29.04.1980
Neðri deild: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú gert grein fyrir þessu frv., og satt að segja þótti mér sem ýmislegt í hans máli bæri vott um sömu blekkingarnar og komu fram í hinni stóru fyrirsögn Þjóðviljans sem hæstv. ráðh. gerði hér reyndar að umtalsefni, um 5500 millj. kr. skattalækkunina hjá barnafólki og lágtekjumönnum. Það er nefnilega greinilega svo, að þeir hjá Þjóðviljanum vita mætavel að það eru ýmsir sem lesa bara stærstu stafina, og á þeim grundvelli hefur þessi fyrirsögn alveg örugglega verið valin.

Hæstv. ráðh. sagði að það væri út í hött að fullyrða nokkuð um það á þessu stigi málsins, hver tekjubreytingin væri milli ára. Það má rétt vera. En hvers vegna er þá hæstv. ráðh. að fullyrða, eins og mér þótti hann gera, að tekjubreytingin væri ekki nema 45%? (Fjmrh: Ég fullyrti ekkert.) Allar þær kannanir, sem hafa verið gerðar, benda til þess, að tekjubreytingin sé miklu meiri, 47–48%, og meðan við höfum ekki annað í höndunum hljótum við að fara eftir því. Hér eru sem sagt gjarnan stundaðar þær blekkingar sem svo mjög hafa verið hafðar í frammi að undanförnu af hæstv. ríkisstj. í sambandi við skattamálin.

Hér er raunverulega um að ræða verulega þyngingu skattbyrðar, a. m. k. um 2–3 milljarða kr. hækkun tekjuskatts frá því sem var ákveðið af vinstri stjórninni sálugu, en frá því 1978 er hér örugglega um að ræða 10–11 milljarða hækkun á tekjuskatti.

Um hvað er það sem þetta mál snýst? Það snýst um lögfestingu nýrra skattstiga vegna hinna nýju skattalaga sem nú koma að fullu til framkvæmda. Það var auðvitað nauðsynlegt að setja löggjöf um nýja skattstiga, þar sem í gildandi lögum er miðað við staðgreiðslukerfi skatta, en eins og menn vita hefur ekkert verið gert af hálfu þeirra ríkisstj., sem setið hafa frá því sumarið 1978, til þess að koma á staðgreiðslukerfi skatta. þess vegna er nauðsyn að setja nýja skattstiga.

Frv. þetta er einn þátturinn af mörgum í hinum stórfelldu og auknu skattaálögum sem hæstv. ríkisstj. og sá þingmeirihluti, sem hana styður, standa að. Frv. gerir ráð fyrir að allir vinstristjórnarskattarnir verði í gildi áfram, en menn muna hvernig að þeim málum var staðið haustið 1978, þegar skattar voru gerðir afturvirkir í stórum stíl. Auk þess er svo hækkun frá þessum sköttum, eins og ég sagði áðan. Breytingin frá þeim reglum, sem giltu 1978, er 10–11 milljarðar kr., það hefur ekki verið hrakið. Þjóðhagsstofnun áætlar brúttótekjur framteljanda til álagningar 1980 820 milljarða kr. Skatthlutfallið 1978 var 11.6% af brúttótekjum 1978. Ef það hlutfall væri nú í ár, þá væri um að ræða 95 milljarða í álagningu tekjuskatts, eignarskatts, sjúkratryggingagjalds, útsvars og fasteignaskatta. En skatthlutfall núv. ríkisstj. er 14.7% og það þýðir 120 milljarða eða 25 milljarða umfram það sem verið hefði ef reglurnar frá 1978 væru í gildi. Þetta samsvarar 650 þús. kr. aukinni skattbyrði á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Og það, sem alvarlegast er, er að ráðstöfunartekjur heimilanna skerðast verulega. Fólk kemst ekki hjá að greiða hækkun söluskatts, vörugjalds og þess sem kallað hefur verið orkujöfnunargjald, en er ekkert annað en hækkaður söluskattur, — það kemst ekki hjá því að borga þessa skatta þegar keyptar eru inn nauðsynjar, og þá gildir einu hversu miklar tekjur menn hafa. Svo tala hæstv. ráðh. um það, að því er virðist í fullri alvöru, að um skattalækkanir sé jafnvel að ræða.

Ekki tekur betra við þegar litið er til hinna óbeinu skatta. Þar á að halda öllum vinstristjórnarsköttunum, eins og ég sagði áðan. Það er hækkaður söluskattur um 1.5 prósentustig að auki. Þetta þýðir allt saman 45.5 milljarða í þyngjandi sköttum, aðallega í formi söluskatts, vörugjalds og bensínhækkunar umfram það sem verið hefði ef skattreglur 1978 hefðu gilt. Það má draga frá tollalækkanir vegna milliríkjasamninga og niðurfellingu söluskatts á nokkrum vörutegundum. Þetta gerir samtals 14.5 milljarða, en eftir stendur þá 31 milljarður í umframskatta í vöruverði miðað við 1978. Ég held að það sé rétt að rekja þennan aukaskattreikning hæstv. ríkisstj. Það gæti kannske orðið til þess að stjórnarliðar áttuðu sig frekar á hvað þeir eru að gera, en það virðist svo sem þeir séu vart með rænu þegar þeir eru að leggja blessun sína yfir allar þessar skattahækkanir hæstv. ríkisstj.

Hér er um að ræða hækkun söluskatts frá því í fyrrahaust um 2%, þ. e. um 9.3 milljarða, það er hækkun vörugjalds frá sama tíma um 6%, 7.7 milljarðar, það er gjald á ferðalög til útlanda 1700 millj., það er nýbyggingargjald 250 millj., það er skattur á verslunarhúsnæði 1700 millj., aðlögunargjald 1840 millj., hækkun verðjöfnunargjalds af raforku 1220 millj., skattahækkun á bensín umfram verðlagshækkanir 10 100 millj., það er nýtt orkujöfnunargjald, sem er í raun 1,5% söluskattur, 6000 millj., og það eru auknar markaðar tekjur í ríkissjóð 4700 millj. Þetta er nettó 31 milljarður, eins og ég sagði áðan. Þessar tölur er að finna í fjárl. og að nokkru leyti reiknaðar samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun.

Hækkun söluskatts og vörugjalds, sem ákveðin var í fyrrahaust af vinstri stjórninni, leggur í ár 8 milljarða skattaálögur á þjóðina. En í fyrra voru þessar skattahækkanir 2.7 milljarðar vegna þess hversu seint hækkunin kom til framkvæmda á árinu. Gjald á ferðalög til útlanda, nýbyggingargjald, skattur á verslunarhúsnæði og aðlögunargjald eru allt nýir skattar sem fyrst voru lagðir á af vinstri stjórninni. Og orkujöfnunargjaldið, sem er í raun almenn hækkun söluskatts, eins og ég sagði áðan, er uppfinning núv. ríkisstj. og leggur nýja skattbyrði á sem nemur 6 milljörðum í ár, en á 12 mánaða tímabili 8 milljörðum. Þetta er aukareikningur hæstv. ríkisstj. í óbeinum sköttum.

Þetta mál hefur þegar fengið allítarlega umfjöllun í hv. Ed. Ég ætla ekki að kvelja hæstv. ríkisstj. með því að rekja raunasögu frv. gegnum þá d., frestanir útvarpsumræðna hvað eftir annað, ranga útreikninga, nýjar upplýsingar, nýreiknuð dæmi o. fl., o. fl. Allt hefur það verið með eindæmum. En ekkert hefur fengið stöðvað ríkisstj. í þeim ásetningi sínum að hækka skattana sem mest hún má. Þar hefur stefna flokks hæstv. fjmrh. sannarlega fengið að njóta sín.

Í forustugrein málgagns Alþb. á Austurlandi var fyrir skömmu rætt af mikilli hreinskilni um skattastefnu Alþb. Launþegasamtökin og allur almenningur eiga að krefjast aukinnar samneyslu og þar með aukinna skatta. Þetta er tónninn frá Lúðvík Jósepssyni og Hjörleifi Guttormssyni, hæstv. iðnrh., og hv. þm. Helga Seljan. Í nefndri forustugrein segir að háir skattar séu í samræmi við hagsmuni almennings. Svo er verkalýðsforusta Alþb. hér fyrir sunnan eitthvað að blaðra um það, að nú komi skattalækkanir láglaunafólki best. Þar hlýtur að kveða við falskan tón. Fulltrúar Alþb. í ríkisstj., í borgarstjórn Reykjavíkur og öðrum sveitarstjórnum, þar sem þeir eru í stjórnarandstöðu, eru að framfylgja þessari skatthækkunarstefnu Alþb. markvisst.

Allt frá því að vinstri stjórnin tók við haustið 1978 hafa nýjar og nýjar skattahækkanir dembst yfir þjóðina. Fólkið í landinu er skattpínt meir og meir. Tilgangurinn er margþættur. Það á að auka samneysluna, það á að vera í þágu hagsmuna almennings, háir skattar þar með einnig í þágu hagsmuna almennings, eins og sagði í ritstjórnargreininni sem ég var að vitna til áðan. Það er farið ránshendi um vasa almennings, peningarnir eru notaðir til þess að auka ríkisumsvifin. Almenningur fær ekki og á ekki að fá að ráða sínu aflafé, ekki eðlilegum skerf þess. Auðvitað er þetta fé betur komið í höndum þeirra, sem afla þess, en misviturra Alþb.-manna og hjálparkokka þeirra. Þetta er sem sagt stefna Alþb. sem þarna fær að njóta sín.

Það þarf engan að undra hversu fylgispök Framsókn er við þessa skattpíningarstefnu. Hún hefur í auknum mæli tekið þessa stefnu upp á sína arma, sér enga aðra leið en skattahækkanir fremur en Alþb. Niðurskurður ríkisútgjalda kemur ekki til greina á þeim bæ. Svo spyrja þessir háu herrar hvað muni ske ef farið væri að till. sjálfstæðismanna um skattalækkanir. Þeir sem þannig spyrja, skilja ekki grundvallaratriði efnahagslífsins. Það er ómögulegt að álykta öðruvísi þegar svona er spurt.

Eins og ég sagði áðan, þá er fylgispekt Framsóknar við skattpíningarstefnu Alþb. ekkert sérstakt undrunarefni.

En afstaða þeirra sjálfstæðismanna, sem styðja þessa ríkisstj. eða sitja í henni, er óskiljanleg. Það má spyrja hvort þeir hafi boðað þessa stefnu fyrir kosningar. Hver var afstaða þeirra þá? Hvað með hæstv. forsrh. sem kynnti stefnu Sjálfstfl. fyrir kosningar á ýmsum fundum, á vinnustöðum og víðar? Var hann á móti því þá að boða niðurfellingu vinstristjórnarskattanna? Það var ekki svo að heyra eða sjá. En spurning er því hvað hér hefur gerst.

Það er ekki stórmannlegt að tala um skruggur og skemmdir eftir kosningar, eins og hæstv. forsrh. hefur gert um stefnu flokks síns, eftir að hann hefur talið sér sæma að ganga til liðs við andstæðinga flokks síns með þeim sérstæða hætti sem hann hefur gert. Eða stafar fylgi sjálfstæðismannanna í ríkisstj. við þessa stefnu skattpíningar af því að þeir ráða þar engu? Annaðhvort er að þeir hafi horfið frá stefnu síns flokks, ákveðið það vitandi vits að söðla um, væntanlega vegna þess að þeim þykir það klókt í ljósi þess að flokknum gekk heldur illa í kosningunum, eða þá þeir eru neyddir til að fylgja stefnu sem þeir hafa til þessa barist gegn. Ef svo er, þá er þeim sannarlega vorkunn. Þá er það komið fram sem margir spáðu: Þeir eru bandingjar Alþb. og Framsóknar í þessari ríkisstj. Þeir ráða engu og geta ekki, þótt þeir vildu, sveigt stefnu stjórnarinnar í átt að stefnu Sjálfstfl. í einu né neinu og síst í skattamálum. Þetta er ömurlegt hlutskipti.

Ríkisstj. reynir nú sem mest hún má að telja fólki trú um að leið hennar í skattamálum sé hin eina rétta, hún muni leiða til lækkunar verðbólgu, eða eins og segir í stjórnarsáttmálanum: „Ríkisstj. mun vinna að hjöðnun verðbólgu þannig að á árinu 1982 verði verðbólgan orðin svipuð og í helstu viðskiptalöndum Íslendinga.“

Hver trúir því að svona muni verða eins og af stað er farið? Sem sagt, skattahækkanir eru leiðin til að ná því marki sem þarna er greint frá í stjórnarsáttmálanum, en ekki leið Sjálfstfl. um skattalækkanir. Auðvitað trúir enginn þessum þvættingi og stjórnarliðar síst af öllu sjálfir. En almenningi er ætlað að trúa þessum blekkingum og sjálfsagt trúa einhverjir þeim í byrjun. En annað mun verða uppi á teningnum og það fyrr en varir. Hvernig ætlast menn til að nokkur maður trúi til lengdar að þessi stefna ríkisstj. í skattamálum leiði til hjöðnunar verðbólgu? Er það leið til hjöðnunar verðbólgu að hækka söluskatt um 1.5 prósentustig nú til viðbótar 2 prósentustigum vinstri stjórnarinnar? Þetta þýðir aukna skattheimtu í formi hækkaðs vöruverðs og þjónustu upp á 18 milljarða kr. Þetta er tekið af öllum, hvort sem menn hafa háar eða lágar tekjur. Þetta er fljótvirkasta leiðin til að fara ofan í vasa almennings og moka peningum í ríkissjóð. Og þetta hefur þveröfug áhrif við fyrirheitin um niðurtalningu verðlags, eins og það heitir hjá hæstv. ríkisstj.

Þessi niðurtalning verðlags, sem fyrirhuguð var og er kannske enn þá, er reyndar út af fyrir sig mesta tilræði við atvinnureksturinn sem nokkru sinni hefur verið kynnt af nokkurri ríkisstj. í þessu landi. Halda menn að það sé leið til hjöðnunar verðbólgu að þrefalda skattaálögur á bensín síðan 1978, þannig að nú er svo komið að hvergi í veröldinni eru meiri skattar á rekstur og stofnkostnað bifreiða en á Íslandi? Þessi skattauki einn nemur rúmum 10 milljörðum kr. Það er hækkun á hluta ríkissjóðs í bensínverðinu umfram verðlagshækkanir. Í krónum talið er hækkunin á bensíngjaldi, tollum og söluskatti af því 20 milljarðar frá 1978 eða yfir 220%. Síðast þegar bensínverð hækkaði, það er ekki langt síðan, nam hækkunin 60 kr. á lítra. Þar af fara 42 kr. í ríkissjóð. Af 430 kr., sem lítrinn kostar í dag, fara 247.50 í ríkissjóð eða 57.6%, en 21.2% af verðinu fara til vegaframkvæmda. Það er mikil rausn!

Svona mætti auðvitað lengur telja, af nógu er að taka. Það er ofurskiljanlegt að stjórn BSRB og viðræðunefnd ASÍ mótmæli hækkun tekjuskatts, útsvars og söluskatts, „sem ásamt gengislækkun eru olía á verðbólgueldinn“, eins og sagði í samþykkt ríkisstarfsmanna. Og fyrir fáum dögum samþykkti Verkamannasamband Íslands ályktun þar sem segir að sambandsstjórnin leggi áherslu á, „að skattalækkanir frekar en krónutöluhækkanir kaups, sem eru étnar jafnóðum upp af verðlags- og skattahækkunum, eru raunhæfari kjarabætur til verkafólks. Það er því á ábyrgð ríkisstj. og atvinnurekenda ef nú verður efnt til alvarlegra þjóðfélagsátaka“, segir í þessari ályktun Verkamannasambandsins. En ríkisstj. treystir eflaust á að við mótmælin ein verði látið sitja. Þetta er ríkisstjórn verkalýðsins — eða er ekki svo? Og kannske er þetta leiðin til að greiða fyrir kjarasamningum? Einhvern tíma hefði annað verið álitið í þeim efnum.

Það mætti vissulega fara mörgum fleiri orðum um skattahækkanir þessarar ríkisstj. Mörgum þótti nóg um gífurlegar skattahækkanir vinstri stjórnarinnar þá 13 mánuði sem hún sat að völdum haustið 1978. Í kosningabaráttunni í vetur var það eitt af grundvallarstefnumiðum Sjálfstfl. að afnema alla vinstristjórnarskattana og leggja tekjuskattinn niður sem almennan launaskatt. Núv. ríkisstj. hefur valið sér þveröfuga leið. Hún viðheldur öllum vinstristjórnarsköttunum og bætir álögum á þjóðina í hverri viku. Hún ber ábyrgð á söluskatts- og vörugjaldshækkuninni, sem ákveðin var í fyrrahaust, og leggur þannig á þessu ári 18 milljörðum kr. a. m. k. meiri skattaálögur á almenning en í fyrra. Hún heimilar sveitarfélögum að leggja á að giska 4–5 milljarða aukaútsvar á skattborgarana. Hún bætir 2–3 milljörðum við tekjuskatt einstaklinga ofan á hækkun vinstri stjórnarinnar og leggur á nýtt orkujöfnunargjald sem eykur skattbyrðina um 6 milljarða kr. Aukaskattreikningurinn lítur því þannig út: Það er hækkun á vörugjaldi og söluskatti um 18 milljarða, hækkun útsvara 4.5 milljarðar, hækkun tekjuskatta 2.5 og orkujöfnunargjald 6, eða samtals 31 milljarður, og ýmsu mætti sjálfsagt bæta hér við.

Jaðarskattur er nú orðinn 65% auk hluta skattheimtu í tolltekjum, vörugjaldi, söluskatti og bensíngjaldi. Hér er auðvitað allt of langt gengið. Þessi skattheimta er ekki hvati til aukins vinnuframlags, þvert á móti. Hún dregur úr löngun manna til þess að vinna. Hún kemur í veg fyrir eiginfjármyndun í atvinnurekstri, tæknivæðingu og framleiðniaukningu fyrirtækja.

Sjálfstfl. er algerlega andvígur þessari stefnu. Fulltrúar flokksins í fjh.- og viðskn. Ed. fluttu brtt. í samræmi við stefnu flokksins við 2. og 3. umr. um þetta mál þar. Við 2. umr. voru brtt. efnislega þær, að álagning tekju- og eignarskatta sé sú sama eða sem hliðstæðust og var 1978, eftir þeim lögum sem sjálfstæðismenn báru þá ábyrgð á, - að afturvirk aukning tekju- og eignarskatta einstaklinga og félaga, sem vinstri stjórnin lagði á, sé afnumin, en þessir skattar hafa verið lagðir á í einu eða öðru formi síðan haustið 1978, — að tekjuskattar til ríkisins lækki sem svarar hækkun á útsvörum sem heimiluð var nú fyrir skömmu. Auðvitað náðu þessar till. ekki fram að ganga.

Við 3. umr. í hv. Ed. fluttu fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. enn brtt. Nýjar upplýsingar höfðu þá reyndar komið fram milli umr. Þær till voru á þá leið, að skattstiginn yrði þannig: 20% af fyrstu 2.5 millj., 30% af næstu 3 millj. og 40% af yfir 5.5 millj. Barnabætur yrðu eins og lagt var til af hálfu ríkisstj., sparifé og spariskírteini verði alltaf undanþegin eignarskatti, ónýttur persónuafsláttur nýtist til greiðslu sóknargjalda og kirkjugarðsgjalda auk útsvars og sjúkratryggingagjalds. Ónýttur námsfrádráttur nýtist í allt að fimm ár eftir að námsmaður lýkur námi. Auk þess verði vextir og verðbætur námslána frádráttarbær. Í þessum till. fólst sú meginstefna, að tekjuskattar verði afnumdir í áföngum á almennum og miðlungslaunatekjum, að tekjuskattur verði verulega lækkaður á láglaunafólki og aukið svigrúm þess til að nýta persónuafslátt til greiðslu opinberra gjalda, að heildarskattprósenta beinna skatta: tekjuskatts, útsvars, sjúkratryggingagjalda o. s. frv., fari ekki fram úr 50%, eins og verið hefur stefnumið Sjálfstfl.

Þessar brtt. höfðu í för með sér heildarlækkun skatta um 13–14 milljarða kr. samkv. nýjustu upplýsingum um tekjubreytingu milli ára. Þessar till. voru vitanlega líka felldar. En þess verður freistað að fá þær samþykktar hér í hv. Nd. og munu samhljóða till. verða fluttar af fulltrúum flokksins í fjh.- og viðskn. þessarar deildar.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa þessi orð mín miklu fleiri við þessa 1. umr. Ég lýsi algerri andstöðu Sjálfstfl. við þær geigvænlegu skattahækkanir sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur þegar ákveðið og fengið að verulegu leyti samþykktar. Þær eru í fullkominni andstöðu við stefnu Sjálfstfl., eins og ég hef rakið. Þessar aðgerðir hæstv. ríkisstj. munu hafa í för með sér enn nýja verðbólguskriðu, rýrnandi kaupmátt launa og þar með versnandi lífskjör. Sjálfstfl. mun berjast gegn athöfnum sem þessum af öllu afli.