20.12.1979
Efri deild: 11. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

42. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði er komið frá Nd. og var 42. mál þeirrar deildar, á þskj. 42. Ástæðan fyrir flutningi þess er augljós, en þar sem ljóst er að ekki verður unnt að afgreiða fjárlög fyrir árið 1980 um næstu áramót ber brýna nauðsyn til að veita ríkisstj. þær heimildir sem frv. gerir ráð fyrir, þannig að ekki komi til greiðslustöðvunar hjá ríkissjóði þegar hinn 1. jan. n.k. Ef til slíkrar greiðslustöðvunar kæmi næði hún til allra samningsbundinna greiðslna ríkissjóðs, þ. á m. launa, auk allra venjulegra rekstrargjalda og annarra gjalda sem talist geta venjulegar fastar greiðslur ríkissjóðs. Af þessum sökum er frv. þetta lagt fram og leitað heimilda til bráðabirgðafjárgreiðslna úr ríkissjóði.

Tvær breytingar voru gerðar á frv. í meðförum Nd. Eins og frv. var lagt fram í upphaflegri gerð, var gert ráð fyrir að bráðabirgðafjárgreiðsluheimild yrði veitt þangað til fjárlög yrðu samþykkt, en ég tók það sérstaklega fram, þegar ég mælti fyrir frv. í Nd. Alþingis, að ég hefði sent drög frv., á meðan það var í smíðum, til þingflokkanna og óskað eftir afstöðu þingflokkanna til efnis þess og lýst mig reiðubúinn að gera hverjar þær breytingar á frv. sem þingflokkarnir teldu eðlilegar og nauðsynlegar. Ég vissi að þetta hafði verið eitt af því sem rætt var, hvort ætti að gera þessa heimild tímabundna og þá við hvaða tíma ætti að miða. Þegar nauðsynlegt var orðið að leggja frv. fram á hinu háa Alþingi höfðu hins vegar ekki borist svör frá þingflokkunum og því tók ég það ráð að leggja frv. fram í upphaflegri mynd, eins og það var samið í fjmrn, en lýsti yfir að ég mundi að sjálfsögðu fúslega fallast á allar þær breytingar, þ. á m. tímatakmörkun á bráðabirgðafjárgreiðsluheimildinni, sem nm. í hv. fjh.og viðskn. Nd. gætu orðið ásáttir um. Í þeirri n. var fallist á að takmarka bráðabirgðafjárgreiðsluheimildina við 15. febr., og hefur það þann ótvíræða kost, að slík takmörkun hlýtur að ýta á eftir því að hv. Alþ. og fjvn. ljúki fjárlagavinnunni og fjárlagagerð sem allra fyrst, það er að sjálfsögðu ljóst, að ef það tekst ekki fyrir 15. febr., þá verður Alþ. að búa sig undir að veita þeirri ríkisstj., sem þá verður í landinu, hver sem hún verður, viðbótarfrest til bráðabirgðafjárgreiðsluheimilda.

Í öðru lagi gerði Nd. þær breytingar á frv. frá upphaflegri gerð þess, að í 3. gr. frv. hafði fallið niður úr heimildarákvæðum, sem þar eru, að fjmrh. væri heimilt að taka lán allt að 12 þús. millj. kr. í erlendri mynt. Sú breyting var sem sé gerð í meðförum d. að taka þessi orð inn í frv., að þessi lántaka væri heimil í erlendum gjaldeyri. Í öðru lagi var sú breyting gerð, að í stað þess, eins og sagði í gr., að verja ætti andvirði þessa fjár í samráði við fjvn. til framkvæmda o.s.frv., var sagt að fjmrh. hefði heimild til að verja andvirði þess að fengnu samþykki fjvn. Ég fellst að sjálfsögðu á þessa breytingu líka og styð hana, en hef óskað eftir því við formann fjvn., að hann athugi hvort möguleikar séu á því að halda fund í fjvn. og að nefndin feli t.d. undirnefnd sinni að fara með þetta umboð fyrir nefndarinnar hönd frá því að þingi verður frestað núna rétt fyrir jólin og þangað til þing kemur aftur saman, hvenær sem það verður eftir áramót, af þeirri einföldu ástæðu að mér er kunnugt um að nokkrar óskir munu berast milli jóla og nýárs um slíkar fyrirgreiðslur frá einstökum aðilum, t.d. Orkubúi Vestfjarða og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Nauðsynlegt er að geta svarað slíkum beiðnum sem allra fyrst. En það getur reynst ómögulegt að kalla alla fjvn. saman á svo stuttum tíma í jólaleyfi þm., og því óska ég eftir að fjvn. kanni þann möguleika, hvort hún gæti veitt t.d. undirnefnd sinni umboð til að samþykkja slíkar fyrirgreiðslur á þeim tíma sem þing situr ekki og þm. eru í jólaleyfi. Þetta er að sjálfsögðu háð ákvörðunarvaldi fjvn. sjálfrar, en þessum tilmælum hef ég sem sé komið á framfæri við n. og formann hennar.

Fjh.- og viðskn. Nd. fékk ýmsar upplýsingar til þess að meta m.a. þá lánsfjárþörf, sem rætt er um í 3. gr., og þá þörf fyrir tímabundinn yfirdrátt, sem rætt er um í 2. gr. Ég mun að sjálfsögðu sjá til þess, að hv. fjh.- og viðskn. þessarar d. fái allar þær upplýsingar, sem hún kynni að óskar eftir, og aðrar þær upplýsingar, sem hún kynni eftir að leita, en legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. þessu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.