29.04.1980
Sameinað þing: 49. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

144. mál, símamál á Austurlandi

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 293 ber hv. fyrirspyrjandi fram þrjár spurningar um símamál á Austurlandi. Mun ég byrja með því að lesa svar póst- og símamálastjórnarinnar við tveimur fyrstu liðunum, með leyfi forseta. Þar segir:

„Með tilvísun til bréfs samgrn., dags. 10. apríl 1980, varðandi fsp. á þskj. nr. 293 um símamál á Austurlandi skal eftirfarandi upplýst:

Í Múlasýslum báðum og Austur-Skaftafellssýslu eru nú alls 714 sveitasímar. Þar af eru 154 sveitasinnar eða 21.5% tengdir sjálfvirka símakerfinu. Handvirkir sveitasímar eru alls 560 eða 78.5%. Þjónustutími þessara síma er sem hér segir: 59 símar njóta fjögurra tíma símaþjónustu, 184 símar njóta 6 tíma símaþjónustu, 145 símar njóta 10–12 tíma símaþjónustu, 24 símar njóta 24 tíma símaþjónustu. Í fjárlögum þessa árs er m. a. gert ráð fyrir að tengja sjálfvirkan síma frá Vopnafirði til símnotenda í Bakkafirði í Skeggjastaðahreppi.“

Þetta eru svör póst- og símamálastjórnarinnar.

Um 3. liðinn vil ég hins vegar segja það, að ég hef ákveðið að endurflytja frv. það sem hæstv. núv. fjmrh. flutti í fyrra um áætlun um sjálfvirkan síma. Hins vegar hef ég beðið póst- og símamálastjórnina að láta mér í té það sem ég vil leyfa mér að kalla raunhæfa framkvæmdaáætlun í þessu stóra máli. Ég efast um að unnt yrði að ná því, sem þar er að stefnt, á fjórum árum og ég vil miklu fremur að áætlun sé gerð þannig, að öruggt sé að ekki þurfi að hverfa frá henni ár eftir ár, heldur en leggja fram skýjaborgir. Að þessu er nú unnið og ég vona að slíkt frv. verði tilbúið nú í haust.

Ég vil hins vegar taka undir flest allt sem hv. frsm. sagði um mikilvægi símaþjónustunnar. Það er allt rétt. Síminn er að sjálfsögðu mjög nauðsynlegt tæki til að ná því sambandi sem er mikil þörf á í nútímaþjóðfélagi, bæði varðandi heilsugæslu og fjölmargt fleira. Ég vil hins vegar halda því fram, að smám saman hafi þó miðað í rétta átt þó mikið sé eftir, og ber út af fyrir sig að fagna því. Ég hygg að sömu sögu sé unnt að segja víða af landinu. Þótt Austfirðirnir séu strjálbýlir að nokkru leyti, þá er um það bil sami íbúafjöldi þar t. d. og á Vestfjörðum og ég gæti hugsað mér nokkurn veginn sömu upplýsingar þaðan. Svo er vitanlega víða. Einnig ber þess að sjálfsögðu að gæta, að við gerð framkvæmdaáætlunar verður að taka tillit til þess svigrúms sem þjóðarbúið leyfir, og mér var það sannarlega ekki kært að nauðsynlegt reyndist að skera niður framkvæmdaáætlun Pósts og síma á þessu ári um nálægt því einn milljarð. En sú framkvæmdaáætlun, sem hafði verið gerð, var ekki talin rúmast innan þeirra fjárfestinga sem þjóðarbúið þolir með tilliti til þenslu, verðbólgu og þess háttar meginmarkmiða. Þarna þarf því að hvoru tveggja að gæta, þó að ég taki, eins og ég segi, heils hugar undir þau orð sem hv. fyrirspyrjandi hafði um mikilvægi símans.

Ég vil einnig taka undir það sem hann sagði um nauðsyn þess að jafna símakostnað, en vek athygli á því, að í þessa átt hefur jafnt og þétt miðað. Við hverja hækkun á símagjöldum undanfarin ár hefur þess verið gætt að jafna símakostnað og hefur töluvert færst í þá áttina, þótt ekki sé það orðið fullkomið enn þá, langt frá því. En ég hygg að næsta skref í þessa átt verði tekið þegar talning kemur eða mæling á skrefalengd á höfuðborgarsvæðinu, en það verður nú í lok ársins. Það skapar stóraukin tækifæri til að jafna símakostnað meira en gert hefur verið.

Ég vil einnig nefna það, að í vinnslu er nú hjá póst- og símamálastjórninni algerlega nýtt kerfi fyrir einstaka landshluta, þar sem þeim verður skipt í svokölluð hnútasvæði með einni aðalstöð og á einmitt að þjóna því markmiði, sem hv. fyrirspyrjandi hafði orð á, að gera mönnum kleift að ná á sama gjaldi og lægsta taxta þar með til allra nauðsynlegra staða á viðkomandi svæði. Þegar liggja fyrir drög að þessu, þar sem landinu er skipt í, minnir mig, rúmlega 20 slík svæði og er það verulega mikil fækkun frá því sem nú er. Þannig er verið að vinna að breytingum á gjaldskrá sem ég hygg að muni teljast æðiviðamiklar og róttækar þegar þær verða sýndar.