30.04.1980
Efri deild: 72. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2215 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. þm. Lárus Jónsson skýrir fsp. sínar utan dagskrár með því að það sé erfitt að ná í ráðh. til að eiga orðastað við þá, hann búist ekki við að þeir verði hér viðstaddir þegar mikilvæg frv. koma til umr. Ég verð að segja, að ég kannast ekki við að ráðh. séu ekki viðstaddir í deildum eða Sþ. þegar mál, sem undir þá heyra, eru til umr., og tel að ekki séu rök fyrir þessum ásökunum hv. þm.

Varðandi ummæli hv. 2. þm. Reykn., Kjartans Jóhannssonar, vil ég fyrst taka það fram út af hinum svokallaða geymda vanda, að hæstv. viðskrh. gerði glögglega grein fyrir því með dæmum í útvarpsumr. í þessari hv. d. fyrir tveim dögum. Þessi mál heyra nú undir viðskrn., eins og kunnugt er, og ég held að það hafi komið skýrt fram hvað hér var um að ræða.

Hins vegar kom dálítið spánskt fyrir þegar hv. þm. hóf lofsöng sinn um stjórn Alþfl. Að vísu er þess að gæta að hann var ráðh. í þeirri stjórn sem næst sat á undan. En hann gat þess, að stjórn Alþfl. hefði skilað af sér góðu búi. Þessi skil á hinu góða búi birtust í því, að í lok ársins hafði verðbólgan hækkað um 61% frá ársbyrjun og hann hafði verið ráðh. allan þann tíma. Ég held að það sé ekki hægt að segja að það hafi verið gott bú sem við var tekið með þá geysilegu verðbólgu sem hér ríkti, og þess er langt að leita, trúlega áratugi hér á Íslandi, að verðbólga hafi verið eins gífurleg og þessi tala bendir til.