið er í algleymingi.

Það er skammt til 1. maí, baráttudags verkalýðsins. Sá dagur gefur tilefni til að líta yfir farinn veg. Launþegar munu þá hugleiða hvert stefnir. Launþegar sjá að Alþfl. hefur einn haft kjark til að standa við stefnu sína, slegist fyrir úrbótum, krafist betra þjóðfélags og réttlátara þjóðfélags. Ég heiti á hvern einasta Íslending að sameinast í baráttunni fyrir heilbrigðara þjóðfélagi.

Við jafnaðarmenn töpuðum orrustu skömmu fyrir áramót. Nú fylkjum við liði. Hver einasti liðsmaður þarf nú að leggja sitt af mörkum á vinnustöðum, heimilum og samkomum. Alls staðar verðum við að gera það ljóst, að stefna Alþfl. leiðir til farsælla og réttlátara þjóðfélags, að stefna ríkisstj. leiðir til niðurtalningar lífskjaranna. Með ótrauðu starfi og fullvissu um góðan málstað verður raunin sú, að þótt orrusta hafi tapast vinnum við stríðið sjálft.