29.04.1980
Neðri deild: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2200 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

166. mál, fjölbrautaskólar

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það frv., sem ég mæli hér fyrir, er flutt samkv. sérstakri ósk frá fræðsluráði Reykjavíkur og að tilhlutan þess. Frv. fjallar um það, að menntmrn. og Reykjavíkurborg sé heimilt að gera með sér samning um að skólahald í samræmi við 1.–8. gr. laga um fjölbrautaskóla fari fram í fleiri sjálfstæðum skólastofnunum en einni. Eins og ég segi er þetta frv. flutt fyrir sérstaka áskorun frá fræðslustjóra og fræðsluráði Reykjavíkurborgar og fjallar í reynd um að svokallaður Ármúlaskóli í Reykjavík, sem nú er þegar í raun og veru orðinn einn stærsti fjölbrautaskóli í landinu, fái sjálfstæða stöðu. En þannig stendur á, að í lögunum sem um þetta fjalla, um heimild til að stofna fjölbrautaskóla, er aðeins gert ráð fyrir því, eftir orðanna hljóðan, að einn slíkur skóli megi starfa í Reykjavík. Hins vegar telja fræðsluráð og fræðslufulltrúi mjög mikilvægt að Ármúlaskólinn, þar sem eru þegar 600 nemendur, verði að sjálfstæðum fjölbrautaskóla.

En svo að sagan sé nokkuð rakin í þessu efni og til að skýra þetta frekar, þá var á árinu 1973 gerður samningur milli menntmrn. og Reykjavíkurborgar um að stofnaður yrði fjölbrautaskóli fyrir nemendur á framhaldsskólastigi í því nýja borgarhverfi sem kallað er Breiðholt og þá var í mikilli uppbyggingu. Þessi skóli átti, jafnframt því að vera hverfisskóli þarna, einnig að vera tilraunaskóli vegna þeirra breytinga á framhaldsskólastiginu sem þá var verið að taka upp. Þessi skólaskipan hefur verið kölluð fjölbrautaskóli. Nauðsynlegt þótti að afla lagaheimildar fyrir samningum milli rn. og Reykjavíkurborgar um stofnun fjölbrautarskóla í Breiðholti áður en hann hlyti staðfestingu samningsaðila og lög um það voru samþ. á Alþ. í apríl 1973.

Við meðferð málsins á Alþ. var bætt í frv. heimildarákvæði um að stofna mætti fjölbrautaskóla víðar en í Reykjavík, ef samningar tækjust um það milli menntmrn. og hlutaðeigandi sveitarfélags eða sveitarfélaga. Þetta heimildarákvæði var samþykkt og á grundvelli þess hafa verið stofnaðir allmargir fjölbrautaskólar víðs vegar um landið. En hvað Reykjavík snertir miðast lögin einungis við stofnun fjölbrautaskólans í Breiðholti.

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti tók til starfa haustið 1975 og hefur verið í mjög örum vexti. Þar eru á þessu skólaári um 1300 nemendur. Jafnframt því framhaldsnámi, sem þar fór fram, störfuðu á vegum Reykjavíkurborgar framhaldsdeildir gagnfræðastigs við nokkra skóla í Reykjavík, m. a. Lindargötuskóla, Ármúlaskóla og Laugalækjaskóla. Á undanförnum árum varð mikil breyting á framhaldsdeildum gagnfræðastigsins í þessum skólum, þar sem það lengdist allt upp í stúdentspróf, sem skólarnir sjálfir gátu þó ekki veitt, heldur urðu nemendur að útskrifast sem stúdentar á vegum Kennaraháskóla Íslands og Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Jafnframt lengingu námsins varð nauðsynlegt að samræma námsskipunina því eininga- og annakerfi sem fjölbrautaskólarnir höfðu tekið upp.

Vegna þessara breytinga var Ármúlaskólanum frá haustinu 1979 breytt í hreinan fjölbrautaskóla, en þangað höfðu þá flust þeir nemendur sem áður stunduðu nám í framhaldsdeildum gagnfræðastigs í Lindargötuskólanum og Laugalækjarskólanum. Jafnframt var ákveðið að Kvennaskólinn í Reykjavík yrði með uppeldisdeildir á framhaldsskólastigi og að hann yrði gerður að framhaldsskóla þegar grunnskólahald þar leggst niður að loknu skólaárinu 1980–81.

Í Ármúlaskóla, sem hér er sérstaklega um fjallað, eru nú nærri 600 nemendur. Hann er því í reynd einn stærsti fjölbrautaskóli landsins. Hins vegar hefur þótt skorta og skortir lagaheimild til þess að gera hann formlega að sjálfstæðum fjölbrautaskóla. Hann hefur því á yfirstandandi skólaári með samkomulagi milli menntmrn. og Reykjavíkurborgar verið að forminu til rekinn sem hluti af Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og á sama rekstrar- og kostnaðarskiptingargrundvelli milli ríkis og borgar og gilda um þann skóla. Sú breyting að gera Ármúlaskóla að sjálfstæðum fjölbrautaskóla mun því ekki hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Þar sem lög um framhaldsskóla verða ekki afgreidd á þessu þingi og telja verður óeðlilegt að Ármúlaskólinn fái ekki nú þegar viðurkenningu sem sjálfstæður framhaldsskóli sem geti starfað á eigin vegum og útskrifað nemendur á eigin ábyrgð, er þetta frv. borið fram. Skal ég ekki hafa um þetta fleiri orð. En ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. menntmn., og ég beini því til nm., strax og þeir telja sig vera hæfa til starfa sem vonandi verður fljótlega, að taka þetta mál fyrir. Eins og ég hef lýst, þá er þetta flutt samkv. sérstakri beiðni fræðsluyfirvalda hér í Reykjavík og ég hygg að þetta sé mál sem brýnt er að nái fram á þessu þingi. Vænti ég þess, að hv. menntmn. taki málinu sem slíku og sjái til þess, að hægt verði að afgreiða þetta mál sem lög á þessu þingi.