29.04.1980
Neðri deild: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því í upphafi máls míns að taka undir þau sjónarmið sem komið hafa fram bæði hjá hv. síðasta ræðumanni og eins hjá hv. 3. þm. Reykn., sem lýstu í ræðum sínum viðhorfum Sjálfstfl. til þess máls sem nú er um fjallað í hv. d. Ég mun ekki fjalla um málið á sömu nótum og þeir. Ég mun ekki ræða um skattstigana, sem mest hefur verið deilt um í þessari umr. og þremur umr. í hv. Ed., heldur snúa mér að öðrum þáttum þessa sama máls.

Í fyrsta lagi langar mig til þess að benda á að í 3. gr. fjárlaga eru sundurliðaðar tekjur ríkissjóðs. Þar er getið um beina skatta og einn liðurinn, ein línan í fjárl. segir að tekjuskattar einstaklinga séu áætlaðir rúmir 38 milljarðar, nánar tiltekið 38.2 milljarðar. Sé þessi tala skoðuð út af fyrir sig, þá segir hún þeim sem les þetta, að ríkið hljóti að ætla að ná inn þessum 38.2 milljörðum og það eigi að jafna þeim á tekjuskattsgreiðendur úr hópi einstaklinga í landinu. En sé betur að gáð, þá er málið ekki svona einfalt. Þannig er, að til þess að hægt sé að ná þessum 38 milljörðum eru lagðir á 64 milljarðar tæpir. Til frádráttar eru síðan barnabætur, tæpir 15 milljarðar — en það gerðist með kerfisbreytingu, líklega árið 1974, að þessi tvö kerfi voru sameinuð og er það í sjálfu sér til bóta, en þyrfti að sjálfsögðu að koma fram í fjárlögum. Þá er jafnframt til frádráttar afsláttur upp í útsvör, sem er 5.2 milljarðar, en það er upphæð sem þeir, sem á annað borð greiða tekjuskatta, verða að greiða með hinum, sem enga tekjuskatta greiða, upp í útsvör, þannig að bæjarfélögin og sveitarfélögin í landinu fái sitt. Það er athyglisvert, að sú tala, sem nú er 5.2 milljarðar, var áætluð á ríkisreikningi 1979 1200 millj., þannig að þessi tala hefur margfaldast. Þarna er um það að ræða, að 4 milljörðum kr. er skipt á þá gjaldendur, sem á annað borð greiða skatta, án þess að um það sjáist nokkuð í fjárl. Væri hér um að ræða einkafyrirtæki væri án efa talið að hér væri framkvæmt bókhaldssvindl.

Ég vek athygli hv. þm. á þessari staðreynd og þó sérstaklega hæstv. fjmrh., sem ég sé nú að er ekki sýnilegur hér í sölunum og virðist þess vegna ekki hafa mikinn áhuga á þessum málum. En vonandi gefst honum tækifæri til þess að lesa þetta í þingtíðindum ef hann lætur svo lítið að lesa svona smátt letur, því að eins og hann sagði sjálfur í sinni ræðu, þá gerði hann ekki ráð fyrir að margir lesendur Þjóðviljans sæju nema það sem sett er upp með 72 punkta stríðsletri í Þjóðviljanum, eins og hann reyndi þegar hann sagði lesendum Þjóðviljans hvernig skattar hefðu lækkað, þegar í raun og veru var aðeins um millifærslu að ræða.

Í öðru lagi — og það eru atriði sem snerta það mál sem hér er til umr. kannske fremur en það tæknilega atriði sem ég hef nú fjallað um — vil ég aðeins gera nokkra grein fyrir þeim till. sem lagðar voru fram af hálfu Sjálfstfl. í hv. Ed., og þó einkum þeim sem snúa að námsmönnum. Áður en ég held áfram ræðu minni vil ég æskja þess, að hæstv. ráðh. verði sóttir inn í þingsalinn, því að ég mun beina orðum mínum sérstaklega til hans hvað þetta varðar. (Forseti: Hæstv. ráðh. mun koma á hverri stundu. Hann bar undir mig að fá að víkja sér frá í 15–20 mínútur og það var honum veitt, því að honum bráðlá á, en hann mun birtast hér innan mjög skamms tíma.) Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því, að ég talaði við hæstv. ráðh. og sagði honum frá að ég mundi flytja hér ræðu sem ég ætlaðist til að hann svaraði, og hann tók mjög vel í það. Ég sé mér ekki fært að halda áfram ræðu minni ef hann er ekki við, en get að sjálfsögðu frestað henni, ef einhver annar vill fylla upp í þann tíma sem hér myndast. (Forseti: Ég skal gjarnan gefa hv. þm. orðið um leið og ráðh. birtist, en áskil mér þá rétt til þess að gefa öðrum orðið á meðan.) — [Frh.]