29.04.1980
Neðri deild: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2176 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan og var að reyna að bera þá mjög svo óvenjulegu blaðamennsku af málgagni sinu, Þjóðviljanum, er ástæða til að vekja á því athygli, að fyrirsögn á forsíðu Þjóðviljans 23. apríl s. l. er með þeim hætti að enginn getur skilið hana öðruvísi en að hér sé um að ræða 5500 millj. kr. skattalækkun hjá barnafólki og lágtekjufólki. Forsíðufyrirsögnin: Tillaga Ragnars Arnalds. Skattalækkun 5500 millj. kr. hjá barnafólki og lágtekjufólki. (Fjmrh.: Er það ekki rétt?) Nei, það er rangt. Er þetta rétt blaðamennska sem hér er um að ræða? Þetta var hæstv. fjmrh. að reyna að bera af blaðinu áðan, og í ljósi þess hlýtur hann að hafa ályktað sem svo, að hér væri ekki rétt frá skýrt eins og Þjóðviljinn hefur sett þetta upp. Það verður ekki skilið öðruvísi.

Hér er nú að ljúka líklega fimm vikna þrauta- og sálarstríði hæstv. fjmrh. fyrir því frv. sem hér er nú að koma til Nd. Alþingis. Þessu stríði er þó ekki að ljúka nema í bili, og óneitanlega kemur manni í hug í þessu pólitíska sálarstríði ráðh. hið gullfallega upphaf sálmsins þar sem segir: „Þegar ég leystur verð þrautunum frá.“ Þetta á þó ekki við nema að hluta til, því að hér er ekki um það að ræða að hæstv. fjmrh. verði leystur frá þessu þrautastríði fyrir fullt og allt í þessari lotu. Hið endanlega stríð á hæstv. fjmrh. verður fyrst og fremst þegar skattseðlarnir koma á sínum tíma á þessu komandi sumri. Þá og þá fyrst fara að bitna á honum þær gerðir sem hann og hæstv. ríkisstj. nú beita sér fyrir í skattpíningu á almenning í landinu og þá ekki síst á láglaunafólkið í landinu.

Það væri auðvitað margt hægt að segja hér um þá málsmeðferð sem viðhöfð hefur verið í þessu máli. Hún er, að ég hygg, með eindæmum eins og málið hefur rekist í þinginu, þ. e. í Ed. Það var lögð á það gífurlega mikil áhersla af hæstv. fjmrh. og ríkisstj. að þessu máli yrði lokið strax eftir páskahlé. Stjórnarliðar ætluðu þá að vera tilbúnir með brtt. sínar áður en þinghlé yrði gert fyrir páska. Öll saga þessa máls er með eindæmum, að ég held. Það er engu líkara en hæstv. fjmrh. hafi ekki haft hugmynd um hvað hér væri á ferðinni að því er varðaði útkomu hjá hinum einstöku hópum skattgreiðenda, eftir þeim till. sem fram höfðu verið bornar. Ég skal ekki eyða tíma hér í að rekja það frekar. Það hefur verið gert um það samkomulag, að hægt yrði að ljúka þessu máli hér úr Nd. fyrir annað kvöld, að mér skilst, svo smekklegt sem mér finnst það nú vera af hálfu hæstv. fjmrh. og ríkisstj. að ætla að færa verkalýðshreyfingunni og launþegum í landinu þetta sem afmælisgjöf á baráttu- og hátíðisdegi verkamanna, sem er 1. maí, n. k. fimmtudag. Það er að mínu viti einkar ósmekklegt af hæstv. ríkisstj., ekki síst af hæstv. fjmrh. sem fulltrúa þess flokks sem hingað til hefur talið sig vera málsvara þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, að ætla að færa verkalýðshreyfingunni þessa gjöf 1. maí.

Ekki síst er þetta ósmekklegt þegar það er haft í huga, að launþegasamtökin í landinu, öll saman, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusamband Íslands og nú síðast Verkamannasamband Íslands, hafa harðlega mótmælt þessu frv. og þeirri skattaáþján sem núv. hæstv. fjmrh. hefur beitt sér fyrir og ríkisstj. sem heild. Þessir aðilar hafa bent á það í sínum mótmælum, að þessi skattaáþján hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar að því er varðar það ástand sem nú er á vinnumarkaðinum, þ. e. þegar allir samningar eru lausir. Og því er meira að segja haldið fram af þessum aðilum, að þessi skattpíningarstefna ríkisstj. geti orðið til þess að koma í veg fyrir að nokkur skynsamleg lausn finnist á samningamálum eins og staðan er í dag. Þessi stefna hæstv. fjmrh. miðar því að því einu og fyrst og fremst, að það verði stórátök á vinnumarkaðinum og þau séu ekki langt undan ef fram heldur sem horfir.

Hæstv. fjmrh., sem nú gengur undir nafninu skattkóngur gáfumannadeildar Alþb., viðhafði þau ummæli í útvarpsumr. í gærkvöld frá Ed., að þessar viðvaranir og þessi mótmæli launþegasamtakanna í landinu væru marklaust hjal og orðagjálfur manna sem ekkert vissu hvað þeir væru að tala um. Þetta var sú kveðja, sem hæstv. fjmrh., skattkóngur gáfumannadeildarinnar, lét sér um munn fara í útvarpsumr. í gærkvöld. En hverjir eru þessir menn sem hæstv. fjmrh. er að tala um? Jú, fyrst skal telja formann Verkamannasambands Íslands, Guðmund J. Guðmundsson, flokksbróður skattakóngsins, en líklega ekki í gáfumannadeildinni; forseta Alþýðusambands Íslands og framkvæmdastjóra þess, Snorra Jónsson og Ásmund Stefánsson, flokksbræður Ragnars Arnalds, en líklega hvorugur í gáfumannadeildinni; varaformann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, flokksbróður ráðh., en heldur ekki að ég hygg í gáfumannadeild Alþb.; fyrrv. forseta Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Ingólf Ingólfsson, að ég held ekki heldur í þessari margumtöluðu deild Alþb. Þessir einstaklingar ásamt fjöldamörgum öðrum eiga það sameiginlegt, að þeir eru umboðsmenn launafólks í landinu, þveröfugt við það sem hægt er að segja um hæstv. fjmrh. Þessir menn eiga það sameiginlegt, að þeir eiga og eru að gæta hagsmuna launafólksins sem þeir eru skyldir að vinna fyrir. En svarið, sem þessir einstaklingar fá og launþegahreyfingin í heild frá hæstv. fjmrh., er að hér sé um að ræða marklaust hjal og orðagjálfur manna sem ekki vita hvað þeir séu um að tala. Hæstv. fjmrh. sagði líka í umr. í gærkvöld að skattalækkun nú væri gervilausn, enda þótt búið sé að sýna fram á að eina leiðin til að leysa þær kjaradeilur, sem nú standa yfir og eru fram undan, sé sú að beita sköttunum til þess að leiðrétta og lagfæra launakjör fyrst og fremst — og kannske einvörðungu — þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu.

Hæstv. fjmrh. sagði líka í gærkvöld, að myndun núv. hæstv. ríkisstj. væri örlagaríkur sigur, varnarsigur verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Ég hygg að það megi leita langt aftur í tímann til þess að finna sambærilegt við það, hversu stuttur tími hefur liðið frá því að hæstv. ríkisstj. tók við völdum og þangað til hún er búin að fá öll launþegasamtök í landinu upp á móti sér vegna þeirrar stefnu sem hún beitir í efnahags- og launamálum og í skattpíningarmálum. Það eru ekki nema 21/2 mánuður síðan hæstv. ríkisstj. tók við völdum, en á þessum tiltölulega stutta tíma hefur hún fengið öll launþegasamtök í landinu upp á móti sér.

Það var vikið að því áðan, að þetta fóstur hæstv. fjmrh. sé nú loks hingað komið eftir óvenjustrangan meðgöngutíma og harðar fæðingarhríðir þess í Ed. þingsins. Þetta frv, er eitt af mörgum skattahækkunarfrv. ríkisstj. sem hér hafa verið til meðferðar í þinginu á undanförnum vikum.

Það er augljóst mál, að sú skattastefna sem virðist vera í æðimiklu uppáhaldi hjá hæstv. ríkisstj., hefur þær afleiðingar sem enginn getur séð fyrir nú varðandi það hvað kann að gerast innan þjóðfélagsins ef fram heldur sem horfir. Og það verður að teljast furðulegt, að sá aðilinn, sem virðist ráða ferðinni í þessu skattaæði hæstv. ríkisstj., er einn af forustumönnum Alþb., þess flokks sem hingað til a. m. k. hefur þóst vera málsvari launafólks í landinu. Það er líka furðulegt við þessa skattpíningarstefnu ríkisstj., að hún kemur í kjölfar margra yfirlýsinga hæstv. ráðh., fyrst eftir að hæstv. ríkisstj. tók við völdum, um að ekki kæmi til mála að hækka skatta né auka skattbyrði. Hæstv. fjmrh., skattkóngurinn sjálfur, hefur marglýst því yfir í viðtölum við fjölmiðla, að ekki verði um skattahækkun að ræða af hálfu þessarar ríkisstj. Hæstv. sjútvrh. og forsrh. hafa báðir lýst þessu sama yfir. Hér er enn eitt dæmið um það, hversu marklausar yfirlýsingar hæstv. ráðh. eru. Og raunar á það við um allt of marga stjórnmálamenn, að lítið sem ekkert mark er á þeim takandi í yfirlýsingum. Hér hygg ég þó að gengið hafi verið hvað lengst í því að lýsa yfir allt öðru en því sem menn ætla sér að gera og eru að gera. Hygg ég að þessi hæstv. ríkisstj. eigi met í því, a. m. k. miðað við þann tiltölulega stutta tíma sem hún hefur setið. Og það skýrir hug hæstv. núv. fjmrh., fulltrúa þess flokks sem berst fyrir launafólkið í landinu og ekki síst láglaunafólkið og virðist í orði kveðnu hafa viljað gæta hags þess, að upphaflegar till. hæstv. fjmrh. varðandi skattstigana gerðu ráð fyrir sérstakri skattpíningu á fátækar ekkjur og einstæða foreldra, þá þjóðfélagsþegna sem verst hafa orðið úti samkv. fyrri skattalögum. Sem betur fer tókst að hafa áhrif á þetta til hins betra í Ed. Alþingis vegna forgöngu fulltrúa Alþfl. í fjh.- og viðskn. þeirrar deildar. Það hefur tekist, þó kannske ekki í miklu sé, að rétta þó nokkuð hlut þess fólks sem Alþb.-ráðh. Ragnar Arnalds ætlaði að svína hvað mest á með sínum fyrstu till. Þetta hefur tekist vegna þeirrar hörku, vil ég segja, sem sýnd var af hálfu Alþfl. í Ed. og var látið undan af hæstv. ráðh.

Það er ekki eðlilegt, að ráðh. í ríkisstj. mælist undan því að verja gerðir sínar fyrir alþjóð í útvarpsumr. Þetta gerðist þó núna. Hæstv. ráðh., hæstv. ríkisstj. fór undan í flæmingi í því að verja þessar gerðir sínar fyrir alþjóð. Þetta fékkst þó fram og það er vel. Ég hygg að útvarpsumr. og öll meðferð málsins eins og hún hefur verið sýni almenningi í landinu fram á það, að hér er í landinu ríkisstj. sem ekki er til þess treystandi að leysa þau vandamál sem nú eru uppi og er við að glíma í landinu, og ef hún sér ekki að sér og breytir til, þá er sannarlega vá fyrir dyrum að því er varðar úrlausn hinna mikilsverðu og margþættu fjöldamörgu mála sem nú bíða úrlausnar.

En þrátt fyrir það að Alþfl. tókst að fá lagfæringu á upphaflegum till. hæstv. fjmrh., þá stendur enn eigi að síður að þetta frv. eykur skattheimtu á launafólkið í landinu um a. m. k. 2.5 milljarða kr. miðað við það sem áður var, og það sem meira er, þetta frv., eins og það nú er, eykur verulega skatta á öllum hjónum í landinu. En það er eitt athyglisvert við þetta frv. skattakóngs Alþb. gáfumannadeildarinnar. Það er það, að skattar á fyrirtæki eiga að lækka. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar, ef Alþb.-ráðh. — eftir allar þær yfirlýsingar og stóryrtu ummæli sem fulltrúar þess flokks hafa viðhaft um skatta á fyrirtæki — yrði fyrsti ráðh. um langt árabil sem legði til að skattar á fyrirtæki í landinu ættu að lækka á sama tíma og skattar á allan almenning og þó sér í lagi á launafólk og láglaunafólk eiga að hækka stórlega.

Ég óttast að sú breyting, sem gerð hefur verið á skattalögum — og þá á ég fyrst og fremst við þá breytingu sem gerð var 1978 um að fella niður 50% frádrátt af tekjum útivinnandi eiginkvenna, — sú breyting og sú skattahækkun, sem nú er verið að pína hér í gegnum þingið, eigi eftir að hafa í för með sér mikið vandamál innan þjóðfélagsins. Það þýðir það í raun og veru, að stórlega fækki þeim útivinnandi húsmæðrum sem verið hafa í fiskiðnaðinum t. d., sem í reynd þýddi þá stórkostlega aukið innflutt vinnuafl frá öðrum löndum, og ekki yrði það til hagsbóta þjóðfélaginu í heild. Ég óttast að þessi breyting verði til þessa.

Eins og ég sagði hér áðan, þá er ekki mín ætlan að vera langorður við 1. umr. þessa máls. Málið hefur verið ítarlega rætt í Ed. þingsins og í útvarpsumr., og Alþfl. ætlar ekki að tefja fyrir því að þetta mál nái fram að ganga á þeim tíma sem hæstv. fjmrh. kýs helst, þ. e. því verði lokið kannske helst um sólarhringsskiptin síðasta apríl og 1. maí, þannig að það verði eftirminnileg gjöf frá hæstv. fjmrh., fulltrúa Alþb., til launþeganna í landinu, þessi skattahækkun sem hann er nú að keyra í gegnum þingið. Ég vildi þó sem stjórnarandstæðingur að hæstv. ríkisstj. geymdi þetta mál fram yfir 1. maí og ögraði ekki launþegahreyfingunni í landinu með því að veifa þessu plaggi framan í hana á baráttu- og hátíðisdegi verkamanna. En það fer að sjálfsögðu fram eins og hæstv. fjmrh. vill, að þetta verði hér að lögum kannske annað kvöld, kannske aðra nótt, komið fram á 1. maí.

Það er þó ástæða til að vekja á því athygli hér, að Alþfl. hefur um langt árabil haldið fram þeirri stefnu, að tekjuskatt af almennum launatekjum eigi að afnema og að það eigi að gerast í áföngum. Um þetta hafa verið fluttar ítrekaðar till. og bent á með hvaða hætti slíkt skyldi framkvæmt. En á þetta hefur ekki verið hlustað. Það er eigi að síður staðreynd, að tekjuskatturinn í núverandi formi, eins og hann hefur verið og verður samkv. þessu, er launamannaskattur fyrst og fremst og raunar einvörðungu.

Það er ljóst, að samkv. því sem frv. nú lítur út eftir samþykktina í Ed. muni heildarskattaálögur til ríkis og sveitarfélaga á t. d. hjón með þrjú börn eða fleiri hækka um 560 millj. kr. eða um 5% í samanburði við áður gildandi lög. Tekjuskattsálögur á hjón með minni tekjur en 6 millj. kr. munu hækka um 442 millj. kr. frá þeim till. sem voru samþykktar við 2. umr. í Ed. Og svona mætti lengi telja. Hér er því um að ræða stórlega aukna skattheimtu í gegnum það skattstigafrv. sem hér er til umr., ofan á allt það sem hæstv. ríkisstj. hefur afrekað í skattheimtu á undanförnum vikum og mánuðum. Og það er augljóst og það hefur verið margítrekað, að Alþfl. telur að þessi stefna skattahækkunar sé röng og skaðleg. Hún er augljóslega skaðleg við þær kringumstæður sem nú eru í þjóðfélaginu, og hún er beinlínis ögrun við launafólk og launþegasamtökin í landinu á þessum viðkvæmu tímamótum í samningsgerð á vinnumarkaðinum. Og komi til harðra átaka á vinnumarkaðinum, þá er það ríkisstj. fyrst og fremst sem ber ábyrgð á því sem þar kann að gerast. Það hefur verið margítrekað af verkalýðshreyfingunni í landinu, að skattalækkun sé í raun og veru kannske eina færa leiðin miðað við kringumstæður í dag til þess að rétta hlut láglaunafólksins og til þess að leysa þær kjaradeilur sem nú standa yfir. Hæstv. ríkisstj. hefur hafnað þessari leið, ætlar sér að halda áfram í skattpíningunni og ætlar að reka þetta sem hnefahögg í andlit verkalýðshreyfingarinnar og launafólks á þessum tímamótum sem fram undan eru og á baráttu- og hátíðisdegi launafólksins í landinu. Sú ákvörðun hæstv. ríkisstj. verður eftirminnileg.

Það er augljóst mál og það hefur verið á það bent margoft af Alþfl., að í stað þess að auka skattheimtu svo gífurlega sem hér er gert ráð fyrir eigi að draga úr skattheimtu, þannig sé hægt að vernda rauntekjur láglaunafólksins fyrst og fremst. En ég hygg að almennt samkomulag sé um það, að fyrst og fremst eigi að rétta hlut þess í komandi samningum. Sú samþykkt sambandsstjórnar Verkamannasambands Íslands, sem gerð var grein fyrir fyrir nokkrum dögum, fer nákvæmlega saman við þá stefnu sem Alþfl. lagði til að höfð yrði í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem uppi voru fyrr í vetur. Það er sú stefna, að í þessum samningum eigi fyrst og fremst og raunar einvörðungu að snúa sér að því að rétta hlut láglaunafólksins, þess fólks sem verst hefur orðið úti í því verðbólguþjóðfélagi sem við höfum lifað í undanfarin ár og áratugi. Þessari leið er hæstv. ríkisstj. nú að hafna í andstöðu við — fyrrv. er kannske rétt að orða það — í andstöðu við fyrrv. stuðningsfólk sitt í verkalýðshreyfingunni. Það eru ekki nema harðlínukommar og eiginhagsmunahópar sem eru jákvæðir í afstöðunni til þess sem hæstv. ríkisstj. er nú að gera. Allir þeir innan verkalýðshreyfingarinnar, sem bera hag launþega fyrst og fremst fyrir brjósti, eru andvígir þessum áformum og berjast gegn því að þau nái fram að ganga. Og það er tímanna tákn, að formaður Verkamannasambands Íslands, Guðmundur J. Guðmundsson, skuli í raun og veru sjá sig knúinn til þess að rísa gegn hæstv. ríkisstj. í þessu skattpíningaræði sem hún stundar þessa dagana og undanfarnar vikur. (Gripið fram í: Þó nú væri.) Já, þó nú væri, sagði einhver. En þeir mættu vera fleiri. En einn hugsjónamaður virðist þó vera úr hópi Alþb.-liðsins í forustu verkalýðshreyfingarinnar sem enn er vitað um og ætlar að láta hagsmuni launafólksins sitja í fyrirrúmi fyrir eiginhagsmunum flokksins sjálfs eins og þau birtast hér. Vonandi verða þeir fleiri, en þeir eiga þá eftir að koma fram í dagsljósið.

Við meðferð þessa máls í Ed. lagði fulltrúi Alþfl. í fjh.- og viðskn. þeirrar d. fram brtt. við frv. eins og það þá var. Þær náðu ekki fram að ganga. Hæstv. ríkisstj. virðist vera staðráðin í því að reiða svo hátt til höggs við almenning í landinu, að engu verði í raun og veru borgið til hins betra. Þess mun að sjálfsögðu freistað að fá breytingar við meðferð málsins hér í Nd. Af þeim kynnum, sem við höfum af hæstv. ríkisstj., er lítil von til þess, að hún sjái að sér á þessu stigi máls. Það eina, sem kemur hæstv. ríkisstj. kannske til að sjá að sér, er það þegar hún sér alvöruna í reynd og stendur frammi fyrir því, að verkalýðshreyfingin ætlar sér ekkí að láta knésetja sig með þeim hætti sem skattakóngurinn í gáfumannadeild Alþb. ætlar sér að gera við hreyfinguna sem heild. Þá og þá fyrst verður það kannske sem hæstv. ríkisstj. sér að sér. En þá getur það orðið um seinan.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð að sinni. Ég tel þó rétt að víkja örfáum orðum að þeim furðulega áróðri, sem hæstv. ráðh. og stjórnarliðar hafa nú beitt ósvikið gegn Alþfl. hér undanfarið og síðast í útvarpsumr. í gær, að kenna Alþfl. um það, hversu núv. hæstv. ríkisstj. hefur verið gírug í skattpíningu sinni, og ásaka Alþfl, fyrir að hafa safnað upp vanda sem hafi verið geymdur og sé nú verið að leysa, — hafi verið geymdur í tíð minnihlutastjórnar Alþfl. frá því í okt. og þangað til í febr.

Nú er það svo, að auðvitað grípa menn í dauðateygjunum svo að segja til hvers þess hálmstrás sem þeir ná í. En þessi áróður er að mínu viti þannig að það er víðs fjarri að hægt sé að líkja honum við neitt, hann er í raun og veru, eins og hæstv. viðskrh. orðaði það, að ég held, í útvarpinu í gærkvöld, svo sannarlega að slá fyrir neðan beltisstað. Sannleikurinn í þessu máli er sá, að það var enginn uppsafnaður vandi eftir minnihlutastjórn Alþfl. sem varð til þess eða er til þess að hæstv. ríkisstj. beitir þessari skattpíningarstefnu. Öll mál, sem upp komu í tíð þeirrar ríkisstj. varðandi hækkanir á vöru og þjónustu og hækkunarbeiðnir, voru afgreidd, en þau voru ekki afgreidd með því færibandafyrirkomulagi sem núv, hæstv. ríkisstj. virðist hafa á hlutunum. Það fengu ekki allir allt og það er mergurinn málsins. Viðkomandi aðilum var í raun og veru fyrirskipað að gæta aðhalds og draga úr. Það skyldi nú ekki vera, að það þyrfti að vera upphafið á þessari niðurtalningarstefnu, sem Framsfl. er alltaf að tala um? Ég veit ekki hvernig menn ætla að fara að því að telja niður verðbólguna, ef allir eiga alltaf að fá allt. Það er kúnst sem enginn kann, að ég hygg, nema þá Framsfl. og fulltrúar hans.

Nei, það, sem gerðist á þessu tímabili, var að synjað var um hækkanir sem beðið var um. Það er athyglisvert t. d. að bera saman viss tímabil. Hér er um að ræða upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun sem ég hygg að menn vefengi ekki sem hlutlausan aðila til að gefa umsögn um þessi mál. Ef tekið er tímabilið októberbyrjun 1979 til febrúarloka 1980, þá er hækkun framfærsluvísitölu 16–17% á þessu tímabili, þessu 5 mánaða tímabili, sem jafngilti miðað við 12 mánuði 45% verðbólgu. Ef við tökum tímabilið maíbyrjun til septemberloka 1979, þ. e. 5 mánuðina áður en ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar fór frá, þá var 27% verðbólga á þessu tímabili, sem jafngilti 80% verðbólgu miðað við 12 mánaða tímabil, — 80% verðbólga miðað við stjórnartímabil ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar síðustu 5 mánuðina sem hún var við, en á móti 45% verðbólga í 12 mánuði miðað við það tímabil sem Alþfl.-stjórnin sat. Ég held að þessar tölur sýni, svo að ekki verði um villst, að það hálmstrá, sem hæstv. ríkisstj. nú grípur í, verður ekki til að bjarga henni á flóttanum.

Það er augljóst mál, að það, sem nú er að gerast, er vegna stjórnleysis hæstv. ríkisstj. sjálfrar. Hún hefur ekki þá stjórn á hlutum sem þarf til þess að hægt sé að reka þjóðfélagið með eðlilegum hætti. Enn þá síður hefur hún þau tök til stjórnunar sem þarf til þess að niðurtalningaraðferðin nái fram að ganga.

Það er líka athyglisvert, sem fram kemur í þessum upplýsingum Þjóðhagsstofnunar varðandi gengismálin. Frá okt. 1979 til febr. 1980, þ. e. það tímabil sem Alþfl. stjórnin sat, varð 5.7% gengisfelling, sem jafngilti 15% gengisfellingu miðað við 12 mánaða tímabil. Á 5 mánaða síðasta tímabili ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar féll gengið um 14.7%, sem svarar til 33% gengisfellingar miðað við 12 mánuði, eða meira en helmingi meiri gengisfelling en í tíð ríkisstj. Alþfl.

Og að síðustu eru upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun varðandi fjármál ríkisins. Ef tekið er tímabilið frá okt. 1979 til febr. 1980, þá var greiðsluafgangur hjá ríkissjóði upp á 7.9 milljarða rúma. Ef við tökum sama tímabil, okt. 1978 til febr. 1979, þ. e. í tíð ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, var það neikvætt hjá ríkissjóði og hann skuldaði 7.1 milljarð, en hafði afgang um 7.9 milljarða hitt tímabilið.

Ég hygg að ekki þurfi fleiri orð til að sýna fram á það, að allar ásakanir núv. hæstv. ríkisstj. í garð minnihlutastjórnar Alþfl. um það, að hún hafi geymt vanda til úrlausnar núv. hæstv. ríkisstj., eru firrur einar. Það, sem hæstv. ríkisstj. þarf fyrst og fremst að huga að og læra, er að stjórna. Þá og þá fyrst er þess að vænta að árangur náist. En það er augljóst mál, að það nær engin ríkisstj. árangri miðað við þau vandamál, sem nú eru í þjóðfélaginu, ef hún ætlar að gera allt fyrir alla.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa um þetta fleiri orð við þessa umr., en vísa til þess, að að sjálfsögðu mun Alþfl. freista þess að fá breytingu til hins betra fyrir fyrst og fremst láglaunafólkið í landinu varðandi meðferð skattstigamálsins hér í deildinni.