30.04.1980
Efri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2210 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin þó að ég hafi ekki búist við því að hæstv. ráðh., sem er gamalreyndur í þingsölum, mundi svara mér með jafnstrákslegum hætti og hann gerði, að væna mig um að ég kynni ekki að leggja saman og draga frá. Ég hélt að hæstv. ráðh. væri upp úr því vaxinn að fara með slíkan málflutning. — En ég skal víkja efnislega að því sem hæstv. ráðh. sagði um þessi mál.

Í fyrsta lagi vil ég víkja að því sem hann sagði um greiðslubyrðina. Mér var fullkunnugt um þann fyrirvara sem var í málefnasamningi ríkisstj., en ég var svo barnalegur að halda að hæstv. ríkisstj. hefði sett þessa tölu í málefnasamning sinn til þess að það yrði eitthvert mark á henni tekið. Það er greinilegt að hæstv. ríkisstj. ætlar ekki að gera það og hún ætlar að fara algerlega í kringum þessa tölu eins og köttur í kringum heitan graut.

Hann sagði að ég hefði búið mér til tölu um 90 milljarða kr. erlendar lántökur samkv. lánsfjáráætlun. Það var athyglisvert, að hæstv. ráðh. minntist ekkert á hversu mikil frávik hér væri um að ræða frá því sem væri ætlun ríkisstj. Ég vil leggja á það þunga áherslu í sambandi við þetta mál, að frá því árið 1978 hefur greiðslubyrði þjóðarinnar vaxið um rúm 5% vegna vaxta og afborgana í hlutfalli af útflutningstekjum á næsta ári ef að líkum lætur. Ég er hér með undirskrifað skjal frá Seðlabanka um þá áætlun, að greiðslubyrðin verði yfir 18% 1981. Metafli er á þessu ári og verð er með besta móti á erlendum mörkuðum. Spurning mín var þessi og hæstv. ráðh. svaraði henni ekki: Hvað skeður ef annað hvort bregst eða kannske hvort tveggja? Ég held að við séum þarna — og það hryggir mig að hæstv. ráðh er ekki á sama máli og ég — að tefla á tæpt vað í fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar gagnvart erlendu peningavaldi, þótt við séum öðrum þræði að byggja hér upp gjaldeyrissparandi iðnað og ýmislegt sem skilar arði. Ég er hæstv. ráðh. alveg sammála um að slíkar framkvæmdir ættu að njóta algers forgangs. En spurningin er hvort við verðum ekki að spyrna við fótum á þessu sviði. Ég vildi vekja athygli á því að hæstv. ríkisstj. stefndi langt út fyrir þau mörk sem hún setti sjálfri sér í þessu efni. Ef hún hefði ekki talið að þyrfti að setja nein mörk að þessu leyti, hvers vegna í ósköpunum var þá þessi tala sett inn í málefnasamning hæstv. ríkisstj.?

Ég get verið nokkuð stuttorður um hinn þáttinn. Hæstv. ráðh. byggði á tvennu í málflutningi sínum þegar hann svaraði mér um verðbólguna. Hann sagði að þessar tölur væru rangar og það hefði verið reiknað skakkt. Nú skal ég upplýsa hæstv. ráðh. um að það á ekki að leggja þessar tölur saman eins og hann sagði. Þegar verið er að reikna út vísitölu frá ársbyrjun til ársloka setur maður vísitöluna 100 þegar byrjað er og margfaldar síðan tölurnar. Maður margfaldar 109.1 með 113.2 og útkomuna með 109.0 og svo 110.0, en leggur ekki saman eins og hæstv. ráðh. sagði. Ég vona að hæstv. ráðh. kunni þetta framvegis.

Í annan stað sagði hæstv. ráðh. að þessar tölur, og endurtók það margsinnis, væru rangar og ég hefði rangtúlkað skýrslur. Ég vil benda hæstv. ráðh. á að ég sagði að ég væri að tala þarna um 53–55% meðaltalshækkun verðbólgu milli ára. Veit hæstv. ráðh. ekki hvað meðaltalsverðbólga er á milli ára? Veit hæstv. ráðh. ekki að fjárlög hans eru gerð upp á 47.5% meðaltalshækkun verðbólgu milli ára, sem er hærri tala en hann álítur að verðbólgan verði á þessu ári frá ári til árs? Við erum að tala þarna um tvo hluti sem eru ólíkir: meðaltalsverðbólgu milli ára og verðbólgu frá ári til árs.

Fjárlög miða við að verðbólga frá ársbyrjun til ársloka verði rétt rúm 30%, en að meðaltatsverðbreyting miðað við framfærslukostnaðarvísitölu milli áranna 1979 og 1980 verði 47.5%. Þessi tala er komin upp í 53–55%. Það er því algerlega rangt og sýnir vankunnáttu hæstv. ráðh. á þessu sviði sem hann sagði hér um hvernig ég hefði reiknað. Hér er nákvæmlega rétt reiknað. Vegna þess að hæstv. ráðh. talaði á svona strákslegan hátt um reikningskunnáttu mína get ég ekki stillt mig um að segja honum í bróðerni að hann þyrfti að kynna sér þennan reikning nánar.

Hæstv. ráðh. gerði mikið úr því að það væri geymdur vandi, sem hann væri að kljást við í verðbólgumálunum. Hæstv. forsrh. talaði þarna um geymdan og lengdan vanda, og mér datt í hug að það vantaði bara geymdan, lengdan og togaðan vanda. Að sjálfsögðu er hér um að ræða vandamál sem er ekkert annað en að víxlhækkun kaupgjalds og verðlags er í fullum gangi og ekkert er gert til að hefta þann skrúfugang, eins og hv. fyrrv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði einu sinni. Ríkisfjármálunum er þannig stjórnað að þau hafa engin áhrif þar á, frekar að þau ýti undir. Eins er með erlendar lántökur. Nú stefnir í 15–20 milljarða kr, viðskiptahalla, sem gerir það að verkum að taka þarf eyðslulán að auki til þess auðvitað að hella olíu á verðbólgubálið. Allt er þetta þannig, að víxlgangur kaupgjalds og verðlags er í fullum gangi og á meðan þannig er verður þessi vandi fyrir hendi.

Ég óska hæstv. ráðh. til hamingju með að lesa þessa umr. eftir nokkra mánuði og sjá hvað hér hefur farið fram. Það er kannske rétt að enda á því að segja að reynslan er ólygnust. Og ég er algerlega óhræddur að láta reynsluna dæma hvor okkar hæstv. ráðh. hefur farið hér með rétt mál. En ég tel mjög alvarlegt þegar þjóðin er beinlínis blekkt í málum sem þessum, eins og hæstv. ráðh. gerði í sterkasta fjölmiðli þjóðarinnar.