29.04.1980
Neðri deild: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2189 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er alveg ljóst að þessa dagana líður stjórnarliðum illa. Þó held ég að vinum mínum í Alþb. hljóti að líða hvað verst. Um líðan hæstv. forsrh. veit ég ekki, en hún hlýtur að vera slæm. Hann var í því oddaliði sem gekk harðast fram fyrir síðustu kosningar og prédikaði skattalækkanir, en hefur nú gerst einn helsti oddviti þeirra manna sem hafa staðið að því skattafári sem ríkisstj. hefur dengt yfir þjóðina að undanförnu.

Við höfum orðið vitni að því hér undanfarnar vikur hvernig skattar hafa verið hækkaðir á öllum sviðum. Nú erum við aðeins að tala um einn þáttinn, tekjuskattsþáttinn. Það er búið að hækka útsvörin um rösklega 10%, söluskattinn um 1.5 stig. Þessir skattar ganga yfir alla landsmenn, hvort sem um er að ræða hálauna- eða láglaunafólk. Og auðvitað koma þeir langverst niður á láglaunafólki.

Þegar sá skattstigi var lagður hér fyrir, sem nú er um fjallað, varð þegar ljóst að hann mundi koma harðast niður á lágtekjufólkinu, einkum og sér í lagi einhleypu fólki með börn. Þessu hefur nú örlítið verið breytt, en það er nákvæmlega sama hvernig reiknað er aftur á bak eða áfram, þessi skattstigi veldur mjög umtalsverðri tekjuskattshækkun. Og stjórnarliðar hafa staðið hér upp, eins og hv. síðasti ræðumaður, og borið sig upp undan því að þurfa að samþykkja allar þessar skattahækkanir.

Hv. síðasti ræðumaður talaði um það, að menn reiknuðu misjafnlega eftir því, hvort þeir væru í stjórn eða stjórnarandstöðu, og fengju út misjafnar tölur. En sú breyting á skattstiganum, sem nú liggur fyrir og ætlunin er að keyra í gegnum þingið, felur tvímælalaust í sér hækkun á tekjusköttum og það þarf mikla reiknimeistara til að halda öðru fram, og í þeirra hópi er hæstv. fjmrh. sem hélt því m. a. fram í útvarpsumr. í gær, að það væri raunverulega ekki verið að hækka skatta á þjóðinni. (Fjmrh.: Það er rétt.) Vegna þess að hæstv, fjmrh. svaraði og sagði: Það er rétt — þá er ástæða til þess að láta það koma fram, að heildarskattbyrði ríkis og sveitarfélaga hækkar um 8 milljarða kr. Og ef fjmrh. ætlar að kalla þessa hækkun lækkun eða ekki hækkun, þá veit ég ekki með hvaða tölvum hann reiknar. Ég held að að frátalinni þeirri lagfæringu sem fjmrh. gerði á frv. eftir að Alþfl. var búinn að benda honum á augljósar villur og vitleysur þá einkennist hin nýja till. ríkisstj. eða fjmrh. af enn frekari skattahækkunum. Heildarálögur ríkis og sveitarfélaga á hjón með þrjú börn og fleiri hækka um 560 millj. kr. eða um 5% í samanburði við áður gildandi lög og 11.6% útsvar. Tekjuskattsálögur á hjón með minni tekjur en 6 millj. kr. hækka nú um 442 millj. kr. frá þeim till. sem samþykktar voru við 2. umr. í Ed. Hjá hjónum með tvö börn, sem vinna fyrir 2.5 millj. hvort, hækkar tekjuskattur um 74 þús. kr. frá þeim lögum sem áður voru í gildi. Þetta eru tölulegar staðreyndir sem ekki verða hraktar. (Gripið fram í: En verður þetta eitthvað áfram?) Það hefur komið skýrt fram, að Alþfl. telur þessa skattahækkun bæði ranga og skaðlega. Ég held að það sé ástæðulaust að fara að endurtaka mikið af þeim umr. sem hér hafa átt sér stað, en engu að síður er þetta býsna köld kveðja til verkalýðshreyfingarinnar sem mótmælt hefur skattaálögum núv. ríkisstj. mjög harðlega. Þetta er köld kveðja tveimur sólarhringum fyrir 1. maí. Og ef svo skyldi nú fara, að þetta yrði að lögum aðfaranótt 1. maí, þá held ég að þessi ríkisstj. hafi bætt einni silkihúfunni ofan á hinar sem hún hefur verið að setja á höfuð sér að undanförnu.

Ég veit að þegar menn hafa rætt þessi tekjuskattsmál hér á þingi nú að undanförnu hefur þeim orðið stöðugt ljósara að það verður að fara að gera breytingar og það verður að fara að stokka upp skattakerfið í heild. Þessir eilífu beinu skattar, þessar eilífu skattahækkanir, sem stöðugt og ævinlega bitna harðast á láglaunafólkinu í landinu, ná engri átt. Tekjuskatturinn var upphaflega ætlaður sem tekjujöfnunaraðferð, en hefur fyrir löngu misst gildi sitt sem slíkur. Beinir skattar af þessu tagi eru úr sögunni sem tekjujöfnunaraðferð.

Það hefur komið æ skýrar í ljós á undanförnum árum, að skattkerfi það, sem Íslendingar búa við, er svo ranglátt að ekki verður unað við það miklu lengur. Á grundvelli núgildandi skattalaga þrífst tvímælalaust mesta þjóðfélagsmisrétti sem nú er um að ræða á Íslandi. Þetta hefur verið sagt hér á hv. Alþ. ár eftir ár, en umbæturnar eru engar. Þær breytingar hafa einar orðið að skattar eru hækkaðir, þeir eru stöðugt hækkaðir. Og ég held að það verði á engan logið þótt sagt sé að núv. ríkisstj. sé einhver sú harðasta skattastjórn sem hér hefur verið við völd. Þetta kerfi, sem við búum við, og misréttið, sem því fylgir, er í því fólgið að meginþungi byrða hinna beinu skatta hvílir á herðum launamanna, en hins vegar greiða þeir sem einhvern atvinnurekstur stunda, hvort sem um er að ræða félög eða einstaklinga, sáralítinn skatt af tekjum sínum. Og þetta hefur sáralítið breyst á undanförnum árum þrátt fyrir öll stóru orðin og loforðin. Ég held að það sé að verða eitt að brýnustu hagsmunamálum launþega í landinu að þessu skattakerfi, sem við erum nú að ræða einn þáttinn af, verði breytt.

Þess ber að geta, að á undanförnum árum hafa tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti ekki numið nema um 10% af tekjum ríkisins, og það sýnir ljóslega, að þessi skattur er orðinn tiltölulega áhrifalítill og þjónar í sjálfu sér engum tilgangi. Þessa skatta má taka með öðrum aðferðum. Þá er þess að geta, að innheimta þessa tíunda hluta ríkisteknanna er svo kostnaðarsöm að engu tali tekur. Það er augljóst, að álagning beinna skatta almennt er að mörgu leyti mjög ranglát og þá ekki bara tekjuskattanna. Hún er dýr í framkvæmd, álagningarkerfið er orðið óeðlilega flókið og veitir skilyrði til margháttaðra undanbragða undan réttlátri skattgreiðslu, bæði löglegra og ólöglegra. Þar getur launamaðurinn engu stungið undan, það eru aðrir sem það gera í þjóðfélagskerfinu. Launamaðurinn er óvarinn í alla staði fyrir skattaárásum ríkisvalds á hverjum tíma. Þar eru það aðrir, sem geta skotið sér undan því að greiða réttláta skatta.

Þá er rétt að geta þess, að gallar mjög víðtæks og flókins tekjuskattskerfis með mjög háum skattstigum, eins og hér um ræðir, eru ekki einungis orðnir vandamál á Íslandi, heldur einnig í nálægum löndum þar sem um er að ræða víðtæka og vaxandi gagnrýni á slíka skattheimtu. Þegar vitað er að um eða yfir helmingur viðbótartekna venjulegs launþega fer til greiðslu skatta af tekjum getur ekki farið hjá því að það hafi lamandi áhrif á framtakssemi og vinnuvilja, að ekki sé talað um þýðingu þess við hvers konar kjarasamninga. Og þegar ég tala um kjarasamninga, þá er ekki úr vegi að beina huganum að þeirri meginkröfu verkalýðshreyfingarinnar, að kjarabætur að þessu sinni yrðu best fengnar með skattalækkunum. En ríkisstj. fer þveröfuga leið. Hún bara hækkar skattana.

Þegar stighækkandi tekjuskattur var upphaflega lögfestur hér og annars staðar var hann eitt helsta tækið sem fyrir hendi var til þess að jafna tekjur. Síðan hafa fjölmargir aðrir möguleikar komið til skjalanna til að ná tekjujöfnunarmarkmiðinu, fyrst og fremst almannatryggingakerfið, en einnig ókeypis eða ódýr þjónusta af hálfu,hins opinbera á fjölmörgum sviðum, einkum á sviði heilbrigðismála og skólamála, enn fremur margs konar niðurgreiðsla á neysluvörum almennings og nú á síðari árum trygging lágmarkstekna og neikvæður tekjuskattur. Það er óhætt að fullyrða að álagning stighækkandi tekjuskatts hafi minni áhrif til tekjujöfnunar hér á landi en almannatryggingakerfið, ókeypis menntunarskilyrði og niðurgreiðslur. Hins vegar er tekjuskattskerfið, eins og það er nú orðið, lamandi afl í þjóðfélaginu.

Ég er af framansögðu þeirrar skoðunar, að ekkert verkefni geti orðið nokkurri ríkisstj. eins mikils virði og það að taka skattamálin föstum tökum og að skera upp það kerfi sem við búum við í dag. Þetta er ekki eingöngu stórmál fyrir ríkisstj. Þetta er stórmál fyrir þá hreyfingu launþega sem hún segist í orði styðja, en svíkur á borði. Ég er hræddur um að hátíðahöldin l. maí n. k. muni einkennast talsvert af því, að verkalýðshreyfingin fordæmi ríkisstj. fyrir skattaæðið. Og ef hæstv. ráðh. halda að þær skattaálögur, sem nú er verið að dengja yfir þjóðina, muni gleymast á næstu vikum og mánuðum, þá er það mikill misskilningur. Og enn þá hörmulegra er þetta skattaæði þegar þess er gætt, að nú eru fram undan einhverjir viðkvæmustu og erfiðustu kjarasamningar í sögu þjóðarinnar. Þegar hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir, að ekki sé grundvöllur til grunnkaupshækkana, þegar verkalýðshreyfingin hefur lýst því yfir, að skattalækkanir gætu orðið einhver besta kjarabótin sem hún gæti fengið, og þegar ríkisstj. hefur gengið þvert á þær óskir hennar með stöðugt auknum skattahækkunum, þá verð ég að segja það eins og er, að ég vildi ekki skipta um sæti við þá herramenn sem nú fara með stjórn í þessu landi.

Ég vil ekki, herra forseti, ljúka máli mínu án þess að víkja að atriði sem hv. þm. Karvel Pálmason kom örlítið að í ræðu sinni áðan. Það eru þau orð sem hæstv. ráðh. núv. ríkisstj. hafa látið falla um Alþfl., þ. e. starfsstjórn Alþfl. og fimm mánaða stjórnartímabil hennar. Það var á þeim að heyra í útvarpsumr. í gærkvöld, að ákvarðanataka þessarar starfsstjórnar hefði valdið því, að núv. hæstv. ríkisstj. þurfi að auka svo skattaálögur á þjóðina að skattseðlarnir, sem að öllum líkindum berast almenningi í sumar, muni verða eins konar löðrungur framan í megnið af launþegum þessa lands. Það er sem sagt Alþfl. að kenna og minnihlutastjórn hans eða starfsstjórn, hverju nafni sem menn vilja nefna þá stjórn, að nú er komið sem komið er.

Hv. þm. Karvel Pálmason minnti á tölur, sem við höfum hér undir höndum og báðum Þjóðhagsstofnun að reikna út fyrir okkur. Í stuttu máli snúast þessar tölur og þessir útreikningar um ýmsar efnahagsstærðir það fimm mánaða tímabil sem Alþfl. var við völd og til samanburðar efnahagsstærðir á fimm mánaða tímabili, síðustu fimm mánuði stjórnar Ólafs Jóhannessonar. Ég held að það sé bráðnauðsynlegt að þessar tölur komi hér fram til þess að reka ofan í kok á hæstv. ráðh. fullyrðingar um það, að starfsstjórn Alþfl. sé sökudólgurinn í skattaæði núv. ríkisstj.

Í þessum tölum kemur það fram, að frá októberbyrjun 1979 til febrúarloka þessa árs, 1980, þegar starfsstjórnin lét af völdum, hækkaði framfærsluvísitala um 16–17%, sem hefði orðið á ársgrundvelli eða á 12 mánaða tímabili 45% hækkun. Ef við berum þessar tölur saman við þær efnahagsstærðir sem blöstu við síðustu fimm mánuðina á stjórnartímabili Ólafs Jóhannessonar, þá kemur í ljós að frá maíbyrjun til septemberloka, þegar sú stjórn fór frá, hækkaði framfærsluvísitala um 27% á móti 16–17 á fimm mánaða tímabili stjórnar Alþfl., eða um 80% á ársgrundvelli. Og ef þessi ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar hefði starfað áfram, eins og hún stefndi að, þá hefði vísitöluhækkunin orðið 80–90%. Svo undrast menn það, að Alþfl. skyldi standa upp og ganga úr þessari ríkisstj., ganga úr þessari furðulegu flatsæng þar sem menn kúrðu sig hver undir sínum kodda og þorðu ekki að horfast í augu við þann vanda sem við blasi í dagsbirtunni.

En það eru fleiri tölur sem hægt er að nefna úr þessum útreikningum Þjóðhagsstofnunar, og ég held að menn geri það ekki að gamni sínu að rengja slíkar tölur. Það eru tölur um hækkun meðalgengis erlendra mynta á fimm mánaða tímabili starfsstjórnar Alþfl. Frá októberbyrjun 1979 til febrúarloka þessa árs hækkaði meðalgengi erlendra mynta um 5.7% eða um 18% að meðaltali, ef teknir eru 12 mánuðir. Þetta jafngildir 15% gengislækkun. Ef tekið er fimm mánaða tímabil stjórnar Ólafs Jóhannessonar, frá júní til október 1979, þá hækkaði meðalgengi erlendra mynta um 14.7% eða hér um bil þrefalda þá tölu, sem það hækkaði á fimm mánaða stjórnartímabili stjórnar Alþfl. Það gerir hvorki meira né minna á 12 mánaða tímabili en 50% eða 33% gengislækkun íslensku krónunnar. Þetta eru þær tölulegu staðreyndir sem hafa verður í huga þegar núv. stjórnarliðar gagnrýna starfsstjórn Alþfl. og telja að hún eigi sök á því skattaæði sem nú ríður yfir þjóðina.

Það er líka vert að geta þess, að það urðu mjög umtalsverðar breytingar á greiðsluafkomu ríkissjóðs á fimm mánaða tímabili starfsstjórnar Alþfl. Á tímabilinu okt. 1979 til febr. á þessu ári var greiðsluafkoma ríkissjóðs jákvæð um tæpa 8 milljarða kr. eða 7 milljarða 941 millj. Fimm mánuðina áður en ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar fór frá og ríkisstj. Alþfl. tók við snerust þessar tölur gersamlega við, því að þá varð greiðsluafkoman mínus 7 milljarðar 186 millj. kr. Þannig var staðan sú.

Ég held að þessar tölur nægi fullkomlega til þess að hrekja þær fullyrðingar, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur haft í frammi, að allur hennar vandi stafi af ákvarðanatöku eða getuleysi starfsstjórnar Alþfl. Skattaæði núv. ríkisstj. stafar af hennar eigin getuleysi til að fást við þann vanda sem við er að glíma. Það skal enginn neita því og það mun ég aldrei gera, að erfiðleikar hér innanlands eru miklir um þessar mundir. En af hverju skyldu þeir stafa í megindráttum? Það ættu þeir menn að hugleiða sem lengst hafa haldið um stjórnvöl hér á Íslandi og lengst hafa forðast að takast á við verðbólguvandann. Og hvað blasir við okkur í dag? Það blasir við okkur, að þær skattahækkanir, sem nú er verið að leggja á þjóðina, muni draga stórkostlega úr rekstrarmöguleikum fyrirtækja í landinu. Atvinnureksturinn á við mjög alvarlega erfiðleika að stríða, og þegar skattseðlarnir koma um mitt sumar er ég hræddur um að rekstur heimila í þessu landi geti orðið býsna erfiður. Drög að þeim skattseðlum verða lögð nokkrum klukkustundum áður en dagur verkalýðsins gengur í garð, 1. maí. Það skyldi þó ekki fara svo, að þessi ríkisstj. skrifaði þá sögu á spjöldin, sem geymd eru, að hún hafi verið einhver mesta harðræðisstjórn láglaunafólks í þessu landi sem um getur.