30.04.1980
Efri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

96. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er á dagskrá, hefur hlotið meðferð hv. Nd. Alþingis. Frv. fjallar um heimild til að greiða hreyfihömluðum uppbót á bensínkostnað ef brýna nauðsyn ber til, eins og það er orðað í frvgr.

Hér er um að ræða mál sem um allmargra mánaða skeið hefur verið mjög góð samstaða um hér á hv. Alþingi. Ég tel að ekki eigi að vera þörf á því að mæla mjög nákvæmlega fyrir því. Ég vil geta þess, að í grg. frv., eins og það var lagt fram í upphafi, var við það miðað að sú uppbót, sem hér er um að ræða, gæti kostað í kringum 60–65 millj. kr. á ári. Með tilliti til þeirrar góðu samstöðu, sem verið hefur um málið vil ég vænta þess, að hv. Ed. sjái sér fært að afgreiða málið á yfirstandandi þingi þó ekki sé langur tími til þingslita.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.