29.04.1980
Efri deild: 71. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

5. mál, lántaka Bjargráðasjóðs

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um ábyrgðarheimildir vegna lántöku Bjargráðasjóðs. Er hér um að ræða staðfestingu á brbl. sem út voru gefin í nóv. 1979. Nefndin fjallaði um frv. eins og það lá fyrir, án þess að þar hefðu komið til umr. nokkrar breytingar, og varð sammála um að leggja til að það yrði samþ. og brbl. staðfest óbreytt.

Nú hefur mér borist beiðni um að þetta mál yrði tekið til athugunar í því skyni að hægt væri að hækka þessa ábyrgðarheimild og hún yrði samhljóða því sem fjárlög gera ráð fyrir. Kemur fram í lánsfjáráætlun að þessi lántöku- og ábyrgðarheimild ríkissjóðs verði 1500 millj. kr. í staðinn fyrir 850 millj. kr.

Ég legg því til að á milli 2. og 3. umr. komi fjh.- og viðskn. saman aftur til fundar og fjalli um þessa beiðni, hvort möguleiki sé á að taka þetta inn og komi þá fram sem brtt.