29.04.1980
Neðri deild: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2195 í B-deild Alþingistíðinda. (2030)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Blaðafregnir í tveimur málgögnum, sem bæði hafa þótt vera höll undir núv. hæstv. ríkisstj., þ. e. Þjóðviljinn og Dagblaðið, tvær forsíðufregnir, sem birtust sama dag, miðvikudaginn 23. apríl þessa árs, vekja athygli og eru verðar samanburðar. Í fjögurra dálka forsíðu fyrirsögn í Þjóðviljanum er það haft eftir hæstv. fjmrh. Ragnari Arnalds, að skattalækkun verði 5500 millj. kr., hvorki meira né minna. En sama dag, einnig miðvikudaginn 23. apríl þessa árs, segir hæstv. forsrh. í viðtali við Dagblaðið: „Ekki möguleiki á skattalækkunum nú.“ Það er aldeilis auðsætt af þessu, að annar hvor þessara háu herra fer með rangt mál, því að ekki geta þeir fræðilega eða á annan hátt haft báðir rétt fyrir sér. (Fjmrh.: Jú, jú, það er einmitt það sem er.) Það er gersamlega útilokað að svo sé, og ég er sannfærður um það, að að þessu sinni er það núv. hæstv. forsrh. sem fer með rétt mál, svo spánskt sem það kann að koma einhverjum fyrir sjónir. Það er augljóst, að rætur þeirrar skattastefnu, sem hér á að fara að berja í gegnum hið háa Alþingi, liggja auðvitað í stjórnarstefnunni sjálfri. Rætur þessarar háskattastefnu, sem nú er verið að koma á, ekki aðeins í gegnum tekjuskatt, sem auðvitað er orðið bæði rangt og ósanngjarnt kerfi, eins og hér hefur verið rakið af fyrri talsmönnum Alþfl., heldur er það einnig svo, að þetta kemur skömmu eftir að Alþ. er búið að heimila, eftir miklar deilur þó, stórkostlega hækkun á útsvörum. Og þegar þetta tvennt er lagt saman, þá er auðvitað von að fyrsta spurningin sé þessi: Getur sú stjórnarstefna verið rétt, sem þarf efnahagslegar aðfarir eins og þær sem hafa verið samþykktar af meiri hl. þessarar stofnunar og hér er verið að leggja til nú?

Það er auðvitað tvennt sem veldur, bæði fyrst og síðast: Landbúnaðarstefnan, sem er orðin svo fokdýr að skattgreiðendur í þéttbýli þurfa stöðugt að greiða í gegnum skattakerfið meira og meira til þessarar röngu stefnu. Þetta er auðvitað ástæða nr. 1. Og ástæða nr. 2 er sú, að við þetta háa verðbólgustig — þegar einnig er ljóst að núv. ríkisstj. og fyrri ríkisstj. raunar einnig hafa ekki haft þrek, þor eða kjark til þess að fylgja eftir raunhæfri ávöxtunarstefnu fjármagns-glatast miklir fjármunir og þessa fjármuni er skattgreiðendum síðan gert að greiða, bæta ríkissjóði og stofnunum ríkisins í gegnum þetta hripleka skattakerfi.

Við erum nú að súpa seyðið af þessari röngu stefnu undanfarandi ára og röngu stefnu, sem er óeðlilega ýkt með tilkomu núv. hæstv. ríkisstj. Þó er það svo, að einhverjir stjórnarsinnar eru farnir að átta sig á því, hversu illa þessi pottur er brotinn. Á baksíðu Morgunblaðsins á sunnudaginn var birtist eitthvert forkostulegasta viðtal sem lengi hefur birst við íslenskan stjórnmálamann. Hér er náttúrlega átt við hæstv. sjútvrh. Steingrím Hermannsson. Steingrímur er þar að fjalla um vaxtamál, sem auðvitað eru nátengd því máli sem hér er til umr. Það er aldrei of oft undirstrikað, hversu vaxtastefna, ávöxtunarstefna fjár í landinu, er skyld þeirri skattapólitík sem hver ríkisstj. telur sig verða að framfylgja. Hæstv. ráðh. segir að sér sé nú orðið ljóst — og betur að fyrr hefði verið — að eftir að ríkisstj. heyktist á því að framfylgja landslögum 1. mars s. l. og bæta sparifjáreigendum upp hina auknu verðbólgu, þá hafi orðið stórkostlegt fjárstreymi út úr bönkunum. Því miður er hættan sú, að þessir peningar fari að stórum hluta í fjárfestingu sem engum arði skilar. Með þessum hætti er skipulega verið að draga niður lífskjörin í landinu og það svo, að nú munu vera á annað þúsund manns, sem bíða eftir því að flytjast til útlanda. Það hygg ég vera alvarlegustu tíðindi íslenskra efnahagsmála um langt skeið, og er þó langt til jafnað. En þessi frábæri hæstv. ráðh., Steingrímur Hermannsson, er steinhissa á því, eftir að hann er búinn að barma sér yfir því sem hann virðist bæði skilja og skilja ekki, að fjárstreymi út úr bönkunum sé gríðarlegt vegna þess að ríkisstj. hefur ekki staðið við það sem þó stendur skýrum stöfum í lögum nr. 13 frá 1979 að gera skuli, hefur ekki staðið við það að framfylgja ákvæðum í vaxtamálum, — þá er hæstv. ráðh. steinhissa á því, að það skuli hafa orðið fjárútstreymi úr bönkunum. Og niðurstaðan af þessu kostulega viðtali er frábær. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Kvaðst Steingrímur hafa lagt fram tillögu í ríkisstj. um að aðilar hennar settu saman nefnd“ heyri menn — „nefnd til þess að gera tillögur til betri samræmingar opinberra aðgerða í efnahagsmálum.“

Við, sem áttum að heita stuðningsmenn ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar 1978–1979, þekkjum svona nefndir og má furðulegt heita að þetta skuli vera að koma upp nú, þegar þetta heildardæmi er að renna upp fyrir stuðningsmönnum núv. hæstv. ríkisstj. Þar má einkum taka til þrennt, landbúnaðarstefnu, vaxtastefnu og skattastefnu. Þetta dæmi þeirra gengur einfaldlega ekki upp. Það fara fram stórkostlegir fjármunaflutningar meira og minna í arðlausa fjárfestingu, og þeir, sem að lokum borga brúsann, eru skattgreiðendur í landinu með þeim hróplega háu sköttum sem núv. hæstv. ríkisstj. er núna að reyna að berja í gegnum hið háa Alþingi.

Eins og fyrri félagar mínir í Alþfl., sem hér hafa talað, vil ég einnig mótmæla þeim ásökunum, sem einkum heyrast í tali hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., nánast hvenær sem við þá eru tekin viðtöl, að það sukkástand, sem hér ríkir nú og hefur ríkt um langt skeið, sé að kenna þeirri minnihlutastjórn Alþfl. sem hér sat í fimm mánuði. Þetta eru rakin ósannindi, enda hafa þau verið hrakin.

Í skýrslu frá Þjóðhagsstofnun, dags. 23. apríl þessa árs, sem ber yfirskriftina: „Nokkrar hagtölur á tímabili starfsstjórnar Alþfl. okt. 1979 til febr. 1980“ — eru birtar tölur um hækkun framfærsluvísitölu, og í ljós kemur að hún hækkaði á þessu fimm mánaða tímabili um 45%. En taki menn eftir því, að á næstu fimm mánuðum á undan, þ. e. þeim fimm mánuðum sem endanlega urðu til þess að við jafnaðarmenn töldum ekki annað fært en sprengja þáv. ríkisstj., þá er verðbólgustigið hér 80% á þessum fimm mánuðum, sem er auðvitað slíkt verðbólgustig að engin ríkisstj. hefur siðferðilegt leyfi til að sitja við slíkar aðstæður. Engu að síður er það einnig rangt, að það hafi verið blekkt með þeim hætti að sitja á augljósum verðhækkunartilefnum. Allt slíkt var afgreitt. En það var ekki afgreitt með þeim hætti að veita öllum það sem um var beðið, heldur var sérhvert verðhækkunartilefni skoðað og reynt að fylgja þeirri almennu reglu að fara ekki yfir 9% ársfjórðungslega. Þar var beitt því hagstjórnartæki sem síðar hefur verið kallað niðurtalning. Hún skilaði árangri meðan þó samhent ríkisstj. sat í landinu. Þessar tölur segja alla þá sögu sem margoft hefur verið vísað í, og þessar tölur sanna að það er rakalaus þvættingur hjá hæstv. forsrh. og hjá hæstv. fjmrh., sem opna ekki svo á sér munnana um óskyldustu mál að þeir fari ekki að kenna starfsstjórn Alþfl. um það hvernig komið var. Þessar tölur segja mikla sögu og þær segja einnig þá sögu, að þegar núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð, þá var — eins og komist hefur verið að orði — ekki stigið á neina hemla, heldur stigið á bensínið og gefið í botn, forhertasta afturhaldið í landinu látið um stjórn landbúnaðarmála og engu þorað að hnika til í vaxtamálum. Til samanburðar vil ég geta þess, að tveimur dögum fyrir kosningar framfylgdi ríkisstj. Alþfl. landslögum og hækkaði vexti eins og landslög skýrt og ótvírætt kveða á um. Og það skal viðurkennt, að meira að segja mörgum frambjóðanda flokksins þótti nóg um hörkuna. En þetta eru landslög og þeim á að framfylgja, enda var það gert. Næsta tímabil var komin svokölluð meirihlutastjórn í landinu. Og svo birtist árangurinn: Þetta forkostulega viðtal við hæstv. sjútvrh. Steingrím Hermannsson í Morgunblaðinu á sunnudag, sem hv. þm.

Friðrik Sophusson gerir raunar ágætlega að umfjöllunarefni í grein í Morgunblaðinu í dag.

Þetta eru ósannindi sem þessir tveir hæstv. ráðh. hafa borið á borð fyrir þjóðina nær statt og stöðugt frá því að núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð, eins og hér hefur verið rakið. Á hinn bóginn er það nákvæmlega eðli málsins samkvæmt og í rökréttu samhengi við fyrri hegðan og fyrri till. Alþfl., það nál. sem svokallaður 3. minni hl. fjh.- og viðskn. í Ed. hefur skilað og inniheldur stefnu Alþfl. í þessum efnum.

Alþfl. hefur sýnt ábyrga stjórnarandstöðu. Það er ekki eðli okkar að taka þátt í því að espa til verkfalla eða ábyrgðarlausrar kröfugerðar, ef verðmæti eru ekki til. Þann veg vinnur Alþfl. ekki, enda á ekki að vinna með þeim hætti. Hins vegar höfum við tekið mjög rækilega stöðu með Verkamannasambandi Íslands. Og menn skyldu taka eftir því, hversu ábyrgar þær till. eru í raun og veru sem Verkamannasamband Íslands hefur nýverið kynnt. Þeir segja — og tala þar af biturri reynslu — að áherslan eigi ekki fyrst og fremst að vera á peningalaunahækkanir, heldur eigi að stilla slíku í hóf, en bæta kjör þess fólks sem eilíflega og ævinlega hefur orðið undir í kröfugerðarkapphlaupi undanfarinna ára, þess fólks sem raunverulega er fórnarlömb þess ægilega verðbólguástands sem hér hefur ríkt. Engu að síður er það þetta fólk sem gengur á undan. Það er þetta fólk sem leggur á það áherslu, að peningalaunahækkanir út af fyrir sig séu ekki skynsamleg kjarabarátta, skynsamlegri kjarabarátta sé að leggja minni áherslu á peningalaunahækkanirnar, en meiri áherslu á félagsmálin og á skattapólitíkina. Og það er af hinu góða, að Alþfl. og Verkamannasambandið skuli eiga efnislega fullkomna samleið í þessum efnum. Það þýðir það, að við eigum ekki samleið með öðrum kröfugerðarhópum innan alþýðusamtakanna nú um sinn. Það er ekki hægt að vera bæði með og á móti þeirri aðferð að beita stjórnlausum peningalaunahækkunum. Þarna verða menn að velja og hafna og það höfum við gert. En þegar stórt og áhrifamikið samband eins og Verkamannsamband Íslands gefur upp boltann með þessum hætti, leggur áherslu annars vegar á ábyrga launapólitík, en hins vegar á þau tæki sem ríkisvaldið ræður yfir, sem eru skattatækin fyrst og fremst, þá skyldi maður ætla að velviljað ríkisvald tæki þessar kröfur til gagngerðrar athugunar. Maður skyldi ætla að skynsamleg ríkisstj. sæi, að það er mikið bæði félagslegt og efnahagslegt vit í þessari framsetningu Verkamannasambands Íslands. En ekkert af þessu gerir þessi ráðvillta hæstv. ríkisstj. Þvert á móti er anað út í skattafenið og með þeim hætti er sleginn löðrungur og þungt högg framan í andlitið á láglaunafólkinu í þessu landi. Þarna er svo óskynsamlega staðið að málum sem mest má verða. Ríkisstj., sem svona hagar sér, getur ekki, eftir hinar hóflega framsettu kröfur og þá vísa ég fyrst og fremst til Verkamannsambands Íslands, — slík ríkisstj. getur ekki vænst þess að fá frið á vinnumarkaði vegna þess hvernig hún sjálf hefur espað og efnt til óvinafagnaðar í þessu landi.

Þetta frv., sem hér á að keyra í gegnum hið háa Alþingi á miklum hraða, að mér skilst, vinnur gegn hagsmunum láglaunafólks í þessu landi. Það er hin átakanlega og sorglega staðreynd. En fyrir hverja berst þessi ríkisstj.? Hverra ríkisstj. er þetta eiginlega? Það er alveg ljóst, að þetta er ekki ríkisstj. launþegasamtakanna í landinu. Mín niðurstaða er sú, að þessi ríkisstj.ríkisstj. fyrir greiðslubáknsins. Hún er ríkisstj. fámenns hóps framleiðenda, hún er ríkisstj. niðurgreiddra lána, hún er ríkisstj. SÍS. Fyrr eða seinna hlýtur slík ríkisstj. að lenda í andstöðu við hin heilbrigðu samtök launafólks, og ég spái því að svo fari fyrr en seinna.