30.04.1980
Efri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að fá að segja hér nokkur orð utan dagskrár og beina þá máli mínu til hæstv. forsrh., sem ég þakka fyrir að fá að eiga orðastað við hér um það mál sem ég ætla að ræða.

Hæstv. forsrh. viðhafði ummæli í sjónvarpsþætti í gærkvöld um verðbólguhorfur á þessu ári sem ég tel mjög villandi og fjarri því að vera rétt, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, ef ekki koma til nýjar aðgerðir ríkisstj. í efnahagsmálum aðrar en hin fræga niðurtalning. Hann taldi verðbólgu líklega verða frá ársbyrjun til ársloka 40% og ekki hærri en 45%. Útreikninga sem birst hefðu í blaði um 53–54% meðaltalsbreytingu á verðlagi milli 1979 og 1980 taldi hann „ekki rétta.“

Ég skýrði frá því í útvarpsumr. á mánudagskvöld, að í bréfi, sem borist hefði frá Þjóðhagsstofnun til fjvn., væri að finna nýjar upplýsingar um verðbólguhorfur á þessu ári. Þessar nýju áætlanir, sem gerðar voru að ósk fjvn., bentu til þess að uggvænlega horfði um verðbólguþróun á árinu. Í áætlun Þjóðhagsstofnunar, sem gerð er í samvinnu við Hagstofu, kemur fram að framfærsluvísitala hækkar á morgun, 1. maí, líklega um 13.18% og hækkun verðbótavísitölu á laun í samræmi við það er talin verða um 11–11.5% hinn 1. júní.

Í bréfi Þjóðhagsstofnunar segir í framhaldi af þessu: „Sé þessi þróun framlengd út árið miðað við óbreytt verðbótavísitölukerfi og á þeirri forsendu að aðrar kostnaðarbreytingar hafi áhrif á verðlag á líkan hátt og verið hefur gæti vísitala framfærslukostnaðar hækkað um nálægt 9% frá maí–ágúst og vart undir 10% frá ágúst–nóv.“

Dæmið lítur þá þannig út í samanburði við niðurtalningu hæstv. ríkisstj.: 1. maí átti niðurtalningin að hafa efri mörk 8%. Niðurstaðan er 13.2%. 1. ágúst áttu niðurtalningarmörkin að vera 7%, en verða vísitöluhækkun um 9%. 1. nóv. áttu niðurtalningarmörkin að vera 5%, en vísitöluhækkun framfærslukostnaðar verður þá ekki undir 10%, svo orðrétt sé vitnað í bréf Þjóðhagsstofnunar. Verðbólgan skeytir því engu um niðurtalningarmörk hæstv. ríkisstj. og er tvöföld miðað við niðurtalninguna síðustu þrjá mánuði þessa tímabils sem þegar er ákveðið um þessa frægu niðurtalningu.

Í framhaldi af þessu er fróðlegt að gera sér grein fyrir því, að í fyrra á sama tíma, frá 1. nóv. til 1. maí, hækkaði framfærsluvísitala um 17.7%, en nú hækkar framfærsluvísitalan á jafnlöngu tímabili um 23.3%. Hér er því greinilega um það að ræða að verðbólgan fer sínu fram þrátt fyrir niðurtalningaráform hæstv. ríkisstj. og er því miður dökkt fram undan í þessu efni.

Þetta sýnir að það er auðvitað markleysa að ætla sér með stjórnvaldsákvörðunum að telja niður kaupgjald og verðlag, en láta jafnframt vaða á súðum í ríkisfjármálum, peningamálum erlendum lántökum o. fl., eins og hæstv. ríkisstj. gerir. Áætlun Þjóðhagsstofnunar og Hagstofu, sem samkv. reynslu er alltaf varlega unnin og hefur því miður oftar en hitt reynst allt of bjartsýn, þýðir nákvæmlega reiknað 48% verðbólgu frá 1. nóv. í fyrra til 1. nóv. í ár og hún þýðir að framfærslukostnaður hækkar að meðaltali á árinu um 53–55% fram yfir meðaltalshækkunina á árinu 1979. Allt það, sem ég hef sagt um þetta mál í útvarpsumr., og það, sem eftir mér var haft í blöðum, þó ekki væri á það minnst í Vísi í gær, er rétt miðað við þær forsendur sem ég geng út frá, sem eru áætlanir Þjóðhagsstofnunar.

Ég vil í sambandi við þetta mál vekja athygli á að þessi áætlun er miðuð við verulegan niðurskurð gjaldskrárhækkana fyrir Hitaveitu Reykjavíkur, Strætisvagna Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur nú fyrir 1. maí, og eftir því sem ég best veit eru gjaldskrárhækkanir annarra opinberra fyrirtækja miðaðar við niðurtalninguna síðar á árinu sem ekki stenst, eins og ég hef hér rakið. Einnig er þessi áætlun byggð á óbreyttu grunnkaupi hjá öllum launþegum í landinu á þessu ári og því miklu meiri kjaraskerðingu en í fyrra, og var hún þó talsverð þá. Menn geta því á þessum forsendum séð hvort hér er um van- eða ofáætlun að ræða hjá Þjóðhagsstofnun og Hagstofu.

Spurning mín til hæstv. forsrh. er sú að þessu gefna tilefni: Hvernig skýrir hæstv. ráðh., að verðbólguhorfur séu um 40% og ekki meira en 45%, í ljósi upplýsinga sem ég hef hér tíundað og hann hlýtur að hafa undir höndum? Hvernig rökstyður hann að 53–55% meðalhækkun vísitölu framfærslukostnaðar milli ára, byggð á framangreindum forsendum, sé ekki réttur útreikningur?

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðh. um annað alvörumál. Samkv. nýjum upplýsingum, sem ég óskaði eftir frá Seðlabankanum í síðustu viku, verður greiðslubyrði afborgana og vaxta af erlendum lánum 16–17% af útflutningstekjum þjóðarinnar í ár, en miðað við 90 milljarða kr. erlendar lántökur, sem vart verða miklu minni samkv. fregnum af lánsfjáráætlun, verður þessi greiðslubyrði hvorki meiri né minni en 18.2% á næsta ári. Samsvarandi tala var 13.1% af útflutningstekjum 1978, og voru þá uppi ýmsar gagnrýnisraddir um að hér væri úr hófi keyrt. Hér er því meira en um uggvænlega þróun að ræða á skömmum tíma, þegar haft er í huga að nú er metafli, kannske meiri afli en ýmsir telja óhætt að taka úr sjónum, og verð á erlendum mörkuðum er það hæsta sem við höfum fengið. Hvað skeður um greiðslubyrði á erlendum lánum ef afli bregst eða verðfall verður?

Í málefnasamningi ríkisstj. segir: „Erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt, að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr u. þ. b. 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar.“ Spurning mín er í framhaldi af því sem ég hef sagt um þetta og vakti athygli á í útvarpsumr., en hæstv. viðskrh. sá ekki ástæðu til að minnast á í tveimur ræðum sem hann hélt á eftir mér. Ég spyr því í framhaldi af þessu: Hvað ætlar ríkisstj. að gera til að standa við þetta ákvæði í málefnasamningnum, sem mér sýnist vera eitt af gagnlegustu ákvæðum þessa merkilega samnings?