30.04.1980
Neðri deild: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2220 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

168. mál, listskreytingar opinberra bygginga

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Við þrír þm. Sjálfstfl., þ. e. auk mín hv. 3. þm. Reykn., Ólafur G. Einarsson, og hv. 7. landsk. þm., Halldór Blöndal, flytjum á þskj. 369 frv. til l. um listskreytingar opinberra bygginga.

Í lögum hafa um nokkurt skeið verið ákvæði þess efnis, að heimilt sé að verja allt að 2% af áætluðum stofnkostnaði skólamannvirkja til listskreytinga á þeim mannvirkjum. Þetta nýmæli í lögum var sett inn 1967 og þá þannig að menntmrn. gæti að fenginni umsögn sveitarstjórnar ákveðið slíka listskreytingu. Áður höfðu þó ýmsar skólabyggingar verið listskreyttar og má í því sambandi benda á lágmyndir Ásmundar Sveinssonar á Austurbæjarbarnaskólanum, eitt af hans fyrstu verkum, er hafa skreytt þann skóla síðan hann var tekinn í notkun árið 1930. Enn fremur má nefna málverk Jóhanns Briems í Laugarnesskóla, veggskreytingar Barböru Árnason í Melaskóla svo og mósaikmyndir Valtýs Péturssonar og reyndar Gunnlaugs Schevings, að ég held, í Kennaraskólahúsinu við Stakkahlíð.

Í lögum um grunnskóla var þetta ákvæði sett inn að nýju, en þá með þeirri breytingu að sveitarstjórn geti ákveðið listskreytingu skólamannvirkja með samþykki menntmrn. Er heimildin fyrir allt að 2% af áætluðum stofnkostnaði skólamannvirkis.

Enginn vafi er á því, að þær heimildir, sem voru settar í lög árið 1967, hafa örvar mjög listskreytingar í skólum þótt ljóst sé að þær hafa ekki verið notaðar í eins ríkum mæli og æskilegt væri. Ég vil í því sambandi vitna til svars sem hæstv. menntmrh. gaf í Sþ. 22. apríl s. l. við fsp. sem ég bar fram um það, hvernig þessar heimildir hefðu verið nýttar. Ljóst er að þær hafa verið nýttar í ýmsum tilvikum, en þó virðist það vera að í fleiri skólum hafi þetta ákvæði ekki komið til framkvæmda og listskreytingar ekki verið settar í þá skóla.

Frv. það, sem hér er flutt, gerir ráð fyrir allmikilli breytingu á þeim lagaákvæðum sem um þetta hafa gilt. Þær breytingar eru tvíþættar. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að listskreytingar nái ekki aðeins til skólabygginga, heldur til allra opinberra bygginga, þó með ákveðnum undantekningum, sem í grófum dráttum eru taldar upp í 1. gr. frv., þ. e. undanþegnar séu byggingar sem reistar eru til bráðabirgða, byggingar sem standa fjarri alfaraleið, skemmubyggingar og aðrar sambærilegar byggingar. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að í staðinn fyrir heimild, eins og nú er kveðið á um í lögum um skólamannvirki, skuli hér vera um skyldu að ræða, þ. e. að skylt sé að verja til listskreytinga opinberra bygginga fjárhæð er nemi allt að 2% af byggingarkostnaði mannvirkis, þó ekki lægri en 1%. Í grg. er þetta ákvæði nánar skýrt þannig, að gert sé ráð fyrir að meginreglan verði sú, að það verði farið nálægt 2% af byggingarkostnaði við allar venjulegar byggingar, en hins vegar megi þó lækka þá fjárhæð allt niður í 1% þegar um mjög dýrar byggingar er að ræða eða mjög stórar byggingar, og má þar t. d. nefna sjúkrahúsbyggingar.

Það er gert ráð fyrir að fjárhæð þessari megi verja jafnt til listskreytinga utan húss sem innan, sem væri þá hluti af mannvirki, t. d. mósaikmyndir sem felldar eru í veggi utan húss eða innan, eða til kaupa á lausum listaverkum sem komið sé fyrir í byggingunni eða á lóð hennar.

Gert er ráð fyrir að viðmiðunin sé áætlaður byggingarkostnaður þegar um er að ræða listaverk sem felld séu inn í sjálfa bygginguna og verði hluti af henni, en endanlegur byggingarkostnaður þegar um er að ræða laus listaverk sem keypt eru eftir á til að setja í byggingar eða á lóðir þeirra.

Ef bygging er reist í áföngum, sem mjög oft er, er gert ráð fyrir að lög þessi komi til framkvæmda eftir því sem hverjum áfanga miðar áfram.

Með listskreytingu opinberra bygginga vinnst margt. Þjóðin verður ríkari af listaverkum og með því að tengja þau opinberum byggingum er þeim komið fyrir á stöðum þar sem margir eiga að jafnaði leið um og geta notið listaverkanna. Íslenskir listamenn fá enn fremur tækifæri á þennan hátt til að vinna að list sinni, og enginn vafi er á því, að laun fyrir slík verk eru flestum listamönnum kærkomnari en styrkir hins opinbera. Reynslan sýnir að íslenskir listamenn hafa tekið slíkum verkefnum vel og fagnað þeim og unnið þau af alúð.

Það er enginn vafi á því, að þó að mönnum hafi e. t. v. í upphafi vaxið nokkuð í augum kostnaður sem slíku fylgir verða slík listaverk fljótlega ómissandi þáttur af umhverfinu. Ég hef t. d. komið í nokkra skóla hér í Reykjavík þar sem slík listaverk hafa verið sett upp, og þó að mönnum hafi e. t. v. ofboðið kostnaður í upphafi, eða a. m. k. sumum úrtölumönnum, þá held ég að þegar verkið er fullkomnað og komið á sinn stað muni enginn vilja missa það úr umhverfi sínu. Og ég er ekki í vafa um að t. d. í skólum eru slík verk líkleg til að þroska listasmekk ungs fólks og til að kenna fólki að meta og umgangast listaverk betur en ella.

Ég hygg að það standi engum aðilum í þjóðfélaginu nær en ríki og sveitarfélögum að tryggja aðgang almennings að listaverkum. Þetta er unnt að gera á margan hátt, en ég held að ein árangursríkasta aðferðin sé að tengja þau opinberum byggingum, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Reynslan hefur sýnt, m. a. í skólabyggingunum, að skilningur manna á þessu er mjög misjafn. Sums staðar hafa menn ekki hirt um að nota heimildarákvæðin í þessu skyni. Þessu frv. er því ætlað að tryggja að allar opinberar byggingar, með nokkrum undantekningum þó, verði listskreyttar. Það er trú flm. að með því verði auðgað íslenskt lista- og menningarlíf.

Ég gat þess þegar fsp. var til umr. í Sþ. ekki alls fyrir löngu, að í Noregi hefur sú leið verið farin sem hér er lögð til, þ. e. að gera listskreytingar að skyldu við allar opinberar byggingar.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að þegar um er að ræða skólabyggingar eða aðrar byggingar, sem kostaðar eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, sé frumkvæðið í höndum sveitarfélaganna, en tillögur um listskreytingar háðar samþykki menntmrn., en önnur rn., þ. e. rn. sem viðkomandi stofnun heyrir undir, komi við sögu þegar um aðrar stofnanir er að ræða, t. d. heilbrigðisstofnanir.

Þetta frv. er flutt þegar nú er langt liðið á þingtímann. Við flm. gerum okkur vissulega ekki vonir um að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi, en það væri þó mjög æskilegt að það kæmist til n. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði því vísað til hv. menntmn. þessarar deildar, og æskilegt væri að nota tímann til að fá umsagnir ýmissa aðila um þetta mál, bæði samtaka listamanna, Sambands ísl. sveitarfélaga og annarra aðila sem málið kann að snerta, þannig að hægt sé að taka það upp á þingi að nýju næsta haust og þá með þeim aths. sem kunna að hafa fram komið.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og til hv. menntmn. þessarar deildar.