21.12.1979
Efri deild: 12. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

42. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. hefur fjallað um frv. til l. um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði og heimildir til lántöku á árinu 1980 eins og það kom frá Nd. N. hefur skilað áliti á þskj. 70 og er sammála um að mæla með samþykkt frv.

Það er e.t.v. rétt að geta þess í leiðinni, að þegar þetta mál kom til umr. hér í þessari d. í gærkvöld, varpaði fjmrh. fram hugmynd í sambandi við 3. gr. frv., en þar segir: „Fjmrh. f.h. ríkissjóðs er heimilt að taka lán allt að jafnvirði 12 000 millj. kr. í erlendum gjaldeyri á árinu 1980 og verja andvirði þess að fengnu samþykki fjvn. til framkvæmda“ o.s.frv. Fjmrh. varpaði fram þeirri hugmynd, hvort hér mundi ekki nægja samþykki undirnefndar fjvn. í stað þess að samþykki fjvn. væri áskilið, þannig að ekki þyrfti í þinghléinu nú milli hátíðanna að kalla alla fjvn. saman. Um þetta var rætt á fundi fjh.- og viðskn. í gærkvöld og voru menn þar á einu máli um að breyta þessu ekki, heldur láta þetta standa óhreytt. Um undirnefnd fjvn., þótt starfað hafi lengi og eftir föstum reglum og í föstu formi, eru engin ákvæði í neinum lögum, heldur starfar hún samkv. venju. Því þótti nefndarmönnum nokkurt fljótræði að gera það í mikilli skyndingu að veita þessari undirnefnd, þótt góð og gild sé, stöðu í lögum og að lögum. Þess vegna verður sá háttur hafður á, ef til kasta fjvn. kemur í þinghléi, að öll nefndin verður að sjálfsögðu kölluð saman til þess að fjalla um þau mál sem hún kann að þurfa að skera úr skv. þessari 3. gr., veita samþykki eða synja. En fjh.- og viðskn. mælir sem sagt með samþykkt þessa frv. óbreytts.