30.04.1980
Efri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2204 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

93. mál, skráning og mat fasteigna

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það frv., sem hér er flutt, er byggt á viðræðum sem hafa átt sér stað milli fjmrn. annars vegar og Reykjavíkurborgar hins vegar. Í þessum viðræðum kom það fram af hálfu Reykjavíkurborgar, að óskað væri eftir því að borgin annaðist sjálf mat fasteigna innan borgarmarkanna, en samkv. núgildandi lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 94 frá 1976 er það Fasteignamat ríkisins sem ákvarðar allt matsverð fasteigna á landinu. Hins vegar er sveitarfélögunum gert að annast ýmiss konar upplýsingastarfsemi í þessu skyni.

Með frv. því, sem hér er til umr., er verið að koma að nokkru til móts við þær óskir Reykjavíkurborgar sem ég nefndi. Meginbreytingin, sem lögð er til með frv., kemur fram í 3. mgr. 1. gr., sem er viðbót við núgildandi 6. gr. laganna. Samkv. henni er lagt til að ráðh. sé heimilt að fela einstökum sveitarfélögum eða samstarfsstofnunum þeirra að annast tiltekin störf til undirbúnings að mati fasteigna. Það er ljóst að með þessu er hugsanlega kleift að ná fram greiðara mati og endurskoðun mats en unnt er með þeim mannafla og aðstöðu sem Fasteignamat ríkisins hefur nú yfir að ráða. Í því sambandi skal einnig bent á að gert er ráð fyrir að heildarendurskoðun á matsverði allra fasteigna í landinu sé a. m. k. tíu ára verkefni og ekki vafi á því að slíkt endurmat er afar brýnt, m. a. vegna þess að mikils ósamræmis gætir í aðalmatinu sem var framkvæmt á árunum 1965–1970 og enn er að verulegu leyti byggt á sem stofni að framreikningi fasteignamats, sem samkv. núgildandi lögum fer fram ár hvert. Með slíkri samvinnu Fasteignamats ríkisins og sveitarfélaganna er væntanlega unnt að hraða þessu viðfangsefni, hraða undirbúningi þess að fasteignamat verði samræmt um land allt.

Önnur breyting, sem hér er lagt til að verði gerð, er reyndar minni háttar og kemur fram í 2. mgr. 1. gr. frv., þar sem fjallað er um heimild til að fela þar til greindum aðilum skráningu fasteigna. Breytingin felst í orðunum: „eða einstaka þætti hennar,“ þ, e. að fela þeim skráningu aðeins að hluta eða í áföngum eftir því sem henta þykir hverju sinni.

Ég legg á það áherslu að með 3. mgr. 1. gr. er alls ekki verið að leggja til að sveitarfélögunum sé falin hin endanlega matsstarfsemi. Það er ekki ætlunin að hverfa frá því að fasteignamat í landinu sé samræmt heildarmat á vegum eins opinbers aðila, þ. e. Fasteignamats ríkisins. Tilgangurinn er fyrst og fremst að ná fram greiðara mati og endurskoðun þess en er kleift samkv. núgildandi lögum og koma með þessu til móts við óskir stærsta sveitarfélags landsins.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði máli þessu vísað til fjh.- og viðskn.